Ávarp Jorun Berland formanns YS í Noregi á 45. þingi BSRB

Kæru vinir, bestu þakkir fyrir að bjóða mér að vera með ykkur hér á þinginu.

Mér finnst alltaf gaman að koma til Íslands og það er alltaf gaman að heimsækja BSRB. Samtök launafólks á Íslandi eru mikilvægur hlekkur í hreyfingu launafólks um allan heim, í Evrópu og á Norðurlöndum. Og BSRB er mikilvægur og dýrmætur hlekkur í samtökum launafólks á Íslandi. Barack Obama myndi orða það á þessa leið: „You punch above your weight.“

Í Noregi hafa landssamtökin fjögur lagst á eitt um að fjölga félagsmönnum. Á undanförnum árum hefur hlutfall félagsbundins launafólks farið undir 50%. Við vinnum af fullu kappi saman og hver í sínu lagi um að snúa þeirri þróun við. Þá er gott að líta til Íslands og sjá að þetta er hægt. Sú staðreynd að næstum níutíu prósent launafólks eru í stéttarfélagi er svo sannarlega aðdáunarverð. Það segir mikið um íslenskt hugarfar, um samstarfið, samstöðuna og traustið, að byggja samfélag þar sem allir eiga sinn sess og allir eru með. Þetta er kjarninn í norræna módelinu sem er okkur svo mikilvægt og sem hefur gert samfélög Norðurlanda að því sem þau eru í dag. Við trónum efst í öllum alþjóðlegum mælingum á velmegun, framþróun og lýðræði. Það er engin tilviljun. En nú er þrengt að norræna módelinu úr ýmsum áttum en þar má nefna hnattvæðingu, einstaklingsvæðingu, stafræna væðingu, sjálfvirknivæðingu og vaxandi ójöfnuð.

Í þeirri baráttu eru samtök launafólks í fylkingarbrjósti. En gleymum ekki: Að einn helsti aðall norrænna samtaka launafólks er að við fögnum nýjungum, við erum bjartsýn á tækifæri tækninnar, við viljum sjá öflugt, nýskapandi og samkeppnisfært atvinnulíf og skilvirka opinbera almannaþjónustu.

Við erum ekki á móti þessu. Við berjumst fyrir því að staðinn sé vörður um forsendurnar fyrir þessu öllu. Og ef við eigum að starfa áfram á komandi árum verðum við að hafa marga félagsmenn en það eykur lögmæti samtaka okkar meðal almennings.

Ég hef gegnt trúnaðarstörfum fyrir samtök launafólks í rúm þrjátíu ár. Það sem mér hefur fundist hvað athyglisverðast er að þrátt fyrir að við þurfum að berjast fyrir ýmsu hér á hjara veraldar þá njótum við í rauninni ótrúlegra forréttinda í alþjóðlegum samanburði. Við þurfum ekki að leita langt suður í Evrópu þar til allt annar raunveruleiki blasir við.

Fámenn stéttarfélög, lítið traust, hægur hagvöxtur og gífurlegur atgervisflótti ungs fólks sem hleypir heimdraganum í leit að tækifærum í öðrum löndum til að skapa sér og sínum framtíð. Íslendingar gengu einnig í gegnum mikla erfiðleika eftir hrunið. Það reyndist mörgum sársaukafullt. En ykkur tókst að sigrast á erfiðleikunum. Margir kalla það „íslenska undrið“. Ég held ekki að nein tilviljun hafi verið þar á ferð. Ég tel að það megi þakka getu ykkar og vilja til að sameinast um að endurreisa samfélagið með samstarfi, en einnig öflugri og jákvæðri hreyfingu launafólks.

Á næstu dögum liggur fyrir að ein þeirra sem tók þátt í þeirri endurreisn gefi keflið áfram eftir tíu ár í forsæti. Elín Björg, þakka þér hjartanlega fyrir gott samstarf. Ég átti einnig að bera þér kveðju félaga okkar í Noregi og á Norðurlöndum. Þú hefur verið öflugur og góður leiðtogi og ég hef metið mikils þau samtöl sem við höfum átt. Nú er ekki nema hálfur mánuður þar til ég læt af störfum sem formaður YS. Næst hittumst við kannski á veitingastað á Spáni en ekki í ráðstefnusal.

Við ættum kannski að stofna öldungaklúbb til að viðhalda tengslunum. Okkur á eftir að fjölga smám saman í þeim félagsskap.

Þakka ykkur enn og aftur fyrir boðið og gangi ykkur vel á þinginu!

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?