Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga 2024, 1. mál

BSRB vill með umsögn um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 fyrst og fremst mótmæla þeim niðurskurði á opinberri þjónustu sem þar er boðaður. Aðgerðirnar eru vanhugsaðar og til þess fallnar að veikja opinbera þjónustu með tilviljanakenndum hætti. Hér birtist stefna ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að draga úr umfangi ríkisins í hagkerfinu en í greinagerð með frumvarpinu segir að áfram verði „lögð áhersla á hóflegan vöxt útgjalda sem felur í sér að vöxtur útgjalda verði hægari en vöxtur VLF þannig að frumgjöld sem hlutfall af VLF fari lækkandi“[1].

BSRB vill með umsögn um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 fyrst og fremst mótmæla þeim niðurskurði á opinberri þjónustu sem þar er boðaður. Aðgerðirnar eru vanhugsaðar og til þess fallnar að veikja opinbera þjónustu með tilviljanakenndum hætti. Hér birtist stefna ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að draga úr umfangi ríkisins í hagkerfinu en í greinagerð með frumvarpinu segir að áfram verði „lögð áhersla á hóflegan vöxt útgjalda sem felur í sér að vöxtur útgjalda verði hægari en vöxtur VLF þannig að frumgjöld sem hlutfall af VLF fari lækkandi“[1].

Skattalækkanir fyrri ára valda áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs

Þrátt fyrir það efnahagsáfall sem heimsfaraldurinn leiddi af sér og efnahagsleg áhrif innrásar Rússa í Úkraínu stendur ríkissjóður vel. Bent er á það í frumvarpinu að batinn hafi verið einstaklega skjótur á sögulegan mælikvarða, ekki síst vegna efnahagsaðgerða stjórnvalda á meðan á faraldrinum stóð. Skuldir sem hlutfall af VLF jukust mun minna en útlit var fyrir í fyrstu og strax árið 2022 varð frumjöfnuður ríkissjóðs jákvæður. Jákvæður heildarjöfnuður hefur þó enn ekki náðst sem veldur áframhaldandi skuldasöfnun. Skuldabyrðin er þó hófleg eða um 32% af VLF samkvæmt skilgreiningu skuldareglu opinberra fjármála en verðbólga og vaxtahækkanir auka mjög fjármagnskostnað ríkisins. Til að lækka þennan kostnað er í frumvarpinu lögð mikil áhersla á að draga úr skuldasöfnun. Markmiðið með þeirri skuldalækkun er samkvæmt frumvarpinu að skapa svigrúm til frekari skattalækkana og á það að nást með áframhaldandi aðhaldsaðgerðum og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

BSRB mótmælir þessari stefnu um að færa Ísland fjær norrænu velferðarríki samtryggingar til samfélags þar sem fólk borgar lægri skatta en nýtur minni stuðnings samfélagsins, lakari almannaþjónustu og veikari tilfærslukerfa.

BSRB vill minna á að í greinagerð með fjármálaáætlun fyrir árin 2023 – 2027 var bent á að áframhaldandi skuldasöfnun hins opinbera mætti fyrst og fremst rekja til kerfislægs halla á rekstri ríkissjóðs[2]. Þann kerfislæga halla má rekja til fjölmargra skattalækkana frá árinu 2018 sem ekki voru fjármagnaðar með tekjuöflun á móti. Það hefur valdið því að mikilvæg heilbrigðis- og velferðarþjónusta hefur sætt viðvarandi aðhaldi og niðurskurði. Samanlögð áhrif skattalækkana og -hækkana frá 2018 námu rúmlega 54 milljarða tekjutapi á árinu 2022[3]. Þetta er tekjutap án áhrifa skattalækkana vegna heimsfaraldursins. Það gefur því auga leið að halli ríkissjóðs upp á rúma 46 ma.kr. sem áætlaður er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 væri vart til staðar ef skattlækkanir fyrri ára hefðu verið fjármagnaðar.

 

Niðurskurður í stað tekjuöflunar

BSRB mótmælir því harðlega að kostnaður vegna heimsfaraldursins og skattlækkana fyrri ára verði lagður á herðar launafólks hjá ríkinu með fækkun starfa og frekara álagi í almannaþjónustunni.

Frá því fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 var samþykkt á Alþingi hafa afkomuhorfur ríkissjóðs batnað. Þrátt fyrir þetta eru gerðar breytingar á útfærslu afkomubætandi ráðstafana sem miða að því að auka enn frekar niðurskurð útgjalda en sleppa aðgerðum til að auka tekjurnar. Alls nemur niðurskurðurinn um 8 milljörðum króna í frestun framkvæmda og um 9,6 milljörðum króna í rekstrarútgjöldum sem á fyrst og fremst á að nást með uppsögnum og starfsmannaveltu. Fremur lítið er gert úr áhrifum þessa niðurskurðar og látið í veðri vaka að verið sé að verja framlínuþjónustuna. Það er þó ekki alveg rétt því almennt verða fjárveitingar til launa lækkaðar um 2,5% en um 0,25% til heilbrigðis- og öldrunarstofnana, háskóla, löggæslu og fangelsa. Það á því að auka enn frekar vinnuálag á starfsfólk sem sinnir heilbrigðis- og umönnunarþjónustu þrátt fyrir að undirmönnun og mönnunarvandi sé viðvarandi vandamál á mörgum þessara stofnana.

