Ávarp Gylfa Arnbjörnssonar formanns ASÍ á 45. þingi BSRB

Ágætu félagar.

Nú þegar fer að halla undir lokin á starfsferli okkar Elínar Bjargar hef ég tamið mér að taka svona Castro-ræður. Mér skilst að þið ætlið að þinga fram á föstudag svo nægur er tíminn.

Ég vil þakka fyrir þann heiður að fá að ávarpa ykkur og flyt ykkur einlægar kveðjur Alþýðusambandsins. Það er engin launung á því að ég hef sem forseti ASÍ lagt mikla áherslu á að þétta samstarf samtaka okkar í ýmsum málum einfaldlega vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að samstaðan sé eina færa leiðin til að mæta þeim áskorunum sem félagsmenn okkar standa frammi fyrir í íslensku samfélagi.

Íslenskt launafólk og verkalýðshreyfingin hefur farið í gegnum fordæmalausar aðstæður á síðastliðnum áratug í kjölfar hrunsins. Aldrei hafa jafnmargir misst vinnuna á eins skömmum tíma og sjaldan hefur kaupmáttur launa hrunið eins mikið og þá. Frammi fyrir þessum aðstæðum stóðum við öll og eftir á að hyggja var það mikið gæfuspor að okkur skyldi takast að sameina nánast alla verkalýðshreyfinguna í viðbrögðunum með gerð stöðugleikasáttmálans í júní 2009.

Með þessum samningum lögðum við ekki bara grunninn að uppbyggingu hagvaxtar og kaupmáttar heldur tókst okkur líka í samstarfi við stjórnvöld betur en nokkru öðru landi að verja mikilvægustu þætti velferðarkerfisins og almannatrygginga. Við skulum þó ekki vanmeta það að sú staðreynd að verulegur hluti af tilfærslu- og afkomutryggingakerfi landsmanna eru í kjarasamningi en ekki hluti af ríkisútgjöldum líkt og víðast hvar og kom í veg fyrir að bankahrunið hefði jafn víðtæk áhrif á velferðarkerfið og við sáum annars staðar.

Alþjóðlega hefur þessi þríhliða aðgerð vinnumarkaðar og stjórnvalda markað nokkuð djúp spor og er víða notað sem dæmi um það hvernig samfélög geti dregið úr skelfilegum afleiðingum efnahagshruns með skipulögðum og réttlátum hætti. Ég er að minnsta kosti sannfærður um að með þessu átaki hafi verkalýðshreyfingunni tekist að lyfta grettistaki í að verja stöðu og hagsmuni félagsmanna okkar.

Ágætu félagar, þó okkur hafi um margt tekist vel til við að verja velferðarkerfið í hruninu breytir það ekki heildarmyndinni að á undanförnum áratugum hefur sigið á ógæfuhliðina með tilliti til jafnaðar og jafnra tækifæra í þessu ágæta landi okkar. Í kjölfar stöðugleikasáttmálans heldum við því áfram samtalinu við stjórnmálin um nauðsynlegar breytingar í áherslum bæði stjórnmálanna og á vinnumarkaði til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Það er stundum sagt að skilgreiningin á geðveiki sé að gera hlutina alltaf eins og vonast til þess að niðurstaðan verði önnur.

Hér hafa samtök okkar, það er ASÍ og BSRB, staðið þétt saman eins og klettur í samskiptum við stjórnvöld með kröfuna um að jafnræði verði á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika. Það er svo mikilvægt að átta sig á því að jöfnuður og jöfn tækifæri, jafnræðið, sé grundvöllurinn að því sem næst á hinu efnahagslega sviði. Eftir nokkuð langan og að sumu leiti nokkuð brösugan aðdraganda fór það svo að ASÍ og BSRB stóðu ein að gerð Rammasamkomulagsins í október 2015, þar sem þetta samhengi var einmitt lagt til grundvallar samskiptum vinnumarkaðar og stjórnvalda.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að skiptar skoðanir voru um þetta samkomulag en þegar ég horfi til mikils árangurs frænda okkar á hinum Norðurlöndunum undanfarna áratugi verður ekki framhjá því litið að verulegan hluta af þessum árangri rekja þeir sjálfir til víðtæks samkomulags milli stjórnmálanna og vinnumarkaðarins um jafnvægi milli velferðar, jafnaðar og stöðugleika.

