Ályktun formannaráðs BSRB um samfélagslega ábyrgð

Formannaráð BSRB bendir á að aldrei verði sátt um það hér á landi að lítill hópur einstaklinga fái háar kaupaukagreiðslur eins og tíðkuðust fyrir bankahrunið 2008. Ráðið skorar á íslensk fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð og hverfa ekki aftur til þess verklags sem átti þátt í hversu illa fór fyrir íslensku samfélagi í hruninu.

Bónuskerfi voru meinsemd í íslensku viðskiptalífi í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008. Þá tíðkaðist að greiða þeim sem sýsluðu með fjármuni gríðarháa kaupauka sem voru sjaldnast í nokkru samræmi við vinnuframlag, ábyrgð eða áhættu. Það bera fleiri ábyrgð í okkar samfélagi en þeir sem kaupa og selja hlutabréf, til dæmis þeir sem sinna almannaþjónustunni. Þeir hópar eiga ekki síður skilið kjarabót.

Í kjölfar hrunsins lögðust þessi kaupaukakerfi af. Stjórnvöld hafa síðan sett fjármálafyrirtækjum ramma varðandi slíkar bónusgreiðslur. Formannaráð BSRB fagnar því að þar hafi verið sett ákveðin mörk, en telur ramman of víðan. Ráðið telur að fyrirtæki sem ekki falla undir þessi lög ættu engu að síður að sýna samfélagslega ábyrgð með því að líta til þess ramma sem þar er markaður og ganga ekki lengra en þar er gert ráð fyrir í kaupaukagreiðslum. Þannig geta þau sýnt að hér á landi býr ein þjóð sem deilir kjörum, þar sem allir greiða til samfélagsins til að viðhalda því velferðarkerfi sem við viljum öll búa við.

Reykjanesbæ, 8. september 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?