Ályktun aðalfundar BSRB um heilbrigðismál

Aðalfundur BSRB varar við því að aukið verði við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu enda yrði það þvert á vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Rannsóknir sýna að einkarekstur dregur ekki úr kostnaði hins opinbera. Einkarekstur torveldar stjórnvöldum yfirsýn yfir daglegan rekstur og að taka stefnumótandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag heilbrigðiskerfisins í þágu almannahagsmuna.

Stjórnvöld eiga þvert á móti að byggja upp opinbera þjónustu á Landspítalanum, heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og heilsugæslunni. Halda verður áfram markvissu átaki til að vinna niður biðlista eftir aðgerðum. Byggja þarf upp þekkingu í opinbera heilbrigðiskerfinu svo hægt sé að miðla henni til nýrra kynslóða heilbrigðisstarfsfólks með markvissum hætti.

Aðalfundur BSRB hvetur stjórnvöld til að gera nauðsynlegar úrbætur á starfsumhverfi starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Draga þarf úr álagi á starfsfólkið, hækka laun og minnka neikvæð áhrif vaktavinnu með því að stytta vinnuvikuna. Gera þarf stofnanir sem eru hluti af heilbrigðiskerfinu að aðlaðandi vinnustöðum fyrir vel menntað og öflugt starfsfólk til að tryggja nauðsynlega endurnýjun.

Reykjavík, 10. maí 2019

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?