Ályktun aðalfundar BSRB um heilbrigðismál

Aðalfundur BSRB skorar á stjórnvöld að breyta forgangsröðun sinni og endurreisa þegar í stað heilbrigðiskerfið. Fara verður að þjóðarvilja með því að halda heilbrigðisþjónustunni í opinberum rekstri. Það er algerlega óásættanlegt að fjármunir sem ríkið ætlar til þjónustu við sjúklinga renni í vasa einkaaðila með arðgreiðslum úr einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum. Markmiðið á að vera að heilbrigðiskerfið sé rekið að fullu fyrir skattfé þannig að sjúklingar fái nauðsynlega þjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir.

Áhugi þeirra sem vilja einkavæða heilbrigðisþjónustu snýst ekki um að sjúklingar hafi val. Ekki er hægt að ætlast til þess að sjúklingar hafi aðstöðu eða þekkingu til að bera saman þjónustu ólíkra aðila áður en þeir leita sér lækningar. Stytta verður biðlista með skilvirkum hætti innan opinbera heilbrigðiskerfisins. Ekki með því að framkvæma flóknar aðgerðir á einkareknum stofum sem ekki eru með bráðamóttöku eða greitt aðgengi að sérfræðingum ef vandamál koma upp.

Þá skorar fundurinn á stjórnvöld að styrkja þegar stöðu heilsugæslunnar svo hún geti sinnt því hlutverki sem henni er ætlað sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Heilsugæslan verður að vera í stakk búin til að taka við auknum fjölda, bæði vegna fjölgunar íbúa og þess mikla fjölda ferðamanna sem sækir landið heim.

Reykjavík, 17. maí 2017

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?