Ályktun formannaráðs BSRB um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak

Formannaráð BSRB hvetur þingmenn til að hafna frumvarpi um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, sem hefur það að markmiði að afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til sölu á áfengi. Að mati formannaráðsins hafa engin haldbær rök komið fram sem styðja framgang þessa máls. Þá er að engu leyti fjallað um hvaða áhrif slík breyting myndi hafa á áfengisneyslu hér á landi né hvort þróunin yrði jákvæð eða neikvæð til dæmis samanborið við reynslu annarra landa. Markmið frumvarpsins snúa að mestu leyti að frjálsri verslun og samkeppnissjónarmiðum.

Í núgildandi lögum um verslun með áfengi og tóbak er smásölu áfengis markaður skýr lagarammi þar sem meðal annars samfélagsleg ábyrgð, lýðheilsumarkmið og takmörkun og stýring á aðgengi, meðal annars ungs fólks að áfengi er lögð til grundvallar. Markmið laganna er einnig í samræmi við markmið samþykktrar stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020.

Með því að leyfa smásölu áfengis í matvöruverslunum yrði unnið gegn þeim góða árangri sem náðst hefur í lýðheilsumálum á Íslandi. Ástæðan er meðal annars sú að ekki er gert ráð fyrir að sambærilegar skyldur verði lagðar á einkaaðila og gilda um ÁTVR að gildandi lögum og ekki virðist gert ráð fyrir að eftirlit verði aukið með sölu áfengis í verslunum.

Verulega hefur dregið úr áfengisneyslu ungmenna á síðustu árum og er þeim árangri stefnt í hættu verði frumvarpið að lögum. Formannaráð BSRB tekur undir umsögn Landlæknis um frumvarpið, þar sem fram kemur að verði það samþykkt séu líkur á aukinni áfengisneyslu og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Allar líkur benda til þess að slík aukning myndi jafnframt fela í sér aukinn kostnað vegna velferðarmála sem fellur á ríki og sveitarfélög. Þá er þeirri spurningu ósvarað hver ávinningur frjálsrar smásölu áfengis sé.

Reykjavík, 24. febrúar 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?