Ályktun 46. þings BSRB um húsnæðismál

Aðgengi að öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum eru grundvallar mannréttindi. 46. þing BSRB krefst þess að stjórnvöld setji sér það markmið að fólk greiði ekki meira en 25 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað og hafi raunverulegt val á milli leigu, eignar og búseturéttar. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að leggja megináherslu á uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf.

46. þing BSRB krefst þess að opinber stofnframlög til almenna íbúðakerfisins verði aukin svo hægt sé að hraða uppbyggingunni enn frekar, enda tryggja íbúðirnar húsnæðisöryggi fyrir launafólk í lægri tekjuhópum og fjölskyldur þeirra. Ríki og sveitarfélög verða einnig að greiða götu leigufélagsins Blævar, sem er leigufélag í eigu BSRB og ASÍ, til að auka valkosti launafólks sem er yfir tekjuviðmiðum í almenna íbúðakerfinu og stuðla þannig að húsnæðisöryggi fyrir öll. Stjórnvöld ættu jafnframt að auðvelda ungu fólki og tekjulágu að eignast húsnæði, kjósi þau það fremur en að leigja húsnæði. Með það að markmiði ætti að auðvelda fólki að spara fyrir húsnæði, t.a.m. með valfrjálsu sparnaðarkerfi sem yrði rekið af hinu opinbera.

Beinn húsnæðisstuðningur ríkisins hefur tekið eðlisbreytingum því nú geta húsnæðiseigendur nýtt skattfrjálsan séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán. Greiningar sýna að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst tekjuhæstu hópunum. Á sama tíma hefur húsnæðisstuðningur við leigjendur rýrnað að raungildi og fækkað hefur verulega í hópi þeirra sem eiga rétt á vaxtabótum. 46. þing BSRB gerir þá kröfu að stjórnvöld tryggi öllum húsnæðisstuðning sem á þurfa að halda, og að fjárhæðir og skerðingarmörk fylgi verðlagi.

Reykjavík, 25. mars 2022

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?