Ályktun 45. þings BSRB um styttingu vinnuvikunnar

45. þing BSRB krefst þess að lögfest verði að vinnuvika dagvinnufólks verði ekki lengri en 35 stundir og vinnuskylda í vaktavinnu verði 80 prósent af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar.

Niðurstöður úr tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar og tilraunaverkefni BSRB og ríkisins hafa reynst jákvæðar. Starfsfólk upplifir bætta líkamlega og andlega líðan sem hefur leitt til þess að samskipti við vinnufélaga og fjölskyldumeðlimi batna.

Starfsfólk upplifir einnig að stytting vinnuvikunnar hafi leitt til markvissara starfs og bætts skipulags á vinnustöðum. Veikindi dragist saman, starfsfólk hafi meiri orku, drifkraft og sé glaðara í vinnu og skili þannig sömu vinnu og áður á minni tíma.

Mikið álag er á barnafjölskyldum og mörgum reynist erfitt að sinna bæði vinnu og einkalífi þannig að vel sé. Fjölskyldufólk segir að styttri vinnuvika hafi auðveldað því að samræma vinnu og einkalíf og bendir á að álag sem er á heimilinu hafi minnkað, ekki síst tengt skutli vegna tómstunda og vistunar barna. Þá fjölgi gæðastundum fjölskyldunnar.

Fram hefur komið að með styttri vinnuviku og jafnari vinnutíma hjá báðum kynjum upplifi starfsfólk minni mun á framlagi kynjanna til heimilisstarfa og umönnunar barna. Þá er niðurstaðan meðal annars sú að starfsfólk telur að styttri vinnuvika sé mikilvæg leið til að stuðla að jafnrétti kynjanna, til að mæður geti sinnt fullu starfi í ljósi dagvistunartíma, frístunda barna og annarrar umönnunar.

Stytting vinnuvikunnar er brýnt samfélagslegt verkefni til að auka lífsgæði en stjórnvöld og atvinnurekendur hafa hingað til lagt litla sem enga áherslu á málið. Það þarf að breytast því í styttingu vinnuvikunnar felst samfélagslegur ávinningur að tryggja betri líðan fólks í vinnu og heima.

Reykjavík, 19. október 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?