Ályktun formannaráðs BSRB vegna styttingar vinnuvikunnar

Vegna umræðu um hagkvæmni styttingar vinnuvikunnar vill formannaráð BSRB árétta að kostir þess eru fjölmargir. Þannig leggur bandalagið áherslu á að helstu kostirnir eru þeir að starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði er auðveldað að samræma fjölskyldu og atvinnulíf.

Áherslur bandalagsins leiða af áralöngum kröfum félagsmanna aðildarfélaga þess um að stytting vinnuvikunnar sé til þess fallin að auðvelda starfsfólki að sinna t.d. umönnun barna, aldraðra eða langveikra aðstandenda.

Heildarvinnuálag íslenskra foreldra er mest hér á landi í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir sé horft til greiddrar vinnu, heimilisstarfa og umönnunar heimilismeðlima s.s. barna. Mæður verja 86 stundum á viku en feður 77 tíma á viku til slíkra starfa, samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Þóru Kristínar Þórsdóttur, doktorsnema í félagsfræði.

Í nýlegri rannsókn kemur fram að um 40% af þeim sem tóku þátt telji fækkun vinnustunda á viku vænlega leið til að stuðla að auknu jafnvægi atvinnulífs og fjölskyldu. Þá gengur vaktavinnufólki verr að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf en dagvinnufólki.

Reynslan af tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar í Svíþjóð og hér á landi sýnir að það er svigrúm til að bæta skipulag vinnutíma. Reynsla stjórnenda er jákvæð ásamt því að niðurstöðurnar gefa til kynna að stytting vinnuvikunnar auki jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs, sérstaklega fyrir vaktavinnufólk og foreldra ungra barna.

Fjölmargar rannsóknir sýna að íslenskir foreldrar eru að sligast undan álaginu og því er þörf á aðgerðum. Þannig verður landið jafnframt eftirsóknarverður staður til að búa á og færir sig nær öðrum Norðurlöndum varðandi aðbúnað barnafjölskyldna. Það er tæplega tilviljun að flestir brottfluttra Íslendinga fara til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur þar sem kjörin eru heilt yfir betri að teknu tilliti til launa, vinnutíma og aðbúnaði fjölskyldufólks. Það er brýnt samfélagslegt verkefni að auka samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs en lítil sem engin áhersla hefur verið af hálfu stjórnvalda þar um. Í því felst þjóðfélagslegur ávinningur að tryggja vellíðan starfsfólks vegna jafnvægis atvinnulífs og heimilis.

Reykjavík, 24. febrúar 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?