Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020, 1. mál

Reykjavík, 4.oktbóber 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020. Helstu áherslur frumvarpsins varða lækkun tekjuskatts á einstaklinga sem mæta á með auknu aðhaldi og niðurskurði í útgjöldum ríkisins auk kaupmáttarrýrnunar launa ríkisstarfsmanna.

Launaforsendur

Í frumvarpinu virðist lagt upp með kaupmáttarrýrnun launa ríkisstarfsmanna miðað við gefnar launa- og verðlagsforsendur. Gert er ráð fyrir að launahækkanir ársins 2020 verði um 3% að meðaltali en að verðlag hækki um 3.2%. Sá fyrirvari er þó settur að enn sé ósamið við stéttarfélög ríkisstarfsmanna. Af þessu tilefni er rétt að vekja athygli á að aðildarfélög BSRB semja fyrir stóra hópa tekjulágra starfsmanna ríkis og sveitarfélaga og ekki verður fallist á minni hækkanir til okkar fólks en launafólks í sambærilegum tekjuhópum á almenna vinnumarkaðnum. Í yfirstandandi kjaraviðræðum BSRB við ríki og sveitarfélögin er jafnframt lögð þung áhersla á að gripið verði til aðgerða til að draga úr vinnuslysum, veikindum, streitu, kulnun og brotfalli af vinnumarkaði með styttingu vinnuvikunnar og úrbótum á starfsumhverfi.

Ófjármagnaðar skattalækkanir á tekjur einstaklinga

BSRB fagnar því að verið sé að fjölga þrepum í tekjuskattskerfi einstaklinga og lækka tekjuskatt hlutfallslega meira á þá tekjulægri. Það veldur hins vegar vonbrigðum hversu seint lækkunin á að koma til framkvæmda að fullu. Þá mun lækkunin ekki eingöngu taka til þeirra tekjulægstu heldur einnig til þeirra sem hafa hærri tekjur. BSRB telur að nýta eigi það svigrúm sem stjórnvöld hafa til skattalækkana til þess að lækka álögur á tekjulægri hópa samfélagsins. Árlegur kostnaður af breytingunum mun nema um 21 ma kr. þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2021 en um 5,5 ma kr. á næsta ári.

Mikilvægt er að efla jöfnunar- og tekjuöflunarvirkni kerfisins með viðbótarskattþrepi á ofurlaun og aukinni skattlagningu á stóreignafólk. Í þessu sambandi er rétt að minna á að auðlegðarskatturinn var um 11 ma kr. á verðlagi ársins 2014, árið sem hann var síðast innheimtur. Slíkar áherslur er hins vegar ekki að sjá í frumvarpinu og það vekur þungar áhyggjur að á sama tíma og áform eru uppi um að lækka tekjur af tekjuskatti einstaklinga um 10% er ekki verið að afnema samsköttun hjóna og sambýlisfólks í tekjuskattskerfinu eins og boðað var s.l. vor. Enn fremur er verið að lækka bankaskatt og tryggingagjald og til skoðunar eru breytingar á fjármagnstekjuskatti og erfðafjárskatti til lækkunar. Þessi stefna mun óhjákvæmilega draga úr getu heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfisins til að veita þjónustu, auka álag á starfsfólk og leiða til uppsagna. Verði þessi áform að veruleika er ríkisstjórnin að vinna markvisst að veikingu mikilvægra skattstofna ríkisins á kostnað opinberrar almannaþjónustu. BSRB mótmælir þessum áherslum harðlega.

