Umsögn ASÍ og BSRB um drög að atvinnustefnu Íslands, vaxtarplan til 2035

Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa tekið til umsagnar drög að atvinnustefnu Íslands.
Samtökin skiluðu sameiginlegri umsögn á fyrri stigum um áformin1. Öll þau sjónarmið sem
komu fram í umsögn um áformaskjalið eiga við um fyrirliggjandi drög að stefnu og eru hér
ítrekuð af hálfu sambandsins. Jafnframt áskilja ASÍ og BSRB sér rétt til að skila inn sjónarmiðum
á síðari stigum málsins þegar stefnan er sett í samráð ásamt aðgerðaráætlun.
Alþýðusambandið og BSRB taka í meginatriðum undir markmið og framtíðarsýn stefnunnar um
aukna verðmætasköpun knúna áfram af fjölbreyttum útflutningi, aukinni framleiðni og
samkeppnishæfni. Sú áhersla á byggðasjónarmið sem birtist í stefnunni með auknum
atvinnutækifærum og byggðaþróun um land allt er jákvæð.
Alþýðusambandið og BSRB telja ástæðu til að ítreka þau sjónarmið sem birtust í umsögn um
áformaskjalið að hagvöxtur einn og sér er ekki trygging fyrir bættum hag almennings.
Grunnforsenda þess að framleiðnivöxtur og ábati aukinnar samkeppnishæfni leiði til bættra
lífskjara almennings er skipulagður og heilbrigður vinnumarkaður. Það tryggir að ábata
verðmætasköpuninnar er deilt í gegnum frjálsa kjarasamninga, með sterkri verkalýðshreyfingu
og almennri stéttarfélagsaðild, sem stutt er með traustu regluverki og stofnunum sem standa
vörð um réttindi launafólk. Samtökin lýsa vonbrigðum með að áherslur um jöfnuð og
sanngjarnan vinnumarkað séu ekki ávarpaðar í stefnunni og telja að jöfnuður þurfi að vera einn
af mælikvörðum á afrakstur stefnunnar.


ASÍ og BSRB telja einnig vonbrigði að ekki sé að finna neinar áherslur sem snúa að félagslegum
innviðum samfélagsins. Uppbygging nýsköpunarverkefna og stórra atvinnuþróunarverkefna
kallar á fjölbreytt og sérhæft starfsfólk en einnig starfsfólk í afleiddum störfum í mikilvægri
þjónustu í nærsamfélaginu. Mikilvægt er að benda á að ekki sé nóg að huga að
samkeppnishæfni atvinnulífs heldur þurfi einnig að huga að samkeppnishæfum
búsetuskilyrðum hér á landi. Sé ætlunin að Ísland haldi í og laði að sér vinnuafl í störf um land
allt verður að huga að lífskjörum, búsetuskilyrðum og samfélagsþjónustu um land allt. Þar
skiptir höfuðmáli að tryggja húsnæði á viðráðanlegu verði, góðar samgöngur og aðgengi að
nauðsynlegri þjónustu um land allt eins og dagvistun og heilbrigðisþjónustu.

 

Almennar og sértækar stefnuáherslur

Styrkjum innviði:

Aðgengi almennings og fyrirtækja að grænni raforku, öflugum fjarskiptum, rafrænum innviðum
og greiðum samgöngum skiptir höfuðmáli í atvinnuuppbyggingu. Uppbygging þessara
innviða þarf að samræmast þróun nútíma atvinnuhátta, sköpun starfa sem standa undir góðum
lífskjörum og er grundvallarforsenda öflugs atvinnulífs og velferðar íbúa um land allt. Ljóst er
að Ísland stendur frammi fyrir mikilli innviða- og viðhaldsskuld sem metin hefur verið á 680
milljarða, þar af 200 milljarða í samgönguinnviðum.


Stjórnvöld hafa þegar boðað að skoðaðar verði nýjar leiðir við fjármögnun innviðafjárfestinga.
Það er full ástæða að skoða með hvaða hætti hægt sé að hraða nauðsynlegri opinberri
fjárfestingu. Hafa þarf í huga að PPP verkefni eru í eðli sínu ekki frábrugðin hefðbundinni
fjárfestingu hins opinbera. Slík verkefni hafa hins vegar orðið eftirsóknarverð á tímum þrengri
fjármálareglna, þar sem ríki hafa getað haldið skuldbindingu utan efnahagsreikninga. Í
grunninn er þó um fjárfestingu hins opinbera að ræða þar sem ríkið ber á endanum ábyrgð á
greiðslum og áhættu. Hvernig greiðslum er háttað og áhættu er skipt má útfæra með ólíkum
hætti.


