Ályktun aðalfundar BSRB um stofnun íbúðafélags

Aðalfundur BSRB fagnar því að stjórn bandalagsins skuli hafa ákveðið að BSRB verði stofnaðili að nýju íbúðafélagi ásamt Alþýðusambandi Íslands. Félaginu er ætlað að bjóða tekjulágum hópum íbúðir til leigu á viðráðanlegu verði. Öruggt húsnæði, hvort um er að ræða leiguhúsnæði eða séreign, er einn hornsteina almennrar velferðar. Það er því mikilvægt að tryggt sé að allir fái aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum til framtíðar.

Þá skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að ljúka við þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að stofna íbúðafélag af þessu tagi. Þegar hefur orðið mikill dráttur á afgreiðslu húsnæðis¬frumvarpa félags- og húsnæðismálaráðherra og brýnt að Alþingi samþykki frumvörpin strax.

Reykjavík, 26. maí 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?