Ræða formanns á 44. þingi BSRB

Elín Björg Jónsdóttir„Undirstaða okkar samfélags, er að hér eiga allir að hafa jafnan rétt rétt – óháð kyni, aldri, búsetu, uppruna, trúar eða efnahag. Sameiginlegan rétt til menntunar, umönnunar og heilbrigðisþjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Og það er þetta sem almannaþjónustan veitir,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB í setningarræðu sinni á 44. þingi BSRB sem var sett á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu í Reykjavík í morgun. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Öflug almannaþjónusta – betra samfélag“.

Samfélag félagslegs réttlætis

„Almannaþjónustan er undirstaða jafnaðar, félagslegs réttlætis og velferðar okkar allra. Hvar svo sem við stöndum og hvernig svo sem við erum gerð, eigum við að geta treyst á, að ef eitthvað bjátar á, þá verði okkur hjálpað eftir fremsta megni til að komast aftur á réttan kjöl. Við setjum traust okkar á félagslega samheldni, þar sem hagur heildarinnar og velferð fjöldans er í fyrirrúmi. Samfélag sem hefur þá hugsun að leiðarljósi er samfélag sem gott er að lifa í. Samfélag þar sem skattkerfið er nýtt til lífskjarajöfnunar og skattar standa undir samneyslunni. Samfélag sem hafnar þeirri hugmynd að hver sé sjálfum sér næstur – en byggir þess í stað á hugmyndum um samhjálp og félagshyggju. Slíkt samfélag fær ekki þrifist án öflugrar almannaþjónustu. Öflug almannaþjónusta byggir betra samfélag,“ sagði Elín Björg í ræðu sinni og bætti við að við þyrftum að gera betur í framtíðinni.

Efling almannaþjónustunnar eflir samfélagið

„Þegar við horfum til framtíðar hljótum við að vera sammála um að við viljum gera þessum gildum okkar hærra undir höfði en nú er. Og þó hér sé margt vel gert, hljótum við að vilja sjá öflugri heilbrigðisþjónustu, sterkara menntakerfi, betri almannatryggingar, aukinn kaupmátt og betri lífsskilyrði,“ sagði Elín Björg.

„Við viljum skila komandi kynslóðum betra búi en við tókum við. Við viljum lifa í vissu um, að við og okkar nánustu búi í samfélagi sem grípur þá sem hrasa og hjálpa þeim aftur á fætur – það eru hin sönnu verðmæti. En til að svo megi verða þurfum við að gera betur í dag en í gær. Þess vegna verðum við að efla almannaþjónustuna, því þannig eflum við samfélagið og lífsskilyrði okkar allra.

Áherslubreytinga þörf

Því miður bendir margt til þess, að við séum á leið af þessari braut. Allt of margir eiga erfitt með að láta enda ná saman. Ungt fólk og barnafjölskyldur eiga litla möguleika á að koma sér upp heimili. Sjúklingar greiða allt of mikið í lyfjakostnað og heilbrigðisþjónustu. Lífeyrisþegar hafa allt of lítið á milli handanna. Á tímum uppgangs og endurreisnar er öfugsnúið að fátækt sé útbreidd á Íslandi og bilið sé aftur að aukast á milli þeirra efnamestu og þeirra sem minnst hafa. Allt of mikið af ungu fólki hefur kosið að freista gæfunnar í öðrum löndum og enn fleiri hugsa sér til hreyfings,“ sagði formaður BSRB.

„Ef ekkert breytist í áherslum stjórnvalda á Íslandi er alls óvíst hvort þetta fólk muni nokkru sinni snúa aftur. En þetta þarf ekki að vera svona,“ sagði Elín Björg og hélt áfram:

„Við erum vel menntuð þjóð og landið ríkt af auðlindum. Orkan og iðnaðurinn – ferðamennirnir og fiskurinn. Allt eru þetta tekjulindir sem ættu að nýtast þjóðarbúinu betur og skila meiru til samfélagsins. Það þarf ekkert nema viljann, samstöðuna og samhuginn og þá getum við komist nær auknum jöfnuði og aukið lífsgæði okkar allra. En til þess þarf breyttar áherslur hjá réttum aðilum. Arður auðlindanna á að nýtast þjóðinni allri, til að styrkja innviðina. Þannig tekst okkur að byggja réttlátari, jafnari og farsælli framtíð – okkur öllum til hagsbóta.

