Ályktun 45. þings BSRB um efnahags- og skattamál

45. þing BSRB leggur áherslu á að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Reka á skattkerfið og um leið velferðarkerfið með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum.

Þingið vill að skattkerfið sé þrepaskipt. Mikilvægt er að álögur á tekjulægstu hópana verði lækkaðar. Skattbyrði verður að taka mið af framfærslu og hverfa verður frá gjaldtöku í velferðarkerfinu. Skoða skal hvort taka beri upp stiglækkandi persónuafslátt til þess meðal annars að ná því markmiði að skattleysismörk nái grunnframfærslu.

45. þing BSRB leggst gegn tekjutengingu bóta og lífeyrisgreiðslna hjá tekjulágum. Bandalagið krefst þess jafnframt að barnabætur verði hækkaðar verulega og dregið verði markvisst úr tekjutengingu þeirra.

Jafna verður stuðning eftir búsetuformi fólks með því að taka upp samræmdar húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta.
Þá telur þingið mikilvægt að yfirvöld efli skattaeftirlit og tryggi að nægum fjármunum sé veitt til þess. Þannig má draga stórlega úr skattaundanskotum og auka tekjur ríkisins.

Reykjavík, 19. október 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?