Ákvörðun um hvort einkaframkvæmd verði fyrir valinu verður að grundvallast á því hvort
samstarf opinberra og einkaaðila skili ábata umfram hefðbundna opinbera fjárfestingu.
Áskorun stjórnvalda felst því í að búa til ramma um innviðafjárfestingar sem tryggir
hámarksábata. Sá ábati er ekki sjálfgefinn og felst m.a. í því hvort einkaaðilar geti náð fram
skilvirkni sem vegur upp hærri kostnað við fjármögnun og hvort viðunandi samkeppni sé milli
framkvæmdaaðila þannig að hagkvæmni náist. Að mati ASÍ og BSRB er frumforsenda þess að
ráðist sé í einkaframkvæmd á opinberum innviðum að eignarhald á fjárfestingunni færist alltaf
yfir til hins opinbera eftir skilgreindan tíma, að hið opinbera hafi forræði yfir nýtingu innviða, að
ráðist sé í arðbær verkefni, forgangsröðun verkefna taki mið af ábatagreiningum og skýrt sé að
samstarf við einkaaðila skili ábata umfram hefðbundna opinbera fjárfestingu.


Eflum vísindi og nýsköpun:

Öflugt rannsóknarstarf, nýsköpun og þróun er nauðsynlegt til að styðja við
atvinnuuppbyggingu í verðmætaskapandi greinum. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við
grunnrannsóknir sem skapa grundvöll fyrir frekari nýsköpun, tækniþróun og rannsóknir. Ekki
er minnst á grunnrannsóknir í drögunum. Þá styður hið opinbera við nýsköpun á fyrri stigum,
m.a. í gegnum samkeppnissjóði og Nýsköpunarsjóðinn Kríu og einnig á síðari stigum gegnum
skattendurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Stuðningur stjórnvalda við
nýsköpun á að miða að því að styðja við vaxtarsprota á fyrri stigum þegar aðgengi þeirra að
fjármagni er takmarkað. Liggja þurfa fyrir skýr markmið stjórnvalda, um árangur almennra
skattstyrkja og endurgreiðslna vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, sem styðja við
atvinnustefnu stjórnvalda. Regluverk og eftirlit um slíkar endurgreiðslur þar um þarf að vera
gagnsætt og skilvirkt. Í því samhengi hafa stjórnvöld einungis að litlu leyti brugðist við
athugasemdum OECD um regluverk og eftirlit með endurgreiðslum R&Þ kostnaðar.

 

Tryggjum færni til framtíðar:

Það er mat ASÍ og BSRB að stjórnvöld eigi að setja fram metnaðarfull markmið um árangur í
menntakerfinu og skýra aðgerðaáætlun sem stuðli að því að íslenskir nemendur séu í fremstu
röð og nái marktækum árangri í alþjóðlegum samanburði. Þar þurfi að horfa til lengri tíma og
ráðast í umbótastarf á öllum skólastigum. ASÍ og BSRB taka undir markmið þess að fjölga
nemendum í STEM greinum og starfs-, iðn- og tækninámi enda ljóst að þrátt fyrir fyrirheit þess
efnis hefur fjármagn ekki verið tryggt til að fjölga nemendum á þeim sviðum.

Alþýðusambandið hefur um árabil bent á mikilvægi samspils menntakerfisins við þarfir
atvinnulífs. Í skýrslu sérfræðingahóps um færniþörf á vinnumarkaði frá árinu 20183 var bent á
að Ísland væri eftirbátur annarra Evrópuríkja þegar kemur að því að leggja mat á færni- og
menntunarþörf á vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma. Í skýrslunni er einnig bent á að
misræmi m.t.t. færni og menntunar hafi aukist á íslenskum vinnumarkaði og að slíkt misræmi
feli í sér efnahagslegan kostnað, t.d. minni framleiðni og kostnað við ónýtta færniþróun, en
misræmið dregur einnig úr starfsánægju, hefur neikvæð áhrif á tekjur, atvinnuþátttöku og
atvinnustig. ASÍ hvetur til þess að stjórnvöld horfi til tillagna sérfræðingahópsins og taki upp
spáferli um færniþróun á vinnumarkaði hér á landi til að styðja við markmið stefnunnar.

