Kosningar 2017

Félagslegur stöðugleiki
 • Stöðugleiki á vinnumarkaði kemur bæði launafólki og launagreiðendum til góða. Ef ætlunin er að byggja upp og viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði verða stjórnvöld að leggja áherslu á félagslegan stöðugleika ekki síður en efnahagslegan, enda verður annað ekki til án hins.

 • Veita þarf verulegum fjárhæðum til að styrkja velferðarþjónustuna og tryggja að þeir sem þurfi á henni að halda fái þá aðstoð sem þeir þurfa.

 • Búa þarf fólki félagslegt öryggi svo það geti mætt afleiðingunum af slysum og veikindum eða atvinnumissi, eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Tryggja öldruðum lífeyri sem gerir þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi með auknum sveigjanleika við starfslok og hvata fyrir þá sem vilja og geta unnið lengur. Gera þarf grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu þannig að litið sé til starfsgetu fólks en ekki örorku þeirra.

 • Grundvöllurinn er réttlátt skattkerfi sem rekið er með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Hlutverk skattkerfisins á að vera að stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu. Almannaþjónustuna verður að reka á samfélagslegum grunni þar sem allir eiga jafnan rétt, óháð efnahag.

Fjölskylduvænt samfélag
 • Vinna þarf markvisst að því að gera samfélagið fjölskylduvænna. Stytta þarf vinnuvikuna úr 40 stundum í 36. Vinna verður markvisst að því að auka sveigjanleika í starfi til að koma til móts við vetrarfrí, starfsdaga og lokanir skóla. Þá þarf að samræma sem fyrst skipulag frí- og starfsdaga þvert á skólastig og sveitarfélög svo auðvelda megi foreldrum ungra barna að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

 • Hækka þarf persónuafslátt og hækka bæði barnabætur og aðstoð við húsnæðiskaupendur og leigjendur.

 • Lengja þarf fæðingarorlofið í 12 mánuði, tryggja að fyrstu 300 þúsund krónurnar séu ekki skertar, hækka hámarksgreiðsluna og bjóða öllum börnum leikskólavist við 12 mánaða aldur.

Heilbrigðismálin
 • Almenningur krefst þess hátt og skýrt að verulega hærri upphæðir verði settar í heilbrigðiskerfið. Engin merki voru um að bæta eigi kerfið í fimm ára áætlun fráfarandi ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að bíða lengur, tafarlaust þarf að leggja í uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu. Líta verður á reglugerð um þak á greiðslur í heilbrigðiskerfinu sem fyrsta skref í átt að því lokamarkmiði að heilbrigðisþjónustan verði gjaldfrjáls.

 • Hávær minnihluti rekur mikinn áróður fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það er skýr vilji almennings að hið opinbera reki heilbrigðiskerfið. Samkvæmt nýrri rannsókn vilja rúmlega 86 prósent landsmanna að heilbrigðisþjónusta sé fyrst og fremst á forræði hins opinbera. Aðeins lítið brot þjóðarinnar vill aukna einkavæðingu. Einkavæðing heilbrigðisþjónustu takmarkar verulega getu stjórnvalda til að taka stefnumarkandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag í þágu almannahagsmuna.

 • Heilsugæslustöðvar eru afar mikilvægar sem fyrsti viðkomustaður margra í heilbrigðiskerfinu. Einkavæðing heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu var misráðin og í algerri andstöðu við vilja almennings. Forgangsröðunin ætti að vera sú að byggja upp heilsugæsluna, bæði á höfuðborgarsvæðinu og um allt land. Þar þarf að vinda ofan af áhrifum langvarandi fjársveltis og byggja upp fyrsta flokks þjónustu.

Vinnumarkaðurinn
 • Það er til háborinnar skammar að kynbundinn launamunur sé enn til staðar og útilokað að sætta sig við að hann mælist svipaður ár eftir ár. Stjórnvöld þurfa að grípa til tafarlausra aðgerða til að uppræta kynbundinn launamun á opinbera og almenna vinnumarkaðinum.

 • Kynskiptur vinnumarkaður er ein af helstu ástæðunum fyrir launamuni kynjanna. Konur eru mikill meirihluti starfsmanna í uppeldis- og umönnunarstörfum á meðan karlar eru í meirihluta í verk- og tæknigreinum. Þessu þarf að breyta.

 • Vinnu við jöfnun launa á milli opinbera- og almenna markaðarins í kjölfar samræmingar á lífeyrisréttindum þarf að ljúka sem fyrst. Þá þarf að tryggja að staðið verði við samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda að fullu.

Húsnæðismál
 • Það er fagnaðarefni að fyrstu skrefin í uppbyggingu leigufélaga fyrir tekjulága hafi verið tekin. Það var eðlilegt upphaf að því að breyta húsnæðiskerfinu og mikilvægt að halda því góða starfi áfram.

 • Hefja þarf tafarlaust uppbyggingu almennra leigufélaga sem boðið geta fólki sem hefur tekjur yfir viðmiðum fyrir leigufélög á borð við Bjarg íbúðafélag varanlegt leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Byggja verður upp leigukerfi sem er raunverulegur valkostur við séreignastefnuna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?