Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018, 1. mál

Reykjavík, 20. desember 2017

 

BSRB fékk með tölvupósti dags. 12. desember sl. til umsagnar frumvarp til laga um fjárlög 2018, 1. mál. Ekki hefur gefist tími til að yfirfara einstaka liði frumvarpsins á svo skömmum tíma og nær umsögnin því einungis til nokkurra þátta þess.

Eins og BSRB hefur ítrekað bent á verður að búa launafólki félagslegt öryggi svo það geti mætt afleiðingum af slysum og veikindum eða atvinnumissi, eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Þá þarf að tryggja öldruðum og öryrkjum lífeyri sem gerir þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi. Grundvöllur þess er réttlátt skattkerfi sem rekið er með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Almannaþjónustuna verður að reka á samfélagslegum grunni þar sem allir eiga jafnan rétt, óháð efnahag.

Þetta er allt hluti af því að viðhalda og bæta félagslegan stöðugleika, sem er lykilforsenda fyrir stöðugleika á vinnumarkaði. Ekki dugir að einblína á efnahagslegan stöðugleika, enda verður hann ekki til ef ekki er gætt að félagslegum sjónarmiðum til jafns við þau efnahagslegu.

BSRB fagnar hækkun á framlagi til Fæðingarorlofssjóðs og að hækka eigi hámarks-greiðslur til sjóðsins úr 500 þúsund krónum á mánuði í 520 þúsund krónur, en líta verður svo á að það sé einungis fyrsta skref í þá átt að endurreisa fæðingarorlofskerfið. BSRB tók þátt í starfi starfshóps sem mótaði framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem lagði til að hámarksgreiðslur yrðu 600.000 krónur og tekjur upp að 300.000 yrðu ekki skertar. Starfshópurinn lagði jafnframt til að fæðingarorlofið yrði lengt í 12 mánuði. Bandalagið hvetur því til enn stærri og hraðari skrefa í þá átt að endurreisa fæðingarorlofskerfið og til að markmið fæðingarorlofslaga um að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf nái fram að ganga. Dregið hefur verulega úr þátttöku feðra í fæðingarorlofi frá 2008 og ljóst er að meira þarf til að endurreisa kerfið en 20 þúsund króna hækkun á hámarksgreiðslum.

Útgjöld til barnabóta dragast saman um rúmar 200 m.kr. að raungildi, eða um 2% frá fjárlögum 2017. Að sama skapi fækkar fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur. BSRB hefur í umræðu um félagslegan stöðugleika lagt áherslu á að auka þurfi verulega stuðning við barnafjölskyldur og vinna áfram að því að gera samfélagið fjölskylduvænna. Ekki verður séð að frumvarpið stuðli að því.

BSRB lýsir yfir áhyggjum af þróuninni í vaxtabótakerfinu en samkvæmt fjárlögum lækka framlög til vaxtabóta um 2,1 milljarð króna. Viðmiðunarfjárhæðir haldast óbreyttar á milli ára og hafa haldist óbreyttar allt frá árinu 2010. Fjárhæðirnar hafa því ekki haldið í við breytingar á verðlagi, launum eða fasteignaverði. Vaxtabæturnar skerðast vegna launa og því aukast skerðingarnar á milli ára vegna launahækkana. Hins vegar hefur fasteignaverð hækkað umfram laun. Þetta bitnar helst á ungu fólki sem þarf að taka hærri fasteignalán til að koma sér upp heimili en fær á sama tíma lægri vaxtabætur.

Áhersla BSRB hefur verið að fjölga þurfi tækifærum fólks sem ekki hefur lokið framhaldsmenntun til að afla sér menntunar sem hentar svo eiginleikar hvers og eins nýtist sem best. Skoðun bandalagins hefur verið að meta þurfi hæfni og þekkingu að verðleikum óháð því hvort hennar er aflað í menntastofnun eða á vinnumarkaði. Til að stuðla að því að svo verði hefur BSRB m.a. tekið þátt í starfi samráðshóps um fagháskólanám. Þá lýsir bandalagið jafnframt yfir vonbrigðum yfir því að fjárframlög til Vinnustaðanámssjóðs lækki að raungildi m.a. í ljósi þess markmiðs ríkisstjórnarinnar að efla verk- og starfsnám.

Þá tekur BSRB undir með Landssambandi lögreglumanna, sem hefur ítrekað bent á að stórauka þurfi fjárframlög til lögreglu. Skortur þar á hefur leitt til verulegrar fækkunar lögreglumanna. Fjöldi lögreglumanna er nú um 660 en samkvæmt mati Ríkislögreglustjóra þurfa þeir að vera 860 að lágmarki. Til samanburðar má benda á að árið 2007 voru þeir 712. Í gegnum árin hefur fjöldi loforða verið gefin um úrbætur t.d. samhliða fjölgun Íslendinga og aukningu ferðamanna sem hingað koma, en ekki hefur verið staðið við þau fyrirheit. Það eru því veruleg vonbrigði að í frumvarpi þessu sem hér er til umsagnar sé ekki gert ráð fyrir viðbótar fjárveitingum til að fjölga lögreglumönnum. Það hefur áhrif á öryggi lögreglumanna og öryggi borgaranna. Enn fremur mætti ætla að í framhaldi af yfirstandandi byltingu og vitundarvakningu um áreitni og kynferðisofbeldi og vilyrða ríkisstjórnarinnar um úrbætur í þeim efnum þurfi enn frekar að auka fjárframlög til málaflokksins.

 

Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?