 

Ríkisfjármálin verða að taka mið af lýðfræðilegum breytingum

Lýðfræðilegar breytingar kalla á vandaða áætlanagerð og fjármagnaðar aðgerðir. Margoft hefur verið bent á að fjölgun aldraðra kalli á aukna heilbrigðis- og umönnunarþjónustu. Af frumvarpinu er ekki að sjá að verið sé að bregðast við þeim uppsafnaða vanda sem til staðar er. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir lífsgæði þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda sem og atvinnuþátttöku aðstandenda, oftast kvenna.

BSRB fagnar því að veita eigi auknum fjárheimildum til stofnframlaga sem nemur 1.000 almennum íbúðum árlega á árunum 2024 og 2025. Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut næstu árin og a.m.k. út gildistíma húsnæðissáttmálans sem ríki og sveitarfélög undirrituðu sumarið 2022. Þar er kveðið á um uppbyggingu 35.000 íbúða á næstu 10 árum, þar af 30% þeirra með stuðningi hins opinbera og 5% sem félagslegt húsnæði sveitarfélaganna. Aðeins eitt sveitarfélag, Reykjavík, hefur undirritað samning um uppbyggingu á grundvelli sáttmálans. BSRB leggur ríka áherslu á að sveitarfélögin komi að þessari uppbyggingu og geri um það samning við ríkið og að tryggt verði að þeir aðilar sem byggja og leigja út húsnæði á viðráðanlegu verði fái þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg er til að hægt sé að tryggja húsnæðisöryggi fólks í lægri tekjuhópum og þeirra sem eru með þunga framfærslubyrði. Þá þarf að endurskoða áform um uppbyggingu húsnæðis í ljósi þeirrar gríðarlegu fólksfjölgunar sem vöxtur ferðaþjónustunnar leiðir af sér. Á árunum 2019 til 2022 fluttu hingað u.þ.b. 20.000 erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta en það jafngildir nærri heilum viðbótar árgangi inn á húsnæðismarkaðinn árlega.

 

BSRB vill líka vekja athygli á því að það hefur dregið hratt úr fæðingartíðni á síðustu árum. Fólksfjölgun á Íslandi má því fyrst og fremst rekja til aðflutnings fólks en ekki fæðinga. Til lengri tíma getur þetta valdið verulegum vandræðum vegna skekkju í aldursdreifingu þjóðarinnar. Minnkandi fæðingartíðni kallar á stefnumótun um bætt kjör og aðstæður barnafjölskyldna. BSRB ítrekar því fyrri kröfu sína um hækkun hámarksfjárhæðar fæðingarorlofs og óskertar tekjur lágtekjuforeldra í fæðingarorlofi, tryggan aðgang að leikskólaplássum frá því að fæðingarorlofi lýkur og óskertar barnabætur til foreldra að meðaltekjum. Þær breytingar sem gerðar voru á barnabótakerfinu árið 2022 voru til bóta en BSRB lítur svo á að þar hafi einungis verið um fyrsta skrefið að ræða. Að óbreyttu rýrnar verðgildi barnabóta á milli ára. Tryggja verður að barnabætur haldi verðgildi sýnu og draga verður úr tekjuskerðingum. Allar þessar aðgerðir munu einnig stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði en í dag taka konur mun lengra fæðingarorlof en karlar og skortur á dagvistun barna bitnar á atvinnuþátttöku kvenna og lækkar þar með ævitekjur þeirra.

 

Niðurskurður útgjalda ríkissjóðs bitnar á konum

Í jafnréttismati frumvarpsins kemur fram að lækkun launakostnaðar ríkisins mun bitna á konum fremur en körlum enda eru þær um tveir þriðju hlutar starfsfólks ríkisins. Konur eru einnig í meiri hluta þeirra starfa sem mun fækka vegna stafvæðingar. Í frumvarpinu segir orðrétt: „Heilt á litið mun sérstakt aðhald á launalið bitna í meiri mæli á konum en körlum og því talið auka kynjamisrétti eða kynjabil.“[4] Auk þeirra neikvæðu áhrifa sem hér eru upp talin þá mun niðurskurður innan stofnana auka á vinnuálag þeirra sem þar starfa og skerðing á þjónustunni flytjast inn á heimilin þar sem henni er að miklu leyti sinnt af konum án endurgjalds. Það er óásættanlegt að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp sem eykur á kynjamisrétti. BSRB krefst þess að horfið verði frá niðurskurðaráformum frumvarpsins og í stað niðurskurðar verði aflað tekna til að fjármagna þær skattlækkanir sem lögfestar hafa verið á undanförnum árum.

 

Áherslur BSRB

  • Fallið verði frá þeim aðhaldsaðgerðum sem boðaðar eru í frumvarpinu og lagðar fram áætlanir um hvernig styrkja eigi rekstrargrunn mikilvægrar opinberrar þjónustu til frambúðar.
  • Kerfislægum halla á ríkissjóði verði eytt með auðlindagjöldum eða aukinni skattheimtu á þær atvinnugreinar sem nýta auðlindir þjóðarinnar, sköttum á eignamestu heimilin og hækkun fjármagnstekjuskatts á þau sem eru með hæstu fjármagnstekjurnar.
  • Allt kapp verði lagt á uppbyggingu a.m.k. 1.000 almennra íbúða árlega næstu 10 árin í samstarfi við sveitarfélögin og að húsnæðisstuðningur við leigjendur verði aukinn til að auka húsnæðisöryggi á leigumarkaði.
  • Barnabætur haldi verðgildi sínu milli ára og dregið verði úr tekjuskerðingum þannig að foreldrar undir meðaltekjum fái óskertar barnabætur.
  • BSRB krefst þess að aðgerðir stjórnvalda stuðli að jafnrétti kynjanna en auki ekki á kynjamisrétti.

 

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?