Viðsemjendur fengu gula spjaldið á baráttufundum

Baráttufundurinn í Háskólabíói var afar vel sóttur. Skoðaðu fleiri myndir í myndasafninu.

Þátttakendur á baráttufundum opinberra starfsmanna um allt land í gær voru með skýr skilaboð fyrir stjórnvöld og sveitarstjórnarfólk og kröfðust kjarasamninga strax. Gríðargóð mæting var á baráttufund í Háskólabíó, sem og á fundi sem haldnir voru á landsbyggðinni og mikill hugur í fundarmönnum.

Tíu mánuðir eru nú liðnir frá því kjarasamningar þorra félagsmanna aðildarfélaga BSRB losnuðu, og það sama á við um fjölmarga félagsmenn BHM og alla félagsmenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem stóðu að fundinum með BSRB.

„Þolinmæðin sem við áttum nóg af í byrjun apríl í fyrra er löngu þrotin. Mér er misboðið fyrir hönd félagsmanna yfir þessum seinagangi,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í ávarpi sínu á baráttufundinum í Háskólabíói.

„Opinberir starfsmenn hafa í gegnum tíðina þurft að berjast af hörku fyrir öllum helstu kjarabótum sem þeir hafa fengið. Kjarabótum sem við teljum sjálfsögð réttindi í dag. Ef við þurfum að leggja í enn einn slaginn til þess að ná markmiðum okkar þá gerum við það,“ sagði Sonja.

„Nú gefum við sveitastjórnum og ríkisstjórninni gula spjaldið! Ef ekki verður gengið til kjarasamninga við opinbera starfsmenn strax er næsta skrefið að boða til verkfalla sem geta lamað almannaþjónustuna. Það er ekki staða sem við óskum okkur, en ef það reynir á okkar sterkasta vopn þá munum við beita því. Tíu mánuðir er langur tími. Of langur tími. Við bíðum ekki lengur. Krafan er: Kjarasamninga strax!“ sagði Sonja í ávarpi sínu.

Hægt er að horfa á baráttufundinn í heild sinni hér að neðan.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?