Ályktun stjórnar BSRB um Landspítalann

Stjórn BSRB fordæmir þær harkalegu niðurskurðaraðgerðir sem stjórnendur Landspítalans þurfa enn og aftur að grípa til vegna ónógra framlaga af fjárlögum. Stjórnvöld verða að grípa tafarlaust til aðgerða til að leiðrétta fjárhagsstöðu spítalans svo hann geti sinnt því mikilvæga hlutverki sem honum er ætlað. Með því að halda Landspítalanum í fjársvelti eru stjórnvöld að grafa undan opinbera heilbrigðiskerfinu hér á landi. Sá niðurskurður sem spítalinn stendur frammi fyrir mun án efa bitna með beinum hætti á þjónustu við sjúklinga.

Starfsfólk Landspítalans hefur verið undir gríðarlega miklu álagi á undanförnum árum og nú þegar skera á niður, fækka starfsfólki og rýra kjör þeirra sem eftir verða er ljóst að álagið mun aukast enn meira. Þetta mikla álag á starfsfólk spítalans og aðra sem starfa í íslenska heilbrigðiskerfinu hefur þegar haft þær afleiðingar að starfsfólk hefur hrökklast úr starfi, tíðni veikinda er allt of há og nýliðun gengur illa. Stjórn BSRB kallar eftir því að fjárframlög til spítalans séu aukin verulega og markvisst verði unnið að því að byggja upp starfsemi þjóðarsjúkrahússins á næstu árum í þágu allra landsmanna.

Reykjavík, 13. desember 2019

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?