Bandalagið vill árétta að brýnt er að heimild til samsköttunar milli hjóna og sambúðarfólks verði felld niður. Í tillögu til fjármálaáætlunar 2019-2023 er fjallað um fræðilegar úttektir sem mæla með því að horfið verði frá samnýtingu persónuafsláttar og skattþrepa til að koma í veg fyrir bjagaða hvata, s.s. núverandi hvata til minni atvinnuþátttöku tekjulægri maka í samsköttun. Í tillögu að fjármálaáætlun 2020-2024 er að finna sambærilega umfjöllun þar sem segir um samnýtingu skattþrepa að „auk þess að skapa ákveðið flækjustig vegna mismunar milli staðgreiðslu og álagningar veldur úrræðið í núverandi mynd umtalsverðum neikvæðum hvataáhrifum á vinnuframlag tekjulægri makans, sem er í níu af hverjum tíu tilvikum kona.“

Heilbrigðismál

Áætlaður halli á rekstri Landspítala á yfirstandandi fjárlagaári verður að óbreyttu um 4,5 ma kr. samkvæmt nýlegum fréttum. Þegar hefur verið gripið til ráðstafana til að draga úr hallanum en forstjóri spítalans hefur bent á að hluta vandans megi rekja til þess að sjúkrahúsið hafi ekki að fullu fengið fjárveitingar til að mæta kjarasamningsbundnum hækkunum starfsfólks. Samkvæmt frumvarpinu stendur ekki til að mæta þessum vanda heldur mun þurfa að að mæta rekstrarvandanum með niðurskurði verði það samþykkt óbreytt. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu munu viðbótarframlög ekki ná að mæta reiknuðum raunvexti í sérhæfðri þjónustu sjúkrahúsa.

Almenn sjúkrahúsþjónusta á heilbrigðisstofnunum landsins á einnig að sæta niðurskurði. Með frumvarpinu er vegið að sjúkrahúsþjónustu við landsmenn og álag á útkeyrt starfsfólk aukið enn frekar. BSRB lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu hins opinbera heilbrigðiskerfis.

BSRB fagnar því að áfram verði unnið að því að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Fjárveiting til heilsugæslunnar eykst um rúmlega 1,2 ma kr. vegna áætlaðs raunvaxtar í þjónustuþröf, heilsueflandi heimsókna, geðheilbrigðisáætlunar, aukinnar þjónustuþarfar á einstaka heilbrigðisstofnunum og leiðréttingu á útgjaldaheimildum. Um 300 mkr. af heildarfjárhæðinni á að verja til lækkunar á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu. Ekki kemur fram hvernig nýta á þessa fjármuni en BSRB leggur áherslu á að stærri skref verði stigin til að draga úr kostnaði sjúklinga vegna heilbriðisþjónustu og lyfja.

Aukin fjárframlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu eru vegna uppbyggingar nýrra hjúkrunarrýma og mönnunar þeirra sem er mjög jákvætt en þau rými sem þegar eru í rekstri sæta niðurskurði sem vekur þungar áhyggjur af skerðingu á þjónustu við sjúka aldraða og auknu álagi á starfsfólk.

Ljóst er að einn stærsti vandi heilbrigðiskerfisins er skortur á starfsfólki í mörgum heilbrigðisstéttum vegna atgervisflótta og að þeir sem starfinu sinna treysta sér ekki til að vera í fullu starfi vegna þess hve þung störfin eru. Ítrekað hefur komið fram að bregðast þurfi við þeim vanda með því að laða að starfsfólk og taka til endurskoðunar stjórnun, vinnutíma, aðbúnað og laun. Ekki er brugðist við þessum vanda í frumvarpinu og verður ekki annað séð en að launaforsendur þess og niðurskurður til sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila muni auka enn frekar á mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu.

Húsnæðismál

BSRB fagnar því að stofnframlög ríkisins til almennra íbúða verði þau sömu og á yfirstandandi ári til samræmis við loforð ríksstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum markaði. Það er mikilvægt að uppbygging á vönduðu og hagkvæmu leiguhúsnæði haldi áfram með markvissum hætti til að tryggja húsnæðisöryggi tekjulægri fjölskyldna. Hins vegar er þróunin á framlögun til vaxtabóta og húsnæðisbóta áhyggjuefni.

