Trúnaðarmenn fari ekki á vakt beint eftir námskeið

Fróðleikur
Trúnaðarmenn eiga rétt á að sækja námskeið á vinnutíma til að bæta við þekkingu sína.

Trúnaðarmenn hafa veigamiklu hlutverki að gegna. Þeir eru fulltrúar stéttarfélags á vinnustaðnum og þeim ber að gæta að réttindum samstarfsmanna sinna. Hlutverk trúnaðarmanna getur verið krefjandi og er mikilvægt að trúnaðarmenn séu ávallt vel meðvitaðir um réttindi sín og annarra á vinnustaðnum.

Með það að leiðarljósi er trúnaðarmönnum tryggð þau mikilvægu réttindi að geta sótt málþing, fundi, ráðstefnur og námskeið í allt að fimm vinnudaga á ári án skerðingar á reglubundnum launum. Þannig geta trúnaðarmenn til dæmis sótt fræðslunámskeið á vinnutíma og bætt við sína þekkingu á vinnurétti. Dæmi um slík námskeið er trúnaðarmannanám Félagsmálaskóla Alþýðu sem BSRB og ASÍ starfrækja, en hlutverk hans er meðal annars að skipuleggja og halda námskeið fyrir trúnaðarmenn þar sem þeir fá fræðslu. Þannig verða þeir hæfari trúnaðarmenn og öflugri, fyrir bæði starfsmenn og stéttarfélög.

Þegar trúnaðarmaður sækir slíka fræðslu telst hann vera að sinna sinni vinnuskyldu þann daginn með viðveru á því málþingi, fundi, ráðstefnu eða námskeiði. Trúnaðarmaður hefur þar af leiðandi ekki aðra vinnuskyldu þann daginn nema viðvera hans við fræðsluna hafi verið hluta úr degi. Á þetta álitamál hefur reynt fyrir Félagsdómi, en í málinu hafði trúnaðarmaður verið á trúnaðarmannanámskeiði á dagvinnutíma og mætti þar af leiðandi ekki á kvöldvakt sem var skipulögð sama dag. Trúnaðarmaðurinn taldi sig hafa uppfyllt vinnuskyldu sína með setu á námskeiðinu en vinnuveitandi taldi svo ekki vera heldur hefði honum borið að mæta til vinnu að námskeiði loknu enda hefði námskeiðið farið fram utan hans vinnutíma.

Niðurstaða Félagsdóms í málinu er skýr og óumdeild. Krafa vinnuveitanda um að trúnaðarmaður ynni kvöldvaktir strax í kjölfar námskeiðsins hamlaði rétti hans til að sækja trúnaðarmannanámskeið enda fæli það í raun í sér 16 tíma vinnudag sem samræmist hvorki ákvæðum kjarasamninga né laga. Niðurstaða þessi staðfestir það sem stéttarfélögin hafa haldið fram um árabil að viðvera trúnaðarmanns á trúnaðarmannanámskeiði eða sambærilegri fræðslustarfsemi sem fellur undir rétt hans samkvæmt kjarasamningi jafngildi vinnuskyldu hans þann daginn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?