Umsögn BSRB um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.), 468. mál.

BSRB hefur fengið ofangreint frumvarp til umsagnar en mun í umsögn sinni koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi 1. gr. frumvarpsins er varðar álagningu gistináttaskatts af hverjum dvalargesti í hverri gistináttaeiningu.

Samkvæmt lögum um gistináttaskatt nr. 87/2011 skal greiða 300 kr. í gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu en álagningu hefur verið frestað undanfarin ár vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og kemur nú aftur til framkvæmda. Í frumvarpinu er hins vegar sú breyting að skatturinn er ekki lengur bundinn við hverja einingu gistingar heldur hvern dvalargest, rétt eins og framkvæmdin hefur verið í flestum löndum Evrópu. Þá hefur verið brugðist við mikilli aðsókn skemmtiferðaskipta hingað til lands og gestum þeirra einnig gert að greiða gistináttaskatt, rétt eins og aðrir. Samkvæmt frumvarpinu eru börn undanþegin skattskyldu.

BSRB fagnar breytingunni og telur hana tímabæra. BSRB telur fjárhæð skattsins hóflega og í því sambandi þarf jafnframt að horfa til þess að á undanförnum tveimur árum hefur ferðaþjónustan aftur náð fyrri styrk eftir heimsfaraldurinn. Það ætti ekki að koma á óvart að stjórnvöld endurvekji gistináttaskatt og höfðu stjórnvöld lýst því yfir að á meðan honum væri frestað yrði skattheimtan endurskoðuð og jafnræði tryggt milli aðila á markaði.

BSRB styður efni frumvarpsins þegar kemur að gistináttaskatti, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Að mati bandalagsins ætti gistináttaskattur þó að hluta eða öllu leyti að renna til sveitarfélaga, en sveitarfélög þurfa að halda við og byggja upp sterka innviði á ferðamannastöðum. Slík breyting væri jafnframt í samræmi við það sem fram kemur í stjórnarsáttmála núverandi ríksstjórnar.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?