ASÍ og BSRB telja skorta alla umfjöllum um sí- og endurmenntun í drögum að atvinnustefnu. Þó
vissulega megi taki undir markmið um fjölgun nemenda í STEM greinum og starfs-, iðn- og
tækninámi er vert að benda á að á vinnumarkaði eru starfandi yfir 200 þúsund einstaklingar
eldri en 20 ára, þar af um 55 þúsund með erlendan bakgrunn. Í því samhengi er verulega
óheppilegt að litlar upplýsingar eru til um stöðu þess hóps þar sem Ísland hefur ekki verið
þátttakandi í PIAAC rannsókn OECD sem mælir færni fullorðinna á vinnumarkaði. Flest
Evrópuríki leggja í auknum mæli áherslu á færni þeirra sem fyrir eru á vinnumarkaði með það
að markmiði að stuðla að aukinni framleiðni og verðmætasköpun. Nýlegar niðurstöður OECD
staðfesta að sterk tengsl eru milli framleiðni og færni fullorðinna á vinnumarkaði4. Í skýrslunni
kemur fram að aðgerðir til að auka færni fullorðinna eigi að vera í miklum forgangi. OECD hefur
einnig sérstaklega bent á það í mörgum úttektum sínum að Íslendingar þurfi að ráðast í
aðgerðir til að bregðast við misræmi á vinnumarkaði5 og stuðla að aðgerðum til að þróa og
nýta færni innflytjenda.

Alþýðusambandið og BSRB telja brýnt að færni fullorðinna á vinnumarkaði sé tekin fyrir í
stefnunni og fylgt eftir í aðgerðaráætlun. Slíkar aðgerðir eru ekki einungis mikilvægar til að
bæta framleiðni og verðmætasköpun heldur einnig til að gera atvinnulífi og vinnumarkaði kleift
að bregðast við kvikum breytingum sem stafa m.a. af áföllum í þjóðarbúskap, tæknibreytingum
og áskorunum í umhverfismálum og stuðla að réttlátum umskiptum.

Samtökin leggja til að horft verði til eftirfarandi aðgerða:

  • Ísland verði þátttakandi í PIAAC rannsókn OECD á færni fullorðinna.
  • Kerfisbundið verði lagt mat á færniþörf á íslenskum vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma.
  • Ráðist verði í heildarendurskoðun á fullorðinsfræðslu og kerfi símenntunar hér á landi.
  • Efla þurfi Vinnumálastofnun þannig að hún geti sinnt því hlutverki sem henni er falið í
    lögum um vinnumarkaðsaðgerðir sem m.a. miðar að því að tryggja einstaklingum
    viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði og stuðla að jafnvægi
    milli framboðs og eftirspurnar vinnuafls í landinu. Felur það í sér að Vinnumálastofnun
    þurfi að fjölga úrræðum sem efla færni atvinnuleitenda (e. upskilling og reskilling) og
    atvinnuleysisbótakerfið að styðja við það markmið.
  • Námslánakerfið verði endurskoðað þannig að það styðji með fullnægjandi hætti við
    þær breytingar sem við blasa á vinnumarkaði og geri launafólki kleift að mæta breyttum
    kröfum og aðstæðum á vinnumarkaði með því að sækja sér aukna þekkingu á færni á
    starfsævinni án þess að afkomu þess sé ógnað.

 

Einföldum regluverk:

Taka má undir mikilvægi stöðugs, fyrirsjáanlegs og samkeppnishæfs rekstrarumhverfis. Í því
samhengi geta tækifæri leynst í því að fjarlægja óþarfa hindranir, gera ferli skilvirkari og efla
rafræna innviði. Hins vegar er óljóst hvað átt er við með aðgerðinni og er það mat ASÍ og BSRB
að einföldun regluverks eigi í sjálfu sér ekki að vera markmið, enda er margþætt regluverk til
staðar til að vernda almenning, launafólk og tryggja jafnræði. ASÍ og BSRB leggja áherslu á að
einföldun megi ekki vera á kostnað þessara sjónarmiða.


Aukum aðgengi að erlendum mörkuðum:

Fyrir lítið opið hagkerfi háð utanríkisviðskiptum skiptir aðgengi að erlendum mörkuðum
veigamiklu máli. ASÍ og BSRB telja brýnt að tryggja réttindi og aðbúnað verkafólks í þeim
löndum sem fríverslunarsamningar eru gerðir við og að slá hvergi af í þeim kröfum. Gæta
verður þess að við gerð fríverslunarsamninga sé ekki einungis litið til viðskiptalegra hagsmuna
atvinnulífsins, heldur einnig til réttinda launafólks í viðkomandi ríkjum svo viðskipti séu á
heilbrigðum forsendum.