Með Rammasamkomulaginu hefur okkur aldrei áður tekist að komast eins lagt í að endurskoða grundvöllinn bæði að gerð kjarasamninga og samskipta við stjórnvöld. En því miður tókst okkur ekki að komast á leiðarenda. Ástæðan er að hluta til að okkur tókst ekki tryggja nægilega breiða samstöðu á vinnumarkaði fyrir þessari leið en hitt er alvarlegra að stjórnmálin brugðust okkur algerlega á þessari vegferð.

Þrátt fyrir það skýra markmið rammasamkomulagsins að stuðla að félagslegum stöðugleika og auknum jöfnuði héldu stjórnvöld áfram að ganga nánast í skrokk á tekjulægstu hópunum í landinu með hækkun skattbyrði, lækkun barnabóta, lækkun húsnæðisbóta, þrengingar í velferðarkerfinu og skattalækkunum á þá tekju- og efnameiri.

Til að bíta höfuðið af skömminni stóð Alþingi og ríkisstjórnin, ekki bara ein heldur þrjár, vörð um þær gríðarlegu hækkanir á launum kjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna og stjórnenda hjá ríkinu. Það er því ekki að furða að þessu mikla þjóðþrifa máli, rammasamkomulaginu, hafi verið strandað. Það er því eðlilegt að í aðdraganda komandi kjarasamninga sé mikil reiði sem ríkir í þessu landi og verður vandasamt að vinna úr þeirri stöðu.

Góðir félagar, í öllum þessum darraðardansi hafa samtök okkar haldið áfram að byggja upp nánara samstarf á ýmsum sviðum. Ég hef áður nefnt samstarf okkar í menntamálum okkar fólks í gegnum Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og aðkomu ykkar að Virk starfsendurhæfingarsjóði, hvoru tveggja mikilvæg verkfæri til að treysta stöðu okkar félagsmanna á vinnumarkaði. Við hjá ASÍ vorum einnig mjög ánægð með ákvörðun forystu BSRB að leggjast á árarnar með okkur í endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins á 100 ára afmæli ASÍ með hlutdeild í stofnun Bjargs íbúðafélags. Þar erum við að lyfta öðru grettistaki fyrir þá félagsmenn okkar sem minnst bera úr bítum og leiðin er einnig klár um uppbyggingu leigufélags án hagnaðarsjónarmiða fyrir þá sem eru fyrir ofan þessi tekjumörk.

Samhliða þessu aukna samstarfi heildarsamtakanna hafa aðildarfélög okkar líka átt í nánu samstarfi við gerð kjarasamninga á undanförnum árum, enda nábýli félagsmanna oft mjög mikið. Á endanum verður þetta spurning um það hvort Alþýðusambandið og BSRB fari sömu leið og frændur okkar í Danmörku, en eins og þið vitið er verið að sameina LO og FTF í ein stór heildarsamtök. Í okkar samhengi er ljóst að ef okkur tækist að sameina slagkraft ríflega 20 þúsund BSRB-inga og 120 þúsund ASÍ félagsmanna okkar væri þarna feiknasterkur hópur. En þetta verður verkefni nýrra forystumanna að glíma við. Ég bara nefni þetta í forbifarten.

Næsta stóra verkefni heildarsamtakanna er, nú þegar samræmingu réttinda fólks á almennum og opinberum vinnumarkaði er að mestu lokið, að samtökin setjist niður og komi sér upp samskiptareglu milli þessara samtaka varðandi réttindi félaganna. Bæði félagsleg réttindi í félaginu, í sjóðum félaganna og lífeyrissjóðunum. Það er ekki lengur bjóðandi að fólk sé að missa réttindi við það að fara á milli félaga. Fólk er ekki alltaf með sjálfdæmi um það í hvaða félag það greiðir. Hér áður fyrr var þetta illframkvæmanlegt vegna þess hversu ólík réttindakerfin voru, en það er ekki lengur hægt að bera því við, þessu verður að koma í lag. En það er líka verkefni nýrrar forystu.

Ágætu félagar ég vil hér í lokin leyfa mér fyrir mína hönd og minna samtaka að þakka Elín Björgu og forystu BSRB fyrir náið samstarf á undanförnum árum. Þetta er búinn að vera stormasamur áratugur og margt verið erfitt og ekki alltaf legið fyrir hvað við ættum að gera. Okkur hefur sem betur fer tekist að stíga þessi spor saman og fyrir það er ég mjög þakklátur. Að öðru leyti óska ég ykkur velfarnaðar á þessu þingi og gangi ykkur vel. Takk fyrir.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?