Félagslegur stöðugleiki er forsenda velferðar á Íslandi en efnahagslegur stöðugleiki verður ekki til án hans. 45. þing BSRB hvetur stjórnvöld til þess að sýna samfélagslega ábyrgð og forgangsraða í þágu uppbyggingar í velferðarkerfinu. Það er nauðsynlegt að auka jöfnuð í samfélaginu með það að leiðarljósi að færst nær norrænu velferðarsamfélagi. Stjórnvöld þurfa að bæta landsmönnum upp þær skerðingar sem áttu sér stað á velferðarkerfinu eftir hrun bankakerfisins fyrir tíu árum, en í kjölfar þess voru nauðsynleg útgjöld til kerfisins skert. Þessu til viðbótar er nauðsynlegt að stjórnvöld hlúi betur að löggæslu og tollgæslu og leggi áherslu á fullnustu refsinga í landinu til að sporna við afbrotum.
Þá gagnrýnir 45. þing BSRB harðlega bónusgreiðslur til stjórnenda fyrirtækja, sérstök kaupaukakerfi og launagreiðslur sem eru í engu samræmi við raunveruleika almennings í landinu. Nauðsynlegt er að tekið verði í taumana og komið í veg fyrir að sama græðgi ráði hér ríkjum og var allsráðandi á árunum fyrir hrun, þar sem stjórnendum fyrirtækja var umbunað með ofurlaunum og bónusgreiðslum. Slíkar greiðslur eru ógn við félagslegan stöðugleika og auka enn frekar á ójöfnuð og óánægju í samfélaginu.
Þingið skorar á stjórnvöld að jafna aðgang landsmanna að almannaþjónustu óháð efnahag. Mikilvægt er að bæta samgöngur milli landshluta, hvort sem er á lofti, láði eða legi. Stjórnvöld þurfa að beita sér fyrir því að til verði réttlátt skattkerfi og öflug almannaþjónusta þar sem greitt er inn eftir efnum og tekið út eftir þörfum. Það á að vera eftirsóknarvert að búa á Íslandi og hér á að ríkja félagslegt öryggi og stöðugleiki þar sem fólk getur komið sér upp þaki yfir höfuðið og mætt afleiðingum af slysum, veikindum og atvinnumissi ef svo ber undir.
Reykjavík, 19. október 2018