Krafan sanngjörn: sömu kjarabætur og aðrir hafa fengið

„Við erum nýkomin úr hörðum kjaradeilum við viðsemjendur okkar þar sem reynt hefur á samstöðu okkar og samhug,“ sagði Elín Björg um kjaradeilur aðildarfélaga BSRB sem staðið hafa yfir síðustu vikur.

„Kröfur okkar voru mjög skýrar og líka mjög sanngjarnar; sömu kjarabætur og aðrir ríkisstarfsmenn hafa þegar fengið. Þótt ýmsir hafi haft uppi gífuryrði, sakað okkur um svik og heimtufrekju, á milli þess sem kröfur okkar voru sagðar ógna stöðugleika, hleypa vöxtum og verðbólgu í hæstu hæðir, hefur krafa okkar aldrei verið önnur en að fá það sama og hinir hafa þegar fengið,“ sagði Elín Björg og minnti á að BSRB hefði undanfarin ár lagt sitt af mörkum til þess að koma á stöðugleika og bættri umgjörð um gerð kjarasamninga.

Fólk upplifði svik

„Í upphafi síðasta árs gekkst BSRB undir samkomulag sem færði okkur 2,8% launahækkun og var liður í því að ná fram auknum kaupmætti launa, halda niðri verðbólgu og vöxtum og til þess að hér mætti nást meiri stöðugleiki,“ sagði Elín Björg og hélt áfram:

„En aðgerðir sumra aðila samkomulagsins, þegar gengið hafði verið frá samningum, sýndu í verki þann hugsunargang sem víða viðgengst – að launafólkið eitt eigi að axla ábyrgð á verðbólgu og stöðugleika á Íslandi. Þetta sást best á gríðarlegu launaskriði stjórnenda fyrirtækja þetta sama ár, milljarða hagnaði banka og fyrirtækja og arðgreiðslur í samræmi við það.“

„Aðeins nokkrum mánuðum áður, hafði harmakvein úr röðum atvinnurekenda hljómað hátt og það síendurtekið, að allt færi á hliðina ef kjarabætur færu upp fyrir 3%. Undir þá skoðun tóku stjórnvöld sem á sama tíma vörðu 80 milljörðum – 80 þúsund milljónum – í skuldaleiðréttingu sem hafnaði að stórum hluta hjá fólki sem þurfti ekki á henni að halda. Leigjendur og aðrir sem hafa lægstu tekjurnar sátu eftir óleiðréttir,“ sagði formaður BSRB.

„Skattur var lækkaður á stóriðjuna, veiðigjöld höfðu verið lækkuð og auðlegðarskatturinn afnuminn á sama tíma og skattar á matvæli voru hækkaðir. Greiðsluþátttaka í velferðarkerfinu jókst og ástandið í heilbrigðismálum hefur sjaldan verið alvarlegra. Húsnæðisverð hefur haldið áfram að hækka, leiguverð sömuleiðis og lítið sem ekkert gerist til að bæta úr brýnni þörf fyrir aðgerðir í húsnæðismálum.Og svo var samið við tilteknar stéttir um tugprósenta hækkanir launa. Það er ekki nema von að fólk upplifi sig svikið.“

Ábyrgðin ekki bara launafólksins

„Það er ekki hægt að leggja allar byrðarnar á almennt launafólk og ætlast til að það eitt beri ábyrgð á verðbólgunni. Að svo viðamiklu verkefni verða allir að koma. Launafólkið veitti á síðasta ári stjórnvöldum og atvinnurekendum kjörið tækifæri til að byggja upp trú og traust á að hér væri hægt að vinna eftir nýrri aðferðafræði við gerð kjarasamninga, þar sem allir aðilar stefndu að sama markmiðinu, þar sem allir leggðu hönd á plóg, sem á endanum myndu koma öllum málsaðilum til góða í formi, aukins kaupmáttar og aukins stöðugleika. Því miður var það tækifæri ekki gripið og þess vegna höfum við upplifað eitthvað stormasamasta ár síðari tíma á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði Elín Björg og vék því næst að kjarasamningum yfirstanda árs og samkomulagi um bætta umgjörð kjarasamninga á Íslandi.

