COVID-19 og efnahagsaðgerðir stjórnvalda

Aðgerðir vegna COVID-19

Ríkið, sveitarfélög og lánastofnanir hafa gripið til fjölmargra aðgerða fyrir heimili og fyrirtæki til að draga úr áhrifum efnahagsáfallsins sem heimsfaraldur COVID-19 hefur haft í för með sér. Hér að neðan má finna upplýsingar um helstu aðgerðir og hverjar áherslur BSRB eru varðandi frekari aðgerðir sem gæti þurft að grípa til. 

Aðgerðir vegna COVID-19

Aðgerðir fyrir einstaklinga

  • Laun til starfsmanna í sóttkví

    Alþingi samþykkti í mars 2020 lög sem tryggja rétt alls launafólks til launa í sóttkví. Ríki og sveitarfélög höfðu áður gefið það út að þeirra starfsmenn ættu rétt á launum í sóttkví, en óvissa var uppi um fyrirtæki á almennum markaði.

    Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga í sóttkví tryggja lágmarksréttindi þeirra starfsmanna sem þurfa að sæta sóttkví og þeirra starfsmanna sem eiga börn sem þurfa að fara í sóttkví.

    Lögin fela í sér að atvinnurekandi á rétt á endurgreiðslu vegna slíkra launagreiðslna frá Vinnumálastofnun, en hámarksfjárhæð fyrir hvern mánuð er 633.000 krónur, eða 21.100 krónur á dag. Lögin gilda frá 1. febrúar 2020 til 30. apríl 2020, en stjórnvöld hafa sagt að ef þörf krefur á verða þau framlengd.

  • Atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli

    Í mars 2020 voru samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi atvinnulífsins. Lögin gilda fyrir starfsfólks á almennum og opinberum vinnumarkaði og fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga.

    Lögin tryggja rétt til atvinnuleysisbóta fyrir fólk sem starfar hér eftir í 25-80 prósent starfi, að því gefnu að starfshlutfall dragist saman um minnst 20 prósent. Greiðslur frá Vinnumálastofnun nema tekjutengdum atvinnuleysisbótum í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá atvinnurekanda og greiðslur atvinnuleysisbóta geta þó samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns og aldrei meira en 700.000 krónum.

    Mánaðarlaun upp að 400.000 krónum fyrir starfsfólk sem var í 100 prósent starfi eru tryggð án skerðingar. Lögin gilda frá 15. mars 2020 til 1. júní 2020, en stjórnvöld hafa gefið það út að ef þurfa þykir verður úrræðið framlengt.

    Sótt er um bætur á vef Vinnumálastofnunar og þar má einnig finna reiknivél til að reikna út væntanlegar bætur og laun.

  • Barnabótaauki

    Þann 1. júní 2020 verður sérstakur barnabótaauki greiddur vegna allra barna yngri en 18 ára. Barnabætur miðast við tekjuárið 2019 og í lok maí getur fólk séð hversu hár barnabótaaukinn verður.

    Foreldrar sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum fá 42.000 krónur með hverju barni undir 18 ára aldri en foreldrar sem ekki eiga rétt á tekjutengdum barnabótum vegna skerðingar fá 30.000 krónur með hverju barni.

    Ekki þarf að sækja um sérstakan barnabótaauka, hann telst ekki til skattskyldra tekna, leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna og honum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

  • Eingreiðslur til örorkulífeyrisþega

    Þann 1. júní 2020 fá örorkulífeyrisþegar 20.000 króna eingreiðslu. Hún greiðist til allra örorkulífeyrisþega sem áttu rétt á desemberuppbót almannatrygginga fyrir árið 2019. Eingreiðslan skerðir ekki aðrar bætur. 

  • Úttekt séreignarsparnaðar

    Allir sem eiga séreignasparnað geta sótt um úttekt á allt að 12 milljónum króna frá 1. apríl til 31. desember 2020. Úttektin dreifist á 15 mánaða tímabil en hlutfallslega styttra tímabil ef úttektin er lægri en 12 milljónir króna.

    Dæmi:

    • Úttekt er 12 milljónir – þá greiðast út 800.000 krónur á mánuði í 15 mánuði.
    • Úttekt er 4 milljónir – þá greiðast út 800.000 krónur á mánuði í 5 mánuði.
    • Úttekt er 800.000 – þá greiðast út 800.000 krónur í eitt skipti.

