Umsögn ASÍ og BSRB um áform um atvinnustefnu til 2035 

Alþýðusamband Íslands og BSRB, sem eru heildarsamtök um 80% launafólks á íslenskum vinnumarkaði, fagna áformum ríkisstjórnarinnar um mótun atvinnustefnu og telja mikil tækifæri fólgin í því að samræma stefnumótum í þeim málaflokkum sem stutt geta við verðmætasköpun og góð lífskjör hér á landi.  Hagvöxtur hefur verið mikill undanfarinn áratug en hann hefur einkum verið drifinn áfram af uppbyggingu í mannaflsfrekum greinum og skortur hefur verið á stefnumörkun. Aukin landsframleiðsla skýrist því fremur af fólksfjölgun en aukinni framleiðni sem leitt hefur til þess að hagvöxtur á mann hefur verið umtalsvert minni en hagvöxtur. 

Í áformaskjali kemur fram að meginmarkmið atvinnustefnunnar sé að fjölga vel launuðum störfum um land allt og styðja við hagvöxt í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði. ASÍ og BSRB styðja þetta markmið.  Uppbygging atvinnuvega og nauðsynlegrar styðjandi þekkingar og grunninnviða er langtímaverkefni þar sem horfa þarf áratugi fram í tímann svo stefnumótunin skili tilætluðum árangri um uppbyggingu lífskjara á sjálfbærum grunni.

 

Jöfnuður og skipulagður vinnumarkaður

Samtökin telja brýnt að stefnumörkun stjórnvalda um aukna verðmætasköpun hafi það að markmiði að viðhalda jöfnuði og tryggja öllum hópum samfélagsins sanngjarna hlutdeild í verðmætasköpuninni. Það er mat ASÍ og BSRB að til að markmið stefnumörkunarinnar nái fram að ganga  þurfi að efla grunnstoðir vaxtar með markvissri uppbyggingu innviða, félagslegum stuðningskerfum, mannauði með þekkingu og færni auk sterks rannsóknar- og nýsköpunarumhverfis.

Hið opinbera leikur veigamikið hlutverk á öllum sviðum atvinnulífsins, hvort sem er með reglusetningu, framsæknu menntakerfi, nauðsynlegum innviðum eða öflugu velferðarkerfi sem styður við atvinnuþátttöku og heilbrigðan vinnumarkað. 

Hagvöxtur og verðmætasköpun er ekki trygging fyrir bættum hag almennings. Grunnforsenda þess að framleiðnivöxtur og ábati aukinnar samkeppnishæfni leiði til bættra lífskjara almennings er skipulagður vinnumarkaður þar sem ábata er deilt í gegnum frjálsra kjarasamninga,  með sterkri verkalýðshreyfingu og almennri stéttarfélagsaðild, sem stutt er með traustu regluverki og stofnunum sem standa vörð um réttindi launafólks.

Þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að draga úr loftslagsbreytingum, og aðlaga samfélagið að þeim, samhliða örum tæknibreytingum þurfa að gerast á forsendum réttlátra umskipta svo að neikvæð áhrif á almenning og launafólk séu lágmörkuð og mögulegum ábata af breytingum á vinnumarkaði sé jafnt skipt.

Réttlát umskipti fela í sér að afkoma launafólks sé tryggð, vinnumarkaðastengd réttindi varin, að breytingarnar leiði ekki til aukins ójafnaðar og fólki sé gert kleift að sækja sér menntun og þjálfun til að takast á við ný eða breytt störf.

 

Nýsköpun og opinberar styrkveitingar

Öflugt rannsóknarstarf, nýsköpun og þróun þurfa að styðja við atvinnuuppbyggingu í verðmætaskapandi greinum. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við grunnrannsóknir sem skapa grundvöll fyrir frekari nýsköpun, tækniþróun og rannsóknir. Þá styður hið opinbera við nýsköpun á fyrri stigum, m.a. í gegnum samkeppnissjóði og Nýsköpunarsjóðinn Kríu og einnig á síðari stigum gegnum skattendurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Stuðningur stjórnvalda við nýsköpun á að miða að því að styðja við vaxtasprota á fyrri stigum þegar aðgengi þeirra að fjármagni er takmarkað. Liggja þurfa fyrir skýr markmið stjórnvalda, um árangur almennra skattstyrkja og endurgreiðslna vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, sem styðja við atvinnustefnu stjórnvalda og regluverk þar um þarf að vera gagnsætt og skilvirkt sem og eftirlit með framkvæmdinni.