Launaskriðstrygging réttlætismál

„Þegar röðin var komin að BSRB að setjast að samningaborðinu til þess eins að sækja sömu kjarabætur og aðrir starfsmenn ríkisins höfðu þá þegar fengið, þá kom það ekki til greina af hálfu ríkis né sveitarfélaga. Því var nauðsynlegt að fara í hart og þess vegna hafa félagsmenn okkar staðið í verkfallsaðgerðum síðustu vikur, verkföllum sem auðveldlega hefði mátt afstýra. Samningsviljinn var hins vegar ekki mikill hjá viðsemjendum okkar þótt þeim hefði mátt vera löngu ljóst að BSRB félagar myndu aldrei sætta sig við lakari kjarabætur en aðrir ríkisstarfsmenn höfðu þegar fengið,“ sagði Elín Björg.

„Á þessu ári hafa BSRB félagar verið án samnings í meira en hálft ár og vona ég sannarlega að þetta hafi verið í síðasta skipti sem slíkt hendir. Loks sjáum við til lands í kjaramálum okkar og samhliða því höfum við undirritað samkomulag um, að vinna að því, að koma á, nýjum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga á Íslandi.“

„Í því felst að aðildarfélög BSRB semji um sambærilegar launahækkanir og byggt var á í niðurstöðu gerðardóms í sumar og að það náist samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda. Heildarsamtök opinberra starfsmanna, BSRB, BHM og KI, munu ásamt fjármálaráðuneyti kappkosta að klára vinnu vegna málefna opinberu lífeyrissjóðanna, vinnu sem staðið hefur yfir í fjölda ára. Hið nýja samkomulag mun jafnframt þýða að þegar þessari vinnu er lokið mun svokölluð launaskriðstrygging komast í gagnið sem mun tryggja opinberum starfsmönnum launahækkanir til jafns við það launaskrið sem gjarnan vill verða á almenna markaðnum umfram kjarasamningsbundnar hækkanir. Það er mikið réttlætismál - að launaskriðstryggingin skuli nú vera í sjónmáli, enda hefur slíkt launaskriðsákvæði verið baráttumál bandalagsins til fjölda ára,“ sagði formaður BSRB.

Aukum réttlætið og jafnréttið

Að lokum vék formaður BSRB að komandi þingstörfum og hvatti félagsmenn BSRB til að sýna samstöðu í störfunum framundan því fátt væri launafólki mikilvægara.

„Samstaða er það mikilvægasta sem við eigum. Með samtakamættinum höfum við í áranna rás breytt mörgu til hins betra og saman höfum við reist samfélag sem við getum, þrátt fyrir allt verið nokkuð stolt af. Og saman verðum við að standa vörð um það sem mestu skiptir og gerir okkar samfélag eftirsóknarvert. Við verðum að auka jöfnuðinn, réttlætið og jafnréttið – sýna samhjálp og auka félagslegt réttlæti. Við verðum að hafa trú á mátt okkar til að gera gott samfélag enn betra. Og þegar ég lít upp og horfi yfir hópinn sem hér er saman komin get ég ekki verið annað en bjartsýn á að okkur takist það.“

Ræðu formanns BSRB má sjá í heild sinni hér að neðan.

 

Öflug almannaþjónusta - Betra samfélag

 

Yfirskrift þingsins okkar að þessu sinni er „Öflug almannaþjónusta – betra samfélag“ og það eru orð að sönnu.

Undirstaða okkar samfélags, er að hér eiga allir að hafa jafnan rétt rétt – óháð kyni, aldri, búsetu, uppruna, trúar eða efnahag.

Sameiginlegan rétt til menntunar, umönnunar og heilbrigðisþjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir það.

Og það er þetta sem almannaþjónustan veitir.

Almannaþjónustan er undirstaða jafnaðar, félagslegs réttlætis og velferðar okkar allra.

