Orlof hluti af grundvallarréttindum launafólks

Fróðleikur
Lágmarksorlof fyrir fólk í fullu starfi eru 24 dagar.

Sumarfrístíminn er genginn í garð og líklega eru margir félagsmenn BSRB búnir að skipuleggja orlofið sitt. Um orlof er fjallað í orlofslögum og í kjarasamningum, en réttur til orlofs var lengi vel eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar. Nú er orlof hluti af grundvallarréttindum alls vinnandi fólks enda mikilvægt fyrir heilsu og hamingju að taka frí frá störfum í töluverðan tíma og ná hvíld og endurheimt starfsorku.

Lágmarksorlof fyrir fólk í fullu starfi er 24 dagar en í kjarasamningum er samið um betri réttindi og í flestum tilvikum allt að 30 dögum. Það er misjafnt hvernig aukinn orlofsréttur ávinnst, á almennum vinnumarkaði gerist það með auknum starfsaldri en á opinbera markaðnum hefur það verið með hækkandi lífaldri. Bann við mismunun á grundvelli aldurs tekur gildi 1. júlí 2019 og er því líklegt að ákvæðum kjarasamnings um lengra orlof vegna hærri lífaldurs verði breytt í þeim viðræðum sem standa yfir núna. Orlof reiknast á öll laun, þannig ef viðkomandi starfsmaður vinnur yfirvinnu sem er misjöfn eftir mánuðum skal hann fá orlofslaun reiknuð ofan á þá yfirvinnu, oftast á bilinu 10,17 prósent til 13,04 prósent.

Atvinnurekandi á að verða við óskum starfsmanna um hvenær þeir vilja taka orlof nema sérstakar aðstæður í starfseminni hamli því. Starfsmenn eiga rétt á að fá að minnsta kosti 20 daga orlof á sumartímanum, frá 1. maí til 15. september, og ef það er mögulegt skulu þeir eiga rétt á að taka allt orlofið í heilu lagi þá. Í flestum kjarasamningum eru ákvæði um að orlof lengist um 25 prósent ef taka þarf það utan sumarorlofstímabils, í sumum samningum þarf atvinnurekandi að krefjast þess að starfsmaður taki orlof utan tímans en í öðrum samningum er rétturinn til lengingar skilyrðislaus.

Greina þarf á milli orlofsréttar og réttar til orlofslauna. Ef starfsmenn hafa nýlega hafið störf hjá nýjum vinnuveitanda eiga þeir rétt á launalausu leyfi allt að lágmarksorlofi þó þeir hafi ef til vill bara áunnið sér rétt til fárra daga á launum. Ef starfsmaður hættir störfum skal áunnið orlof gert upp við starfslok.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?