    Sótt er um úttekt hjá vörsluaðila sparnaðarins. Greiða þarf tekjuskatt af úttektinni en hún skerðir ekki greiðslur frá almannatryggingum, húsnæðisbætur, barnabætur, vaxtabætur, atvinnuleysisbætur og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Ráðstöfun séreignarsparnaðar samkvæmt þessari heimild hefur ekki áhrif á önnur úrræði sem heimiluð hafa verið um úttekt og ráðstöfun séreignasparnaðar.

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts

    Á tímabilinu 1. mars 2020 til 31. desember 2020 geta eigendur og leigjendur íbúðarhúsnæðis (utan rekstrar) fengið 100 prósent endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna:

    • Aðkeyptrar vinnu við nýbyggingar, viðhalds og hönnunar íbúðarhúsnæðis og frístundahúsa. Þessi heimild nær einnig til orlofshúsa og orlofsíbúða stéttarfélaga og mannvirkja í eigu ýmissa frjálsra félagasamtaka.
    • Vinnu við heimilisþrif og reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis.
    • Einnig verður heimiluð, á sama tímabili, endurgreiðsla á 100 prósent virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiðar í eigu umsækjanda en vinnuliðurinn verður að vera að lágmarki 25.000 krónur. 

    Sótt er um endurgreiðslu virðisaukaskatts hjá Skattinum.

  • Sveitarfélög

    Flest sveitarfélög ætla að slepppa því að innheimta gjöld vegna þeirrar þjónustu sem skerðist vegna heimsfaraldursins svo sem vegna leikskóla, skólamáltíða og frístundaheimila.

    Sveitarfélög eru með fjölbreyttar aðgerðir til að létta heimilum og fyrirtækjum róðurinn á meðan efnahagsástandið verður sem verst. Hægt er að finna nánari upplýsingar á heimasíðum sveitarfélaganna. 

  • Leigufélög

    Sum leigufélög hafa ákveðið að gefa leigjendum kost á að fresta hluta af leigugreiðslum í nokkra mánuði. Skilyrði og reglur eru mismunandi og er fólki bent á að kanna skilmálana nánar hjá leigufélögunum sjálfum.

  • Húsnæðislán

    Flestir bankar og lífeyrissjóðir hafa brugðist við tilmælum um að veita greiðslufresti vegna fasteignalána. Ólík skilyrði gilda milli stofnana sem og um tímalengd greiðslufrests og kostnað við skilmálabreytingar. Nánari upplýsingar fást á heimasíðum viðkomandi lánastofnana og lífeyrissjóða. 

Aðrar aðgerðir stjórnvalda

  • Heilbrigðiskerfið

    Alþingi samþykkti í lok mars 2020 sérstök fjáraukalög. Um einum milljarði króna er varið til að fjármagna skimun og hlífðarbúnað og til að mæta auknu álagi á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og heilsugæslustöðvum.

  • Sérstakt tímabundið fjárfestingarátak

    Alþingi hefur samþykkt sérstakt tímabundið fjárfestingarátak fram til 1. apríl 2021. Fjárfestingarátak til lengri tíma verður kynnst fyrir þann tíma. Stefnt er að fjölbreyttum fjárfestingum fyrir um 18 milljarða króna á 12 mánaða tímabili.

    Fjárfest verður í meðal annars vegaframkvæmdum og viðgerðum á flugvöllum, nýbyggingum og viðhaldi heilbrigðisstofnana og skóla, orkuskiptum, umhverfisverkefnum, framkvæmdum við ferðamannastaði, ofanflóðavörnum, ljósleiðaravæðingu og upplýsingatækniverkefnum. Þá verða framlög í sjóði tengdum rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum aukin um 3 milljarða króna.

  • Markaðsátak í ferðaþjónustu

    Ríkið mun styrkja ferðaþjónustuna með 3 milljarða króna framlagi í markaðsátak til að efla íslenska ferðaþjónustu á árunum 2020 til 2021. Átakinu verður beint að erlendum sem innlendum ferðamönnum.

    Ferðaþjónustan leggur til nær 12 prósent af landsframleiðslunni og markaðsátakið er styrkt í því ljósi. Fáar þjóðir eru efnahagslega jafnháðar ferðaþjónustu eins og Íslendingar. 

  • Fyrirtækin

    Fjöldi fyrirtækja á í alvarlegum fjárhagsvanda vegna heimsfaraldursins. Þetta gildir um fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdum greinum en æ fleiri atvinnugreinar finna fyrir samdrætti eftir því sem á líður.