Hvar svo sem við stöndum og hvernig svo sem við erum gerð, eigum við að geta treyst á, að ef eitthvað bjátar á, þá verði okkur hjálpað eftir fremsta megni til að komast aftur á réttan kjöl.

Við setjum traust okkar á félagslega samheldni, þar sem hagur heildarinnar og velferð fjöldans er í fyrirrúmi.

Samfélag sem hefur þá hugsun að leiðarljósi er samfélag sem gott er að lifa í.

Samfélag þar sem skattkerfið er nýtt til lífskjarajöfnunar og skattar standa undir samneyslunni.

Samfélag sem hafnar þeirri hugmynd að hver sé sjálfum sér næstur - en byggir þess í stað á hugmyndum um samhjálp og félagshyggju.

Slíkt samfélag fær ekki þrifist án öflugrar almannaþjónustu.

Öflug almannaþjónusta byggir betra samfélag.

Þegar við horfum til framtíðar hljótum við að vera sammála um að við viljum gera þessum gildum okkar hærra undir höfði en nú er.

Og þó hér sé margt vel gert, hljótum við að vilja sjá öflugri heilbrigðisþjónustu, sterkara menntakerfi, betri almannatryggingar, aukinn kaupmátt og betri lífsskilyrði.

Við viljum skila komandi kynslóðum betra búi en við tókum við.

Við viljum lifa í vissu um, að við og okkar nánustu - búi í samfélagi sem grípur þá sem hrasa og hjálpa þeim aftur á fætur – það eru hin sönnu verðmæti.

En til að svo megi verða þurfum við að gera betur í dag en í gær.

Þess vegna verðum við að efla almannaþjónustuna, því þannig eflum við samfélagið og lífsskilyrði okkar allra.

Þannig aukum við hin sönnu verðmæti.

Því miður bendir margt til þess , að við séum á leið af þessari braut. Allt of margir eiga erfitt með að láta enda ná saman.

Ungt fólk og barnafjölskyldur eiga litla möguleika á að koma sér upp heimili.

Sjúklingar greiða allt of mikið í lyfjakostnað og heilbrigðisþjónustu.

Lífeyrisþegar hafa allt of lítið á milli handanna.

Á tímum uppgangs og endurreisnar er öfugsnúið að fátækt sé útbreidd á Íslandi og bilið sé aftur að aukast á milli þeirra efnamestu og þeirra sem minnst hafa.

Allt of mikið af ungu fólki hefur kosið að freista gæfunnar í öðrum löndum og enn fleiri hugsa sér til hreyfings.

Í fyrstu var atvinnuleysi kennt um, en jafnvel þótt atvinnuástandið sé nú með besta móti hefur þessi þróun haldið áfram.

Við verðum að horfast í augu við, að þótt fólki sé tryggð atvinna, hagtölur sýni aukin kaupmátt og hagvöxt - kýs fjöldi fólks samt sem áður, að kveðja föðurlandið.

Margt ungt fólk sér fyrir sér mun bjartari framtíð í löndunum hér í kring – þar sem húnsæði er viðráðanlegt, vaxtakjör sanngjarnari, leiguverð lægra, matvöruverð sömuleiðis, kaupmátturinn meiri, vinnutíminn styttri og áherslur atvinnurekenda og stjórnvalda eru mun fjölskylduvænni.

Ef ekkert breytist í áherslum stjórnvalda á Íslandi er alls óvíst hvort þetta fólk muni nokkru sinni snúa aftur.

En þetta þarf ekki að vera svona.

Kunnuglegar raddir verða háværari. Raddir sem boða einfalt regluverk, einkaframtak og lága skatta sem lausn allra okkar vandamála, á meðan allt sem rekið er á samfélagslegum grunni af hinu opinbera, er sagt óþarfa eyðsla almannafjár.

En þegar við lítum í kringum okkur, sjáum við einmitt hið gagnstæða.

Efnuðustu og samkeppnishæfustu þjóðir heims, eru vinir okkar - Norðurlandaþjóðirnar.

Þar er jöfnuðurinn hvað mestur og samhjálpin innbyggð í þjóðarvitundina.