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020, 1. mál

Eins og sjá má á myndinni Vaxtabætur 2014-2020 hafa útgjöld til vaxtabóta dregist gríðarlega saman sl. ár og í raun og veru er smám saman verið að leggja niður vaxtabótakerfið með því að draga úr virkni þess hratt og markvisst. Á yfirstandandi ári voru fjárheimildir til vaxtabóta 3.400 mkr. en samkv. fjárlagafrumvarpinu gera áætlanir ráð fyrir um 500 mkr. afgangi. Þrátt fyrir þetta er áfram gert ráð fyrir 3.400 mkr. fjárheimild til vaxtabóta á árinu 2020. Næsta víst er að afgangur verði mun hærri af þessum fjárlagalið árið 2020 en á yfirstandandi ári enda stendur ekki til að hækka bæturnar eða breyta eignaskerðingar- og tekjumörkum.

Samkvæmt frumvarpinu eiga framlög til húsnæðisbóta að hækka um 50 mkr. og verði 6.218 mkr. Samkvæmt áætlun verða útgjöldin um 300 mkr. hærri á yfirstandandi ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2019 eða 6.468 mkr. Hækkunin á fjárheimild milli ára nægir því engan veginn til að mæta núverandi fjárþörf. Hins vegar liggur ekki fyrir með hvaða hætti bæturnar verða hækkaðar vegna næsta árs en samkvæmt lögum um húsnæðisbætur eiga grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og fjárhæðir frítekjumarka að „koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæðum [...] skal ráðherra breyta þeim með reglugerð“. Grunnfjárhæðir bótanna hafa ekki verið hækkaðar síðan í desember 2017 og hafa því rýrnað að raungildi en frítekjumörkin voru síðast hækkuð í janúar 2019. BSRB leggur áherslu á að grunnfjárhæðir húsnæðisbótanna fyrir árið 2020 verði hækkaðar sem og frítekjumörkin.

BSRB mótmælir því harðlega að markvisst sé verið að veikja vaxtabótakerfið. Þess í stað felst stuðningur ríkisins í skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar sem leiðir til þess að fólk sem er að afla sér húsnæðis gengur á sparnað sem ætlaður er til framfærslu á efri árum. Vaxtabætur eru skattafsláttur sem nýtist þeim best sem eru með lægri tekjur en bæturnar skerðast með hærri tekjum og eignum. Skattaafsláttur á séreignasparnaði snýr hins vegar að stuðningnum við þá tekjuhærri sem fá meiri stuðning en tekjulægri sem síður geta nýtt sér skattaafsláttinn. BSRB leggur áherslu á að stuðningnum sé beint þar sem mest er þörf á honum og að fjárhæðir vaxtabóta, eignamörk og tekjumörk verði hækkuð sem og grunnfjárhæðir og frítekjumörk húsnæðisbóta.

Barnabætur

Í frumvarpinu er lagt til að lægri skerðingarmörk vegna tekna verði hækkuð úr 300.000 kr. á mánuði í 325.000 kr. hjá einstæðum foreldrum og úr 600.000 í 650.000 kr. hjá pörum. Ekki er lögð til hækkun á hámarksfjárhæðum bótanna, né efri skerðingarmörkum og ekki dregið úr bröttum tekjutengingum. BSRB leggur áherslu á mikilvægi þess að barnabætur eigi að vera almennur stuðningur við fjölskyldur líkt og á öðrum Norðurlöndum. Í greinagerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 kemur fram að fjárveitingar til barnabóta hækki um 1 ma kr. árið 2020 samkvæmt loforði ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði. Þar kemur einnig fram að 500 m kr. afgangur sé af fjárveitingum til barnabóta á fjárlagaárinu 2019. Eins og sjá má á myndinni Barnabætur 2014-2020 hafa áætluð útgjöld til barnabóta ekki skilað sér að fullu sl. 6 ár, að árinu 2018 undanskildu. Sum árin hafa barnafjölskyldur orðið af allt að 1,3 mö kr. Mikilvægt er að gengið verði úr skugga um skerðingarmörk og tekjumörk bótanna séu þannig að fjárheimildir fjárlaga skili sér til barnafjölskyldna.

