Ályktun 45. þings BSRB um #metoo

#metoo byltingin hefur skilað tímabærri vitundarvakningu um misrétti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði og í einkalífi. Það er því áhyggjuefni að ekki virðist hafa orðið mikil breyting á menningunni. Meðvirkni með gerendum er enn ríkjandi og í skjóli valdastöðu njóta þeir iðulega enn vafans á meðan þolendur sæta tilfærslu í starfi eða jafnvel starfsmissi.

45. þing BSRB krefst þess að atvinnurekendur meti áhættuna af slíkri hegðun og innleiði áætlanir í samræmi við lagaskyldu. Þá þarf að ráðast að rótum vandans og vinna markvisst að því að uppræta valdamisræmi og jafna stöðu kynjanna innan vinnustaða. Reynslan sýnir að atvinnurekendur geta ekki gefið sér að áreitni og ofbeldi þrífist ekki á vinnustað eingöngu vegna þess að þögn ríki um slíka hegðun á vinnustaðnum.

Þingið skorar á stjórnendur á öllum vinnustöðum að kanna vinnumenningu og þar með hvort starfsfólk hafi orðið fyrir kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Jafnframt þarf að kanna hverjir eru gerendur og hvort þolendur hafa leitað sér aðstoðar vegna þessa.

Það er lykilatriðið að atvinnurekendur gefi skýrt til kynna að áreitni og ofbeldi verði ekki liðið á vinnustöðum og að ef slík mál koma upp verði þau strax tekin föstum tökum. Þá þarf einnig að tryggja að málin hafi ekki neikvæðar afleiðingarnar fyrir þolendur heldur séu gerendur látnir axla ábyrgð.

Öll eigum við rétt á að komið sé fram við okkur af virðingu og við berum öll ábyrgð á því að fylgja eftir aðgerðum til breytinga. Þannig verður ákall #metoo kvenna um bætt samfélag að veruleika.

Reykjavík, 19. október 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?