    Ríkisstjórnin hefur beitt fjölmörgum úrræðum til að koma til móts við fyrirtækin í landinu. Flest þeirra eru háðar ýmsum skilyrðum. Markmiðið er að reyna að draga úr atvinnuleysi og tryggja að fyrirtækin séu í stakk búin til að hefja eðlilega starfsemi þegar ástandinu linnir.

    Meðal aðgerða má nefna ríkisábyrgð sem getur numið 50 til 70 prósentum á brúarlánum lánastofnana til fyrirtækja, frestun á gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds, tilslökun á kröfu um fyrirframgreiddan tekjuskatt fyrirtækja, afnámi gistináttagjalds til 31. desember 2021, frestun á gjalddögum virðisaukaskatts, frestun á greiðslu fasteignagjalda, undanþága á dráttarvöxtum vegna seinkunar á greiðslum iðgjalda í lífeyrissjóði og lækkun á bankaskatti fyrr en áætlað var. 

  • Aðgerðir Seðlabankans

    Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti um eitt prósentustig frá því í byrjun mars 2020 og fóru þá vextirnir niður í 1,75 prósent. Einnig hefur reglum verið breytt til að auka lausafé banka til útlána.

    Ríkið mun þurfa að gefa út mikið af ríkisskuldabréfum á næstunni til að fjármagna efnahagsaðgerðirnar og tekjutap vegna efnahagsástandsins. Seðlabankinn hyggst kaupa ríkisskuldabréf til að halda niðri ávöxtunarkröfu bréfanna.

    Seðlabankinn er líka í góðri aðstöðu til að verja gengi krónunnar gegn of miklu falli því gjaldeyrisvaraforðasjóðurinn er stór. Gengi íslensku krónunnar féll um nær 12 prósent fyrstu þrjá mánuði ársins 2020. Þau tilmæli hafa verið gefin til lífeyrissjóða að takmarka fjárfestingar sínar erlendis á næstunni til að draga úr gjaldeyrisútstreymi og þrýstingi á gengi íslensku krónunnar.

Áherslur BSRB vegna aðgerða stjórnvalda

  • Almennt um áherslur BSRB

    Stjórnvöld hafa lýst því yfir að gripið verði til frekari aðgerða vegna efnahagslegra áhrifa Covid-19 faraldursins á einstaklinga og fyrirtæki. BSRB leggur áherslu á að öryggi og heilsa fólks sé tryggð, sérstaklega í framlínustörfum, en einnig heilt yfir í vinnu og einkalífi. Þar til viðbótar höfum við lagt áherslu á að gripið verði til markvissra aðgerða með jafnrétti að leiðarljósi sem hafa það að markmiði að tryggja afkomu fólks og stjórnvöld gangi lengra í stuðningi við heimilin en nú hefur verið gert.

  • Helstu áherslur BSRB vegna frekari aðgerða stjórnvalda

    • Úrræði til að tryggja afkomu foreldra sem geta ekki unnið í fjarvinnu en geta ekki sótt vinnu vegna skerts skólastarfs barna sinna.
    • Úrræði til að tryggja afkomu einstaklinga sem eru frá vinnu vegna aukinnar áhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma, eða eiga börn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eru heima samkvæmt tilmælum læknis.
    • Atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og þær fylgi launahækkunum kjarasamninga.
    • Að allir opinberir aðilar sem veita lán eða innheimta hvers kyns greiðslur komi til móts við einstaklinga með rýmri greiðslufrestum og leiti allra leiða til að koma til móts við þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum með sanngjörnum hætti.
    • Að stjórnvöld auki framlög sín til uppbyggingar almennra íbúða.
    • Að stjórnvöld leggi áherslu á jafna möguleika og jöfn tækifæri kvenna og karla í uppbyggingu vinnumarkaðsaðgerða og sköpun starfa.
    • Að stjórnvöld hraði uppbyggingu á Borgarlínu.
    • Að stjórnvöld auki framlög sín til viðhalds, endurbóta og byggingar húsnæðis heilbrigðisstofnana.
    • Að stjórnvöld leggi áherslu á fjárfestingu í menntun í greinum innan heilbrigðis-, mennta- og félagskerfisins.
    • Að allar aðgerðir stjórnvalda byggi jöfnum höndum á félagslegum stöðuleika sem og efnahagslegum.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?