Umsögn ASÍ, BSRB, BHM og KÍ um drög að aðgerðalista aðlögunaráætlunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi
Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM og KÍ fagna framlögðum drögum að aðgerðalista aðlögunaráætlunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi. Brýnt er að ráðast í aðgerðir til að auka viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart loftslagsbreytingum samhliða mótvægisaðgerðum. Stefnumótun og aðgerðir til að aðlaga samfélagið að loftslagsbreytingum taki mið af því að afleiðingar loftslagsbreytinga koma ekki jafnt niður á öllum hópum. Staða fólks, bæði félagsleg og efnahagsleg, sem og búseta, getur haft áhrif á getu til að verjast áföllum, bregðast við og jafna sig eftir þau. Því er brýnt að aðlögunaraðgerðir taki sérstaklega mið af þörfum viðkvæmustu hópanna. Að öðrum kosti er hætta á að ójöfnuður aukist. Réttlát aðlögun felur í sér að ávinningur af aðgerðum dreifist þannig að hann gagnist öllum en mest þeim sem eru viðkvæmastir og verst standa. Jafnframt þarf að hafa í huga að hópar í samfélaginu hafa missterka rödd og ólík tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku. Þátttaka viðkvæmra hópa – eða fulltrúa þeirra – í skipulagningu, framkvæmd og eftirfylgni aðlögunaraðgerða er því lykilatriði til að tryggja réttláta niðurstöðu.
Aðgerðir aðlögunaráætlunar ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda
Aðgerðaáætlunin sem hér er til umræðu byggir á fyrri vinnu stjórnvalda og stefnumótun. Þar á meðal er stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum „Í ljósi loftslagsvár“ sem kom út árið 2021. Í þeirri stefnu er að finna markmið á sviði þjóðarhags, vinnumarkaðar og félagslegra innviða. Á meðal þeirra eru markmið um „að áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir vinnumarkaðinn, samsetningu starfa og afkomuöryggi launafólks séu þekkt og innviðir og stuðningskerfi búi yfir aðlögunarhæfni.“ Einnig sé viðurkennt að áhrif á hópa sem eru í viðkvæmri stöðu efnahagslega eða félagslega, t.d. vegna náttúruhamfara, kalli á að félagsleg stuðningskerfi séu nægilega sterk til að mæta þeim.
Að mati undirritaðra heildarsamtaka endurspegla þær aðgerðir sem birtast í aðgerðaráætlun þessari ekki ofangreind markmið og gera þarf bragabót þar á.
Til þess er mikilvægt að kortleggja helstu áhættuþætti og áhrif þeirra á viðkvæma hópa út frá íslenskum aðstæðum, gera viðeigandi breytingar á aðgerðum og þróa nýjar í samræmi við niðurstöðu slíkrar kortlagningar. Framkvæma verður mat á afkomutryggingakerfum – þar á meðal atvinnuleysistryggingakerfinu, námslánakerfinu og á kerfum sí- og endurmenntunar – til að tryggja að þau nái til þeirra hópa sem verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, þau styðji raunverulega við aðlögun og tryggi viðnámsþrótt samfélagsins. Nauðsynlegt er að stefnumótun og aðgerðir á sviði aðlögunar styðji við starfs- og afkomuöryggi launafólks og verndi heilsu þess og öryggi. Að lokum verður fjármögnun aðgerða vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum að vera réttlát og til þess fallin að dreifa byrðunum með sanngjörnum hætti.
Í samráðsgátt stjórnvalda er tekið fram að litið sé á frekari þróun áætlunarinnar sem langtímaverkefni. Undirrituð heildarsamtök líta því svo á að aðgerðaáætlun þessi sé lifandi plagg sem eigi eftir að taka breytingum eftir því sem þörf krefur. Samtökin lýsa sig reiðubúin til samstarfs við stjórnvöld um umbætur á áætluninni til að ná ofangreindum markmiðum sem birtast í stefnu stjórnvalda og stuðla að réttlátum umskiptum.
Samtökin minna á nauðsyn þríhliða samstarfs um réttlát græn umskipti og sameiginlega viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um slíkt samstarf. Slíkt samstarf myndi ekki einungis tryggja samráð við aðila vinnumarkaðarins og aukna samstöðu um vegferðina heldur undirbyggja hana með rannsóknum og greiningum á hvaða leiðir eru færar til að stuðla að réttlátum umskiptum, þar með talið í aðlögun að loftslagsbreytingum. Samtökin vísa til umsagnar sinnar um heildarlög um loftslagsmál um nánari umfjöllun um samráðsvettvang íslenskra stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um réttlát græn umskipti[1].
Loftslagsatlas
Samtökin óska eftir aðkomu að áframhaldandi mótun Loftslagsatlass og ítreka nauðsyn þess að framkvæmt verði áhrifamat á þeim þáttum sem nefndir eru hér að ofan til að nota í þá vinnu.
Aukin áhersla á miðlun og samstarf
Mikilvægt er að aðgerðin feli einnig í sér greiningu og samantekt á stöðu þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga á félagslega innviði, launafólk og viðkvæma hópa.
Færni- og hæfnispár
Samtök launafólks hafa um árabil kallað eftir því lagt sé kerfisbundið mat á færniþörf á íslenskum vinnumarkaði. Í skýrslu sérfræðingahóps frá árinu 2015[2] var bent á að Ísland væri eftirbátur annarra Evrópuríkja þegar kæmi að því að leggja mat á færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma. Afleiðing þessa væri verri geta stjórnvalda, stofnana og einstaklinga til að taka upplýstar ákvarðanir til að mæta fyrirséðum breytingum á vinnumarkaði.
Samtökin taka undir aðgerðina. Líkt og kemur fram í aðgerðaáætluninni hefur Hagstofa Íslands unnið spár um eftirspurn og framboð vinnuafls og birt sem tilraunatölfræði en ekki spáð fyrir um endurnýjunarþörf. Þessa vinnu þarf að dýpka og þróa frekar til að hún nýtist með tilætluðum hætti.
Framhaldsfræðsla í þágu loftslagsmála
Í aðgerðaráætluninni má finna aðgerð sem ber heitið „Framhaldsfræðsla í þágu loftslagsmála“. Ekki er allskostar ljóst hvert markmið þeirrar aðgerðar er en svo virðist sem tveimur eðlisólíkum aðgerðum og markmiðum sé blandað saman í þessari aðgerð. Aukin áhersla á menntun, fræðslu og þjálfun með það að markmiði að tryggja möguleika launafólks til að mæta breytingum á vinnumarkaði. Einnig er mikilvægt að bjóða upp á almenna fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál, til að auka þekkingu í samfélaginu. Þarna er þó um að ræða sitthvort markmiðið.
Að mati samtakanna þarf að skipta aðgerðinni í tvennt. Annars vegar í eflingu og styrkingu sí- og endurmenntunar með það að markmiði að undirbúa launafólk betur undir breytingar á vinnumarkaði. Hins vegar í almenna fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál.
Virðingarfyllst,
F.h. Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM og KÍ
Auður Alfa Ólafsdóttir,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Kolbrún Halldórsdóttir,
Magnús Þór Jónsson
[1] https://samradapi.island.is/api/Documents/b5f8fae3-1885-f011-9bcf-005056bcce7e
[2] Sjá https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=0681c095-7921-11e8-9429-005056bc4d74