ASÍ og BSRB leggja áherslu á að fríverslunarsamningar tryggi vernd grundvallarréttinda
launafólks og byggist á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Félagafrelsi og
verndun þess, rétturinn til að stofna félög og semja sameiginlega, bann og afnám
nauðungarvinnu, bann við barnavinnu og vernd barna ásamt banni við mismunun eru hluti
samþykkta ILO. Í fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að verður að tryggja að ekki sé
slegið af kröfum um að samþykktum ILO sé fylgt og þær innleiddar. Samkeppnisforskot
viðskiptalanda Íslands getur ekki byggt á félagslegu undirboði með eftirgjöf á
grundvallarréttindum launafólks.
Samtökin telja jafnframt að ekki megi rýra réttindi eða þynna lagaumhverfi launafólks til að ná
viðskiptalegu forskoti. Samningsaðilar verða að viðhalda og efla réttindi verkafólks og tryggja
að sanngjörn samkeppni byggist á virðingu fyrir réttindunum.

 

Sértækar stefnuáherslur

Alþýðusambandið og BSRB leggja áherslu á að sterkir innviðir, öflugur mannauður og
samkeppnishæfni skapi grundvöll fyrir verðmætasköpun og góð lífskjör fyrir allan almenning.
Samtökin telja ekki rétt að leggja áherslu á uppbyggingu einnar atvinnugreinar umfram aðra
en taka undir markmið atvinnustefnunnar um fjölbreytt og góð störf um land allt. ASÍ og BSRB
taka einnig undir mikilvægi þess að fjölga stoðum útflutnings til að draga úr áhættu
þjóðarbúsins og áhrifum af ófyrirséðum áföllum. Í þessu samhengi er mikilvægt að nýta þau
tækifæri sem eru til staðar í hugverkagreinum, skapandi greinum, matvælaiðnaði og
heilsutengdum greinum.


Í sértækum stefnuáherslum er vikið að mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi
framleiðniaukningu í ferðaþjónustu. ASÍ og BSRB taka undir áhersluna og telja mikilvægt að
framleiðniaukning og gæði starfa verði sett í forgang umfram áherslu á fjölgun ferðamanna.
Störf í ferðaþjónustu eru líklegri til að vera hlutastörf, tímabundin, árstíðarbundin og þau mál
sem rata á borð stéttarfélaga benda skýrt til þess að félagsleg undirboð og brotastarfsemi á
vinnumarkaði finnist í meiri mæli innan ferðaþjónustu en í öðrum atvinnugreinum. Þar er erlent
launafólk og ungt fólk líklegra til að verða fyrir launaþjófnaði en aðrir. Brotin geta falist í því að
einstaklingar fái ekki greitt eftir kjarasamningum hvort sem varðar álagsgreiðslur, orlofs- eða
veikindarétt. Hvað þetta varðar er mikilvægt að aðgerðir til að auka gæði starfa í ferðaþjónustu,
líkt og í öðrum greinum, miði að því að ráðast gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði og draga
úr árstíðarsveiflum ásamt því að stuðla að dreifingu ferðamanna um land allt.
Í sértækum stefnuáherslum er mikil áhersla lögð á vaxtatækifæri í orkusæknum iðnaði, bæði
með áherslu á alþjóðlega samkeppnishæfni málmframleiðenda og uppbyggingu í
gagnaverðsiðnaði og öðrum iðngörðum. Til skemmri tíma er ekki sjálfgefið að markmiðin séu
samræmanleg þar sem framboð orku er tregbreytanlegt á meðan eftirspurn getur vaxið hratt,
sérstaklega ef hröð uppbygging í gagnaversiðnaði raungerist. Niðurstöður nýrrar raforkuspár
benda til þess að tvísýnt verði hvort framboð mæti eftirspurn til 2030. Orka er
grunnframleiðsluþáttur og mikilvægt er að aðgerðir stjórnvalda stuðli að stöðugu og
samkeppnishæfu orkuverði. Gæta þarf að því að uppbygging haldist í hendur við aukið
framboð raforku og leiði ekki til hraðrar hækkunar raforkuverðs með neikvæðum áhrifum á
raforkuverð heimila og samkeppnishæfni þeirra atvinnugreina sem fyrir eru.

 

Virðingarfyllst,
Finnbjörn A. Hermannsson, Forseti ASÍ

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Formaður BSRB