Umsögn BSRB um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu), 678. mál.

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp vegna mótvægisaðgerða vegna verðbólgu. BSRB fagnar frumvarpinu en veitir stutta umsögn því stuttur tími gefst til umsagnar vegna þeirrar flýtimeðverðar sem málið hefur fengið á Alþingi til að tryggja tímanlega gildistöku ákvæða þess.

BSRB telur nauðsynlegt að mæta lífeyrisþegum, leigjendum, barnafjölskyldum og atvinnuleitendum vegna hækkandi verðbólgu en gerir í einhverjum tilfellum athugasemdir við útfærslu.

Sérstakur barnabótaauki

Þann 1. júlí 2022 á að greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 20.000 kr. til þeirra sem áttu rétt á tekjutengdum barnabótum á álagningarárinu 2022. BSRB telur aðgerðina mikilvæga en leggur til að í stað eingreiðslu verði barnabótaaukinn greiddur út mánaðarlega út árið.

Hækkun lífeyris almannatrygginga

Frumvarpið leggur til að mánaðrlegar greiðslur almannatrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega verði hækkað um 3 prósent frá og með 1. júní 2022. BSRB telur mikilvægt að lífeyrir sé verðbættur með þessum hætti en minnir á almannatryggingar hafa dregist saman sem hlutfall af lágmarklaunum á síðustu árum og þessi verðlagsuppfærsla dugir ekki til leiðrétta þá kjararýrnun sem þessir hópar hafa orðið fyrir á síðustu árum.

Hækkun húsnæðisbóta

Leigjendur undir ákveðnum tekjumörkum eiga rétt á húsnæðisbótum. Þær bætur hafa ekki hækkað síðan árið 2018. Með frumvarpinu er lagt til að grunnbæturnar hækki um 10 prósent og með 1. júní og munu þær þá verða 35.706 kr. í stað 32.460. Hins vegar hefur vísitala leiguverðs hækkað um 20 prósent frá ársbyrjun 2018 og vísitala neysluverðs sömuleiðis. Því hefði þurfta að hækka grunnbæturnar mun meira til að mæta betur leigjendum eða í tæplega 39.000 krónur.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að frítekjumörk m.v. árstekjur hækki um 3 prósent frá og með 1. janúar 2022. Það er jákvæð breyting en skerðing vegna tekna verður áfram 11 prósent í stað 9 prósent áður. Skerðingarhlutfallið var hækkað árið 2020 til að draga úr útgjöldum úr kerfinu og krefst BSRB að það verði lækkað aftur.

Atvinnuleitendur skildir eftir

BSRB krefst þess að atvinnuleysistryggingar verði verðbættar sem nemur 3 prósent hækkun. Það er óafsakanlegt að skilja þann hóp eftir sem er í hópi þeirra sem eru með lægstu mánaðarlegu tekjurnar hér á landi. Einnig er vert að benda á að ekki er verið að leiðrétta þá kjararýrnun sem orðið hefur á greiðslunum undanfarin ári.

Samantekt

BSRB styður frumvarpið en leggur til að barnabótaauki verður greiddur út mánaðarlega á árinu 2022, að húsnæðisbætur verði hækkaðar um 20 prósent í stað 10 prósent og tekjuskerðingarhlutfall við útreikning bótanna verði lækkað úr 11 prósent í 9 prósent. Þá verður að verðbæta atvinnuleysistryggingarnar enda er annað hróplegt óréttlæti.

BSRB leggur áherslu á að félagslegur stöðugleiki sé hafður að leiðarljósi við efnahagsstjórn. Efnahagsleg misskipting fer vaxandi á Íslandi, sérstaklega þegar litið er til eigna. Samþjöppun auðs og valds er skaðleg fyrir samfélagið og veldur félagslegri stéttskiptingu og dregur úr félagslegri samheldni. Við þessu verður að bregðast með skattkerfisbreytingum sem gera ríkissjóði kleift að auka framlög til almannaþjónstu og efla tekjutilfærslukerfin.

 

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?