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020, 1. mál

BSRB hvetur til þess að barnabætur verði hækkaðar þannig að bæturnar haldi raungildi sínu og að efri skerðingarmörkin verði hækkuð til samræmis við þau lægri en að öðrum kosti fækkar þeim sem eiga rétt á bótunum.

Fæðingarorlof og umönnunarbilið

BSRB fagnar því að lengja eigi fæðingarorlof úr 9 mánuðum í 10 á næsta ári og áformum um 12 mánaða fæðingarorlof frá og með árinu 2021. Starfshópur þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála skilaði niðurstöðum í mars 2016 og lagði þá til að hámarksgreiðslur yrðu 600.000 kr. á mánuði. Mikilvægt er að þessi fjárhæð haldi í við launaþróun og því leggur BSRB til að hún hækki í 730.000 kr. á mánuð til samræmis við launaþróun á tímabilinu. Starfshópurinn lagði einnig til að greiðslur í fæðingarorlofi yrðu óskertar fyrir lægstu laun. BSRB leggur til að launafólki með lægstu tekjurnar verði gert mögulegt að fara í fæðingarorlof án skerðingar tekna og að tillaga starfshópsins verði því lögfest fyrir fjárlagaárið 2020.

Umönnunarbilið, tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði, hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði eru það að meginstefnu til mæður sem axla ábyrgð á umönnun barna sinna á þessu tímabili og má áætla að þær séu að meðaltali fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna en feður miðað við núverandi kerfi. Lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði þar sem hvort foreldri um sig á rétt á 5 mánaða fæðingarorlofi en sameiginlega 2 mánuðum, mun minnka muninn en miðað við reynsluna af skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra má ætla að þróunin yrði engu að síður sú að mæður væru tvöfalt til þrefalt lengur frá vinnumarkaði en feður. Vegna þessa er mikilvægt að stuðla að jafnari skiptingu foreldra á fæðingarorlofi þannig að hvort um sig fái 6 mánaða rétt. Enn fremur má benda á að kjarabilið milli kynjanna eykst á þessu aldursskeiði, þ.e. þegar barneignir hefjast. Með öðrum orðum þá hefur þessi lengri fjarvera kvenna frá vinnumarkaði langtíma áhrif á launamun kynjanna og starfsframamöguleika.

Ljóst er að verulegur kostnaður fylgir því að tryggja öllum börnum dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi. Þetta er samfélagslegt vandamál og leggur BSRB því áherslu á að ríkið styðji við sveitarfélögin þegar kemur að því að tryggja öllum börnum aðgengi að leikskóla að loknu fæðingarorlofi.

Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og atvinnuleysistryggingar

Myndin Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og atvinnuleysistryggingar sýnir 3,5% hækkun þessara greiðslna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020, 1. mál

Hækkanirnar á myndinni miðast allar við fullan bótarétt. Eins og glöggt má sjá eru krónutöluhækkanir lífeyrisþega og fólks í atvinnuleit langtum lægri en þær 17.000 kr. á mánuði sem sem samið var um frá 1. apríl 2019 á almennum markaði og 18.000 kr. frá 1. apríl 2020. BSRB mótmælir því að þessi hópar sæti lægri hækkunum en aðrir.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir viðbótarútgjöldum sem nema 1,1 ma kr. vegna kerfisbreytinga í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja. Örorkulífeyrisþegar hafa beðið lengi eftir sambærilegri kerfisbreytingu og gerð var á ellilífeyrishluta almannatrygginga og tók gildi 1. janúar 2017. Þessi fjárhæð dugir með engu móti til slíkrar kerfisbreytingar og hvetur BSRB til þess að vinnu verði hraðað enda búa hlutfallslega margir örorkulífeyrisþegar við fátækt. Of lág hækkun bótafjárhæða í fjárlagafrumvarpinu og dráttur á vinnu við kerfisbreytingu eykur enn á hlutfallslega lakari stöðu örorkulífeyrisþega miðað við aðra hópa samfélagsins.

