Ályktun 46. þings BSRB um starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu

Heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur beint kastljósinu á mikilvægi almannaþjónustunnar sem einnar grunnstoða samfélagsins. Í tvö ár hefur starfsfólk almannaþjónustunnar borið hitann og þungann af baráttunni við veiruna. Í tvö ár hefur líf þessa stóra hóps framlínufólks einkennst af fórnum sem það hefur þurft að færa fyrir okkur hin.

Þessi öflugi hópur fólks sem staðið hefur í framlínunni getur ekki staðið vaktina endalaust. Við höfum lagt allt okkar traust á þau í heimsfaraldrinum og álagið hefur verið gríðarlegt. Nú er komið að því að launa þeim erfiðið og grípa til aðgerða til að tryggja að þau komi heil út úr þessu ástandi. Skapa þarf gott og heilbrigt starfsumhverfi í heilbrigðiskerfinu, sjúkraflutningum, skólakerfinu, félags- og velferðarþjónustu, löggæslunni, póstþjónustu og víðar. Besta leiðin til að gera það er að tryggja nægilega mönnun í takt við fólksfjölgun, aukna þjónustuþörf og auknar kröfur til þjónustunnar ásamt því að bæta stjórnun daglegra verkefna.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um mönnunarþörf til langs tíma í heilbrigðis- og menntakerfinu og að mæta verði vaxandi þörf til framtíðar og með hliðsjón af hinum dreifðu byggðum. Þar segir einnig að mönnun löggæslunnar þurfi að vera í takti við þarfir samfélagsins. 46. þing BSRB krefst þess að ríkisstjórnin meti mönnunarþörf almannaþjónustunnar í heild sinni, bæði til skemmri tíma og til framtíðar og bregðist við.

Þá krefst 46. þing BSRB þess að strax verði skimað fyrir streitu, kulnun og öðrum álagseinkennum meðal starfsfólks almannaþjónustunnar. Grípa þarf til viðeigandi aðgerða ef andlegri eða líkamlegri heilsu starfsfólks fer hrakandi, til dæmis með breytingum á starfsaðstæðum og með því að tryggja starfsfólki hvíld og endurheimt, til að koma í veg fyrir langvarandi heilsubrest eða ótímabæra örorku.

Enn fremur er þess krafist að stjórnvöld innleiði vinnuverndarreglur um skipulag vinnunnar og félagslega þætti í starfsumhverfinu að sænskri fyrirmynd og að þeim verði fylgt eftir af krafti með fræðslu og kröfum um þekkingu stjórnenda. Þannig má tryggja að eftirsóknarvert verði að starfa í almannaþjónustunni og byggja undir nauðsynlega festu í mönnun og öryggi starfsfólks og notenda þjónustunnar.

Reykjavík, 25. mars 2022

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?