 

Auðlindamál

Fjölmörg dæmi eru um mikinn og hraðan vöxt atvinnugreina hér á landi sem byggja á auðlindanýtingu, án þess að viðunandi stefnumörkun um auðlindanýtingu, afnotagjöld og atvinnuuppbyggingu hafi farið fram af hálfu hins opinbera, með neikvæðum afleiðingum fyrir umhverfi og samfélag. Atvinnustefnu á að tengja stefnu um orku- og auðlindanýtingu með forgangsröðun í þágu atvinnustarfsemi sem skapar fjölbreytt, vel launuð og góð störf sem samfélagsleg sátt ríkir um. 

Menntakerfi á heimsmælikvarða

Stjórnvöld þurfa að setja fram metnaðarfull markmið um árangur í menntakerfinu og skýra aðgerðaáætlun sem stuðlar að því að íslenskir nemendur séu í fremstu röð. Ríkið þarf að greina kerfisbundið mannafla- og færniþörf fyrir verðmætaskapandi atvinnugreinar og félagslega innviði. .Að óbreyttu er hætta á að vaxandi misræmi m.t.t. til menntunar og færni á vinnumarkaði verði ein stærsta hindrunin í framkvæmd stefnunnar.  Menntakerfið þarf að taka meira mið að breyttri íbúasamsetningu landsins, auðvelda fólki frá öðrum ríkjum að fá menntun sína metna og stórefla íslenskukennslu þeirr sem hingað flytja þannig að þekking og færni innflytjenda nýtist betur í atvinnulífinu. Þá þarf að gera launafólki auðveldara að sækja sér  sí- og endurmenntun sem tekur mið af færniþörf vinnumarkaðarins.

 

Öflugir grunninnviðir sem styðja við atvinnusköpun um allt land

Aðgengi almennings og fyrirtækja að grænni raforku, öflugum fjarskiptum, rafrænum innviðum og greiðum samgöngum skiptir höfuðmáli í atvinnuuppbyggingu. Uppbygging þessara innviða samræmist þróun nútíma atvinnuhátta, sköpun starfa sem standa undir góðum lífskjörum og er grundvallarforsenda öflugs atvinnulífs og velferðar íbúa um land allt.

Húsnæðisöryggi og greiðar samgöngur eru grundvallaratriði þegar kemur að lífskjörum launafólks og uppbyggingu atvinnulífs. Samhliða mikilli fólksfjölgun undangenginna ára hefur ekki verið hugað nægilega að þessum þáttum og óstöðugleiki á húsnæðismarkaði og dýrar samgöngur hafa því leitt til vaxandi ójöfnuðar. Stórauka þarf framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði og setja öflugar almenningssamgöngur í forgang til að styðja við markmið atvinnustefnunnar.

 

Félagslegir innviðir

Samhliða mótun og framkvæmd atvinnustefnu þarf að byggja upp og styrkja félagslega innviði. Tryggja þarf aðgengi allra íbúa landsins að opinberri heilbrigðis- og félagsþjónustu og öflugu menntakerfi óháð efnahag. Mikil samkeppni er um vinnandi fólk um allan heim og aðgengi að húsnæði, leikskólum, heilbrigðisþjónustu og stuðningur við fjölskyldur auka aðdráttarafl íslensks vinnumarkaðar og skipta máli þegar fólk velur sér starfsvettvang og búsetu.

Viðvarandi mannekla í heilbrigðis- og félagsþjónustu hefur dregið úr gæðum þjónustunnar og haft neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega kvenna. Uppbygging þessarar þjónustu verður að vera liður í atvinnustefnunni svo að markmið hennar náist.

 

Samráð

ASÍ og BSRB þakka fyrir að hafa fengið aðkomu að mótun atvinnustefnu á fyrstu stigum vinnunnar. Við væntum þess að haft verði áframhaldandi náið samráð við samtök launafólks um mótun stefnunnar og framkvæmd hennar.

 

Virðingarfyllst,

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ  og  Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB