Ályktun 46. þings BSRB um skattamál

46. þing BSRB mótmælir fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem felur í sér lækkandi hlutdeild opinberra útgjalda af landsframleiðslu. Breytt aldurs- og íbúasamsetning, tæknibreytingar, aðkallandi aðgerðir í loftslagsmálum, efnahagslegar afleiðingar Covid-19 heimsfaraldursins, stríðsástand og óvissa í heimsmálum munu reyna á efnahagslíf og vinnumarkað á næstu árum.

Misskipting tekna og eigna fer vaxandi og sú mikla samþjöppun auðs sem er að verða hér á landi er skaðleg fyrir samfélagið, ýtir undir stéttskiptingu, dregur úr félagslegri samheldni og eykur hættu á misbeitingu pólitísks valds. 46. þing BSRB krefst þess að jöfnuður og félagslegur stöðugleiki verði hafður að leiðarljósi við stjórn efnahagsmála.

Vaxandi útgjaldaþörf og auknum ójöfnuði verður að bregðast við með efnahagslegum ráðstöfunum og breytingum í ríkisfjármálum með auknum útgjöldum og aukinni tekjuöflun hins opinbera. 46. þing BRSB krefst þess að í þeim efnum verði velferð borgaranna höfð að leiðarljósi, auknum útgjöldum verði ekki mætt með niðurskurði opinberrar þjónustu og að nýjar leiðir til tekjuöflunar verði mótaðar með jöfnuð og sanngirni að leiðarljósi. Efling almannaþjónustunnar er fjárfesting í fólki og friði.

Reykjavík, 25. mars 2022

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?