Umsögn BSRB um frumvarp til fjáraukalaga 2020

Umsögn BSRB um frumvarp til fjáraukalaga 2020, 337. mál

Reykjavík, 3. desember 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, þeirra fimmtu á yfirstandandi ári. Í heildina er ráðgert að útgjöld ríkisins muni aukast um tæpa 169 ma.kr. á árinu 2020, þar af um rúmlega 65 ma.kr. með þessu frumvarpi. Tekjur munu lækka um rúmlega 116 ma.kr. Heildarjöfnuður ríkissjóðs verður því neikvæður um rúmlega 260 ma.kr. en í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir 10 milljarða halla.

08 Sveitarfélög og byggðamál

Með frumvarpinu er verið að lækka framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um rúmlega 2 ma.kr. vegna lækkunar tekna ríkissjóðs. Á móti leggur ríkissjóður sveitarfélögunum til einskiptisframlag sem nemur rúmlega 2,1 ma.kr. „sem miðar að því að veita sveitarfélögunum fjárhagslega viðspyrnu og til að verja lögbundna grunnþjónustu“ (s. 68). BSRB bendir á að framlagið er ekki viðbót heldur kemur í stað tekjufalls. Það er því ekki verið að bæta sveitarfélögum upp þann kosntaðarauka og tekjufall sem þau verða fyrir vegna áhrifa heimsfaraladursins. BSRB krefst þess að sveitarfélög fái framlög frá ríkinu nemur þeim áhrifum. Að öðrum kosti mun koma til uppsagna og aukins álags starfsfólks sveitarfélaga og skerðing verða á mikilvægri þjónustu þeirra.

23.1 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta

BSRB hefur miklar áhyggjur af stöðu Landspítala. Bandalagið hefur ítrekað bent á að sjúkrahúsinu sé of þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að fjárveitingum. Með frumvarpinu er verið að veita sjúkrahúsinu aukin framlög vegna kostnaðar sem hlotist hefur af heimsfaraldrinu. Sjúkrahúsið hefur leikið lykilhlutverk í baráttu þjóðarinnar við faraldurinn. Hins vegar er ekki verið að bæta Landspítala upp þann halla sem skapast hefur vegna fjársveltis síðast liðin ár. Hallinn nemur nú 3,8 mö.kr. Fráleitt er að ætlast til að sjúkrahúsið skeri niður í rekstri sínum til að mæta ófullnægjandi fjárheimildum til að sinna mikilvægum verkefnum sínum. Formannaráðsfundur BSRB ályktaði um stöðu sjúkrahússins þann 26. nóvember sl. og þar segir:

Formannaráð BSRB mótmælir harðlega aðhaldskröfu í rekstri heilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri kórónuveirunnar og kjölfar hans. Veita þarf fjármagni í heilbrigðiskerfið í samræmi við þörf og bæta Landspítalanum upp áralangt fjársvelti. Ráðið bendir á að með lækkun tryggingargjalds á næsta ári verður ríkið af um fjórum milljörðum króna, sem er sambærileg fjárhæð og sá halli sem Landspítalinn glímir nú við.

Útgjöld til heilbrigðismála voru hlutfallslega lægri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum áður en faraldurinn skall á. Undirfjármögnun heilbrigðiskerfisins er því gamalkunnur vandi sem þarf að vinda ofan af. Heimsfaraldurinn hefur aukið skilning á mikilvægi grunnstoða samfélagsins og augljóst að fjárfesting í heilbrigðisþjónustu og öðrum grunninnviðum er gríðarlega mikilvæg fyrir allt samfélagið.

Það er löngu tímabært að bæta starfsumhverfi starfsfólks almannaþjónustunnar, sem unnið hefur þrekvirki í því að koma okkur í gegnum faraldurinn. Í stað þess að leita leiða til að létta álagi af starfsfólki í framlínu baráttunnar gegn faraldrinum er nú kallað eftir aðhaldi í rekstri og niðurskurði. Verði ekki horfið frá þessari stefnu geta afleiðingarnar fyrir heilsu starfsfólksins verið alvarlegar.

Formannaráðið kallar eftir því að starfsfólk í framlínu fái álagsgreiðslur í samræmi við þá áhættu sem það hefur tekið og þau þrekvirki sem það hefur unnið í baráttu við veiruna. Þá þarf að tryggja framlínufólki allan þann stuðning sem nauðsynlegur er til að takast á við líkamlegt og andlegt álag vegna þeirra starfa í baráttunni gegn heimsfaraldrinum.

30.1 Vinnumál og atvinnuleysi

Með frumvarpinu er verið að leggja til að útgjöld ríkissjóðs aukist um rúmlega 65 ma.kr. Af þeim er ráðgert að 23,3 ma.kr., eða um 35% af útgjöldunum, fari í tekjufallsstyrki til að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Þá er gert ráð fyrir að sú fjárhæð kunni að hækka um 8 ma.kr. á næsta ári enda er umsóknarfrestur um til maí 2021 þó úrræðið miði við tímabilið 1. apríl - 31. október 2020. Fyrir Alþingi liggur einnig frumvarp um viðspyrnustyrki fyrir tímabilið og er talið að útgjöld vegna þeirra muni nema um 20 mö.kr. á árinu 2021. Því er útlit fyrir að um 50 ma.kr. af útgjöldum ríkissjóðs á árunum 2020-2021 verði varið í slíka styrki til rekstaraðila.

Mikilvægt er að tryggja að þau fyrirtæki sem þiggja tekjufalls- og viðspyrnustyrki þurfi að sýna fram á að ráðningarsambandi við starfsfólk hafi verið og verði viðhaldið. Þá áréttar BSRB þá skoðun sína að til að gæta sanngirnis og tryggja að fjármunum sem teknir eru úr sameiginlegum sjóðum sé varið til að verja sameiginlega hagsmuni verður að telja eðlilegt að umræddir styrkir séu háðir því skilyrði að ljóst sé að fyrirtæki hafi ekki fært eignir sínar í skattaskjól, hafi nýlega eða muni greiða sér út arð á meðan aðstoðarinnar nýtur og sömuleiðis muni ekki kaupa eigin bréf yfir sama tímabil. Sama gildi um launasetningu, bónusgreiðslur og starfslokasamninga til stjórnenda fyrirtækjanna.

BSRB telur tímabært að fram fari greining á því hverjir séu að nýta sér stuðningsúrræði stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins ásamt greiningu á því hvort að markmiðum úrræðanna hafi verið náð.

BSRB gerir ekki frekari athugasemdir við frumvarpið.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?