Þessar sömu þjóðir eru þær sem verja mest af fjármunum í opinbera þjónustu, velferð og samfélagsleg verkefni.

Hagtölur þessara landa sýna svart á hvítu að þótt útgjöld til velferðarmála séu þar há, skila þeir fjármunir sér margfalt til baka.

Velferð nágranna okkar byggir á traustum opinberum fjármálum, og virðingu samfélagsins alls, fyrir mikilvægi opinberra starfa.

Þar ríkir víðtæk sátt – þvert á stjórnmálaflokka, samtök launafólks og atvinnulífs – að útgjöld til almannaþjónustu séu ekki óþarfa eyðsla fjármuna, heldur skynsöm fjárfesting til framtíðar.

Og sagan sýnir okkur að svo er. Hagtölur Norðurlandanna tala sínu máli.

Þau búa ekki við viðvarandi fjárlagahalla eða óhóflega skuldasöfnun – heldur skipa þau sér í efstu sætin í öllum mælingum lífsgæða.

Við þurfum að komast enn nær þeim lífsgæðum – Og við getum vel komist þangað.

Við erum vel menntuð þjóð og landið ríkt af auðlindum.

Orkan og iðnaðurinn – ferðamennirnir og fiskurinn.

Allt eru þetta tekjulindir sem ættu að nýtast þjóðarbúinu betur og skila meiru til samfélagsins.

Það þarf ekkert nema viljann, samstöðuna og samhuginn og þá getum við komist nær auknum jöfnuði og aukið lífsgæði okkar allra.

En til þess þarf breyttar áherslur hjá réttum aðilum.

Arður auðlindanna á að nýtast þjóðinni allri, til að styrkja innviðina.

Þannig tekst okkur að byggja réttlátari, jafnari og farsælli framtíð – okkur öllum til hagsbóta.

Við erum nýkomin úr hörðum kjaradeilum við viðsemjendur okkar þar sem reynt hefur á samstöðu okkar og samhug.

Ég vil hrósa þeim sem leitt hafa samninganefndir okkar félaga, starfsfólki og öðrum sem lagt hafa hönd á plóg fyrir staðfestuna sem sýnd hefur verið í þessum kjaraviðræðum.

Jafnframt ber að hrósa yfirveguninni, sem að mestu hefur einkennt málflutning okkar fólks, enda hafa kröfurnar verið mjög skýrar og líka mjög sanngjarnar;

Sömu kjarabætur og aðrir ríkisstarfsmenn hafa þegar fengið.

Þótt ýmsir hafi haft uppi gífuryrði, sakað okkur um svik og heimtufrekju, á milli þess sem kröfur okkar voru sagðar ógna stöðugleika, hleypa vöxtum og verðbólgu í hæstu hæðir, hefur krafa okkar aldrei verið önnur en að fá það sama og hinir.

Þeir sem hæst hrópuðu völdu líka að gleyma því að í upphafi síðasta árs gekkst BSRB undir samkomulag sem færði okkur 2,8% launahækkun og var liður í því að ná fram auknum kaupmætti launa, halda niðri verðbólgu og vöxtum og til þess að hér mætti nást meiri stöðugleiki.

Mikill meirihluti íslenska vinnumarkaðarins tók þátt í þessu með Samtökum atvinnulífsins, ríki og sveitarfélögum enda áttu allir að færa fórnir og ávinningurinn átti jafnframt að vera allra.

En aðgerðir sumra aðila samkomulagsins, þegar gengið hafði verið frá samningum, sýndu í verki þann hugsunargang sem víða viðgengst – að launafólkið eitt eigi að axla ábyrgð á verðbólgu og stöðugleika á Íslandi.

Þetta sást best á gríðarlegu launaskriði stjórnenda fyrirtækja þetta sama ár, milljarða hagnaði banka og fyrirtækja og arðgreiðslur í samræmi við það.

Aðeins nokkrum mánuðum áður, hafði harmakvein úr röðum atvinnurekenda hljómað hátt og það síendurtekið, að allt færi á hliðina ef kjarabætur færu upp fyrir 3%.

Undir þá skoðun tóku stjórnvöld sem á sama tíma vörðu 80 milljörðum – 80 þúsund milljónum – í skuldaleiðréttingu sem hafnaði að stórum hluta hjá fólki sem þurfti ekki á henni að halda.

Leigjendur og aðrir sem hafa lægstu tekjurnar sátu eftir „óleiðréttir“.

Skattur var lækkaður á stóriðjuna, veiðigjöld höfðu verið lækkuð og auðlegðarskatturinn afnuminn á sama tíma og skattar á matvæli voru hækkaðir.

Greiðsluþátttaka í velferðarkerfinu jókst og ástandið í heilbrigðismálum hefur sjaldan verið alvarlegra.

Húsnæðisverð hefur haldið áfram að hækka, leiguverð sömuleiðis og lítið sem ekkert gerist til að bæta úr brýnni þörf fyrir aðgerðir í húsnæðismálum.

Og svo var samið við tilteknar stéttir um tugprósenta hækkanir launa.

Það er ekki nema von að fólk upplifi sig svikið.

Það er ekki hægt að leggja allar byrðarnar á almennt launafólk og ætlast til að það eitt beri ábyrgð á verðbólgunni. Að svo viðamiklu verkefni verða allir að koma.

Launafólkið veitti á síðasta ári stjórnvöldum og atvinnurekendum

kjörið tækifæri til að byggja upp trú og traust á að hér væri hægt að vinna eftir nýrri aðferðafræði við gerð kjarasamninga, þar sem allir aðilar stefndu að sama markmiðinu, þar sem allir leggðu hönd á plóg, sem á endanum myndu koma öllum málsaðilum til góða í formi, aukins kaupmáttar og aukins stöðugleika.

Því miður var það tækifæri ekki gripið og þess vegna höfum við upplifað eitthvað stormasamasta ár síðari tíma á íslenskum vinnumarkaði.

Vandræðaganginn við að ná saman um kjarasamninga síðasta vor þekkja allir.

Verkföllum á almenna markaðnum lauk með undirritun samninga – þar sem hið sjálfsagða markmið, um 300 þúsund króna lágmarks laun, að þremur árum liðnum náði loks fram að ganga.

Verkföllum BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lauk með lagasetningu og þar voru kjarabæturnar ákvarðaðar af gerðardómi.

Kröfur hópanna voru ólíkar og rökstuddar á ólíkan hátt – en báðar voru að lokum viðurkenndar sem réttmætar kröfur, annars vegar með samningum og hins vegar með úrskurði.

En þegar röðin var komin að BSRB að setjast að samningaborðinu til þess eins að sækja sömu kjarabætur og aðrir starfsmenn ríkisins höfðu þá þegar fengið, þá kom það ekki til greina af hálfu ríkis né sveitarfélaga.

Því var nauðsynlegt að fara í hart og þess vegna hafa félagsmenn okkar staðið í verkfallsaðgerðum síðustu vikur, verkföllum sem auðveldlega hefði mátt afstýra.

Samningsviljinn var hins vegar ekki mikill hjá viðsemjendum okkar þótt þeim hefði mátt vera löngu ljóst að BSRB félagar myndu aldrei sætta sig við lakari kjarabætur en aðrir ríkisstarfsmenn höfðu þegar fengið.

Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því markvisst að bæta umgjörð við gerð kjarasamninga.

Það var að frumkvæði BSRB sem sú vinna fór af stað.

Markmið BSRB í tillögum bandalagsins, að bættri umgjörð kjarasamninga var fyrst og síðast að tryggja að nýr samningur tæki við þegar sá eldri væri úr gildi og að koma á launaþróunartryggingu á milli almenna og opinbera markaðarins.

Á þessu ári hafa BSRB félagar verið án samnings í meira en hálft ár og vona ég sannarlega að þetta hafi verið í síðasta skipti sem slíkt hendir.

Loks sjáum við til lands í kjaramálum okkar og samhliða því höfum við undirritað samkomulag um, að vinna að því, að koma á, nýjum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga á Íslandi.

Um er að ræða rammasamkomulag um sameiginleg vegferð við gerð kjarasamninga.

Í því felst að aðildarfélög BSRB semji um sambærilegar launahækkanir og byggt var á í niðurstöðu gerðardóms í sumar og að það náist samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda.

