Ályktun 46. þings BSRB um endurmat á virði kvennastarfa

Launamunur kynjanna á íslenskum vinnumarkaði er meinsemd sem verður að uppræta. Sá launamunur er ekki náttúrulögmál heldur endurspeglar fordóma, fáfræði og ofbeldismengað viðhorf til mikilvægs framlags kvenna í gangverki samfélagsins.

Um helmingur kvenna á íslenskum vinnumarkaði starfar í almannaþjónustu, flestar þeirra í kvennastéttum sem sjá um að íslenskt efnahagskerfi geti starfað án truflana. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýringin á kynbundnum launamun. Stjórnvöldum ber því skylda til að grípa til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta til samræmis við raunverulegt virði þeirra og þeirrar verðmætasköpunar sem störfin skila fyrir samfélagið.

Það er löngu kominn tími til aðgerða sem skila árangri í að leiðrétta launamun kynjanna. 46. þing BSRB krefst þess að stjórnvöld tryggi það fjármagn sem þarf til að þróa hratt og vel öflug úrræði samkvæmt tillögum starfshóps um endurmat á störfum kvenna. Þingið krefst þess einnig að tekin verði marktæk og áþreifanleg skref í að vinna á þeim óþolandi launamun sem konur búa við. Það er komið nóg af rannsóknum, viljayfirlýsingum og fagurgala. Nú er komin tími til aðgerða.

Reykjavík, 25. mars 2022

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?