Umsögn BSRB um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar
Að svo stöddu veitir BSRB umsögn um þrjár greinar frumvarpisins, 4., 12. og 22. grein. Þar að auki styður BSRB þær greinar frumvarpsins sem varða aukið eftirlit með þeim aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum við Sjúkratryggingastofnun eða sem leiða „af athöfnum heilbrigðisstarfsmanna sem eru ekki, beint eða óbeint, í samningssambandi við stofnunina“ (24. grein frumvarpsins).
Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar sem samnings- og eftirlistsaðila, frá því í júní 2025, kemur skýrt fram að stofnunin hafi ekki orðið sá sterki samningsaðili sem henni var ætlað og að umtalsvert vanti upp á þarfa- og kostnaðargreiningu í aðdraganda samningsgerðar. Þá er bent á að eftirliti sé verulega ábótavant og hafi á tímabilum vart verið til staðar. Þetta er áfellisdómur yfir stofnun sem ráðstafar árlega um 60 milljörðum af ríkisfé. Mikilvægt er að frumvarp þetta styrki heimildir stofnunarinnar en jafnframt þarf að huga að því að hún búi yfir nauðsynlegri þekkingu til að eflast í gerð samninga og eftirliti.
Stjórn Sjúkratryggingastofnunar
Í 4. grein er lagt til að stjórn Sjúkratryggingarstofnunar verði lögð niður. Er sú breyting rökstudd með því að hagræðingarhópur forsætisráðherra leggi þetta til að höfðu samráði við almenning. Meðal hlutverka stjórnarinnar er að marka stofnunninni langtímastefnu og hafa eftirlit með starfseminni. Formanni stjórnarinnar er einnig ætlað að gera ráðherra reglulega „grein fyrir starfsemi hennar og gera honum viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga ...“ (6. grein laganna). BSRB geldur varhug við því að leggja niður stjórn stofnunarinnar enda má ljóst vera að hún gegni lykilhlutverki í því að tryggja að stofnunin fari í það umbótaferli sem nauðsynlegt er. Standi vilji heilbrigðisráðherra til þess að leggja stjórnina niður þarf frekari rökstuðning fyrir því og hvernig eigi að tryggja að stofnunina geri þær breytingar sem nauðsynlegar eru svo hún geti uppfyllt lagaskyldu sína. Verði stjórnin lögð af sparast árlega 7 m.kr. í stofnun sem veltir 60 mö.kr. árlega og er einmitt í brýnni þörf fyrir styrka stjórn.
Gjaldtaka
Í 12. grein eru lagðar til breytingar á 29. grein laganna um gjaldtöku. BSRB gerir athugasem við h. lið og g. lið sem af honum leiðir. Breytingarnar myndu fela í sér heimild til að ákveða að tiltekinn kostnaður eða hluti kostnaðar falli utan afsláttarstofns greiðsluþátttökunnar. Samkvæmt greinagerð virðist sérstaklega verið að vísa til sjúkraþjálfunar og sálfræðiþjónustu en ákvæði laganna sem breytingarnar varða fjalla einnig um þjónustu iðjuþjálfa, talmeinafræðinga og gagnreyndar samtalsmeðferðir. Í greinagerð segir að þetta sé gert til þess að ná markvissari stjórn á aðgengi að þjónustu og sporna gegn ofnotkun.
BSRB er algerlega andsnúið þessari breytingu. Það er eðlilegt að stjórnvöld vilji stjórna því hvaða þjónusta er veitt, hvar og fyrir hverja. Hins vegar liggur ekki fyrir rökstuðningur á því hvort um „ofnotkun“ sé að ræða og engin greining gerð á því hvaða áhrif þessi breyting kunni að hafa fyrir sjúklinga. Fram kemur að áætlaður sparnaður sé um 400-500 mkr. svo ljóst má vera að stór hópur fólks mun verða fyrir verulegri þjónustuskerðingu eða kostnaðaraukningu nái þetta fram að ganga.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að heilsugæslan spari 1 ma.kr. með aukinni gjaldtöku. Eftir því sem best verður sé hækka sértekjur vegna gjaldttöku um 70% við þá breytingu. Ekki er að sjá að fjallað sé um þá gjaldtöku í drögum að frumvarpinu. Hins vegar er ekki fjallað um aukna gjaldtöku vegna sjúkraþjálfunar í texta fjárlagafrumvarpsins þó sjá megi tæplega 500 mkr. lækkun í yfirliti yfir fjárheimildir. Þessi umfangsmikla kostnaðarþátttaka sjúklinga er órökstudd bæði í fjárlagafrumvarpinu og þeim frumvarpsdrögum sem hér eru til umsagnar.
Samningar um heilbrigðisþjónustu ekki fyrir hendi
Í 22. grein frumvarpsins er lögð til breyting á 38. grein laganna sem felur það í sér að þjónustuveitendum sem þiggja greiðslur samkvæmt gjaldskrá Sjúkratryggingastofnunar sé óheimlt að „að krefja sjúkratryggðan um frekara gjald en leiðir af gjaldskrá og greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu“. BSRB styður þessa breytingu og telur löngu tímabært að verja sjúklinga fyrir viðbótarkostnaði sem hlýst af lausum samningum heilbrigðisstarfsfólks við Sjúkratryggingar. Sjúklingar hafa búið við slíkt ástand árum saman og nauðsynlegt er að löggjafinn verji þá gegn slíkum kostnaði.
BSRB er ekki með fleiri athugasemdir að sinni en mun, ef þurfa þykir, veita ítarlegri umsögn verði frumvarpið lagt fram á Alþingi.
Fyrir hönd BSRB
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur