Drög að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026–2029. Mál nr. S-157/2025

BSRB fagnar nýrri aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks. Hún er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess bakslags sem nú á sér stað í okkar samfélagi, þar sem vegið er að tilverurétti hinsegin fólks. Nauðsynlegt er að stíga fast til jarðar með því að vinna að réttarbótum og auka fræðslu og þekkingu á málaflokknum.

Aðgerðaáætluninni er augljóslega ætlað að vinna að auknum réttindum, fræðslu og þekkingu en það er áhyggjuefni hvað margar viðamiklar aðgerðir sem snúa að fræðslu og rannsóknum eru ófjármagnaðar.

Starfsþróun og fræðsla til starfsfólks í opinberri þjónustu er nauðsynleg í síbreytilegu samfélagi. Það er jákvætt hve mikil áhersla er lögð á að koma á faglegri ferlum fyrir hinsegin fólk innan opinberrar þjónustu svo sem á heilbrgiðisstofnunum, skólakerfinu og hjá lögreglu. Þá fagnar BSRB því að vinna eigi að hinseginvænu vinnuumhverfi innan lögreglunnar og hjá Stjórnarráðinu. Nýta ætti þá reynslu sem fellur til þar og vinna að sambærilegum verkefnum innan fleiri vinnustaða hjá ríkinu.

Þekking á stöðu hinsegin fólks og þróun breytinga sem verða á stöðu þeirra er grundvöllur þess að geta stutt við hópinn út frá þeirra þörfum. Því er það fagnaðarefni að sjá aðgerðir sem snúa að úttektum á líðan og stöðu hinsegin fólks. Lítil þekking er til að mynda á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði. Fyrir liggur engu að síður að slíkar úttektir eru kostnaðarsamar og því ólíklegt að þær verði að veruleika nema sérstakt fjármagn fylgi.

Ef aðgerðir í þessari aðgerðaáætlun verða að veruleika má ætla að til takist að þoka þessum málum í rétta átt - en fjármagn þarf að fylgja aðgerðum. Það er ósk BSRB að stjórnvöld stórefli fjármagnið sem fylgir aðgerðaáætluninni og tryggi þannig að aðgerðirnar skili árangri.

 

Fyrir hönd BSRB

Fríða Rós Valdimarsdóttir

Sérfræðingur í fræðslumálum