Þarf að endurreisa fæðingarorlofið hraðar

Það eru veruleg vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir fjölgun lögreglumanna í fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar.

Hraða þarf endurreisn fæðingarorlofskerfisins, auka stuðning við barnafjölskyldur og koma til móts við ungt fólk sem vill koma þaki yfir höfuðið segir meðal annars í umsögn BSRB um fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

BSRB fagnar því að hækka eigi hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi í 520 þúsund krónur á mánuði en telur að taka þurfi stærri skref strax í að endurreisa fæðingarorlofskerfið.

„Bandalagið hvetur því til enn stærri og hraðari skrefa í þá átt að endurreisa fæðingarorlofskerfið og til að markmið fæðingarorlofslaga um að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf nái fram að ganga. Dregið hefur verulega úr þátttöku feðra í fæðingarorlofi frá 2008 og ljóst er að meira þarf til að endurreisa kerfið en 20 þúsund króna hækkun á hámarksgreiðslum,“ segir meðal annars í umsögninni.

Þá er bent á að útgjöld til barnabóta munu lækka um rúmar 200 milljónir króna að raungildi, eða um tvö prósent, frá fjárlögum 2017. Þá fækki þeim fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur. Ekki verði því séð að tekið sé undir sjónarmið BSRB um að auka stuðning við barnafjölskyldur og vinna að fjölskylduvænna samfélagi í frumvarpinu.

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að framlög til vaxtabótakerfisins lækki um 2,1 milljarð króna. Viðmiðunarfjárhæðir hafa haldist óbreyttar frá árinu 2010 og hafa því ekki haldið í við laun eða fasteignaverð. Þetta þýðir að vaxtabæturnar skerðast og bitnar helst á ungu fólki sem þarf að taka sífellt hærri lán til að koma sér upp heimili en fær á sama tíma lægri vaxtabætur.

Veruleg vonbrigði með löggæslumál

BSRB lýsir yfir vonbrigðum með að fjárframlög til Vinnustaðanámssjóðs lækki að raungildi. Bandalagið hefur lagt áherslu á að fjölga þurfi tækifærum fólks sem ekki hefur lokið framhaldsmenntun til að afla sér menntunar. Þá hefur það verið skoðun bandalagsins að meta þurfi hæfni og þekkingu að verðleikum óháð því hvort hennar er aflað í menntastofnun eða á vinnumarkaði.

Að lokum tekur BSRB undir með Landssambandi lögreglumanna sem hefur ítrekað bent á að stórauka þurfi fjárframlög til löggæslu í landinu. Lögreglumönnum hefur fækkað úr 712 árið 2007 í um 660 í dag, en samkvæmt mati Ríkislögreglustjóra þyrftu þeir að vera 860 að lágmarki. Það eru veruleg vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir viðbótar fjárveitingum til að fjölga lögreglumönnum.

Lesa má umsögn BSRB um fjárlagafrumvarpið í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?