Löggæsla

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að niðurskurður í löggæslu verði rúmlega 400 mkr. Ekki kemur skýrt fram í frumvarpinu hvernig niðurskurði verður háttað innan málaflokksins. Bent skal á að hvert stöðugildi lögreglu kostar um 14,7 mkr. á ársgrundvelli m.v. laun, búnað og annað. Boðaður niðurskurður nemur því sem svarar 27 stöðugildum lögreglumanna. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 og fjárlagafrumvarpinu er fjallað nokkuð ítarlega um aukið álag á löggæslu í landinu vegna fólksfjölgunar, glæpastarfsemi, aukinnar áherslu á rannsókn kynferðisbrota og fjölgunar ferðamanna. Einnig hefur verið lögð fram löggæsluáætlun fyrir árin 2019-2023 þar sem eitt af markmiðunum er að fjölga lögreglumönnum. Boðaður niðurskurður til málaflokksins brýtur í berhögg við bæði fyrirliggjandi þörf og sett markmið. Niðurskurðurinn mun að öllum líkindum leiða til fækkunar lögreglumanna og aukins álags á starfsfólk. BSRB mótmælir þessum niðurskurðaráformum harðlega.

Framhaldsfræðsla

Síðustu misseri hafa samtök launafólks, atvinnurekenda og stjórnvöld fjallað um fjórðu iðnbyltinguna og áhrif hennar á vinnumarkað og eðli starfa. Þá er aldurssamsetning þjóðarinnar að breytast, fólki af erlendum uppruna að fjölga og loftslagsbreytingar kalla á samfélagslegar breytingar og aðlögun. Í því sambandi hefur mikið verið rætt um sí- og endurmenntun enda skiptir sköpum að menntun og þjálfun starfsfólks sé í samræmi við þörf samfélagsins og tryggi fólki áframhaldandi atvinnumöguleika á vinnumarkaði og góð lífskjör. Líklegt er að breytingar sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni muni koma hart niður á þeim sem eru með stystu skólagönguna sem er einmitt markhópur framhaldsfræðslunnar. Undir málaflokkinn falla m.a. símenntunarmiðstöðvar fyrir fólk á vinnumarkaði, símenntun fullorðins fólks með fötlun og íslenskukennsla fyrir útlendinga. Það skýtur því skökku við að framlög til framhaldsfræðslu lækki um 150 mkr. í fjárlagafrumavarpinu. BSRB hvetur til þess að framlög í málaflokkinn verði aukin og mörkuð skýr stefna um sí- og endurmenntun fyrir starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði, með aðkomu samtaka launafólks enda mun það skila sér í aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum.

Að lokum

Eitt helsta baráttumál BSRB er réttlátt samfélag sem byggir á jöfnuði. Ein af forsendunum fyrir stöðugleika á vinnumarkaði er styrk stjórn í landsmálunum þar sem áherslan er á félagslegan stöðugleika ekki síður en hinn efnahagslega, enda verður annað ekki til án hins. Þannig ætti stefna stjórnvalda að endurspegla mikilvægi uppbyggingar velferðarþjónustunnar í stað þess að draga úr getu hennar til að veita þjónustu.

BSRB lýsir yfir vonbrigðum með að forsendur frumvarpsins byggi á kaupmáttarrýrnun launa ríkisstarfsmanna og niðurskurði til mikilvægra málaflokka sem mun valda meira álagi á starfsfólk sem starfar nú þegar undir of miklu álagi og grafa undan þjónustunni. Atgervisflótti og veikindi starfsmanna í almannaþjónustu vegna skipulags og aðbúnaðar á vinnustað er kostnaðarsamur og tímabært að stjórnvöld grípi til aðgerða. Skilaboðin sem fjárlagafrumvarpið sendir inn í yfirstandandi kjaraviðræður eru ekki til þess fallin að vekja von um að ríkið sem atvinnurekandi hafi skilning á brýnni nauðsyn bættra kjara, starfsumhverfis, heilsu og öryggi starfsmanna sinna eða þeim afleiðingum sem slík þróun hefur fyrir þá mikilvægu þjónustu sem ríkið veitir.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?