Heildarsamtök opinberra starfsmanna BSRB; BHM og KI munu ásamt fjármálaráðuneyti kappkosta að klára vinnu vegna málefna opinberu lífeyrissjóðanna, vinnu sem staðið hefur yfir í fjölda ára.

Hið nýja samkomulag mun jafnframt þýða að þegar þessari vinnu er lokið mun svokölluð „launaskriðstrygging“ komast í gagnið sem mun tryggja opinberum starfsmönnum launahækkanir til jafns við það launaskrið sem gjarnan vill verða á almenna markaðnum umfram kjarasamningsbundnar hækkanir.

Það er mikið réttlætismál - að launaskriðstryggingin skuli nú vera í sjónmáli, enda hefur slíkt launaskriðsákvæði verið baráttumál bandalagsins til fjölda ára.

Við sjáum því fram á að vera að taka fyrstu skrefin inn í nýtt framtíðarskipulag kjarasamningsviðræðna á Íslandi, sem ég tel að muni að lokum gagnast öllum aðilum á vinnumarkaði.

Rétt er þó að taka fram, að allt er þetta háð því að farsæl lausn náist um málefni opinberu lífeyrissjóðanna og sátt náist um framtíðarskipan lífeyrismála á milli heildarsamtaka opinberra starfsmanna og viðsemjenda þeirra.

Kæru félagar.

Undanfarin þrjú ár hefur hefur stjórn BSRB, framkvæmdastjórn og starfsfólk skrifstofu bandalagsins unnið ötullega að því að hrinda stefnumálum BSRB sem samþykkt voru á síðasta þingi í framkvæmd.

Og aftur erum við saman komin til að móta áherslur okkar til næstu þriggja ára.

Að við skulum koma hér saman til þings í þrjá daga til þess að eiga samtal okkar á milli er okkur afar mikilvægt. Að skiptast á skoðunum, hlusta og læra af hvert öðru, getur aðeins orðið til þess að skerpa hugsanir okkar og hugsjónir.

Þau ykkar sem eru að koma til þings í fyrsta skipti bíð ég sérstaklega velkomin og vona að þessi reynsla muni vera ykkur ánægjuleg og til þess að hvetja ykkur enn frekar til að taka þátt í starfi BSRB og aðildarfélaga þess.

Ég vona líka að þið sem reyndari eruð taki nýliðunum sérstaklega vel og hlustið á það sem þeir hafa að segja, því þótt reynslan vegi þungt geta nýjar raddir gefið okkur nýja sýn.

Á þessu þingi vonast ég til, að sem flestar raddir fái að heyrast. Við skipuleggjum þingið með þetta í huga og því hefur málstofum þingsins verið gefið aukið vægi.

Það er von okkar, að það muni virkja sem flesta til þátttöku og þannig getum við öll haft áhrif.

Það er margt sem þarf að ræða. Um margt erum við eflaust sammála en um annað ekki.

Munum að það er heilbrigt að takast á um málin og heyra ólíkar skoðanir.

En höfum jafnframt hugfast að gera það af yfirvegun og virðingu hvert fyrir öðru.

Þótt við komum frá ólíkum stöðum þá erum við að vinna að sameiginlegu markmiði – markmiðinu um bætt lífskjör og betri lífsgæði launafólks.

Við megum aldrei missa sjónar af því markmiði.

Samstaða er það mikilvægasta sem við eigum. Með samtakamættinum höfum við í áranna rás breytt mörgu til hins betra og saman höfum við reist samfélag sem við getum, þrátt fyrir allt verið nokkuð stolt af.

Og saman verðum við að standa vörð um það sem mestu skiptir og gerir okkar samfélag eftirsóknarvert.

Við verðum að auka jöfnuðinn, réttlætið og jafnréttið – sýna samhjálp og auka félagslegt réttlæti.

Við verðum að hafa trú á mátt okkar til að gera gott samfélag enn betra.

Og þegar ég lít upp og horfi yfir hópinn sem hér er saman komin get ég ekki verið annað en bjartsýn á að okkur takist það.

Kæru félagar.

Ég segi 44. þing BSRB sett.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?