Ályktun 45. þings BSRB um menntamál

45. þing BSRB krefst þess að opinberir vinnuveitendur – ríki, sveitarfélög og aðrir viðsemjendur aðildarfélaga bandalagsins – taki sig á og sinni starfs- og menntamálum starfsmanna á opinberum vinnumarkaði með markvissari hætti en nú er.

Símenntun starfsmanna verður að haldast í hendur við örar breytingar og nýjar kröfur sem gerðar eru til vinnandi fólks nú í upphafi fjórðu iðnbyltingarinnar. Skapa þarf virkar leiðir fyrir launafólk til að sækja sér starfs- og símenntun, samhliða störfum, án launaskerðingar. Þá verður að tryggja aðgengi þeirra að raunfærnimati og að náms- og starfsráðgjöf.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB verða að geta þróað starfshæfni sína alla starfsævina. Í því felst sameiginlegur ávinningur starfsmanna, vinnuveitenda og borgaranna sem nýta sér hina opinberu þjónustu.

Þá krefst 45. þing BSRB þess að boðið verði upp á lögboðið nám fangavarða. Auknar kröfur til fangavarða ýta undir mikilvægi þess að þeir geti fengið lögboðna menntun og fengið þjálfun við hæfi.

Reykjavík, 19. október 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?