Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (bætt réttarstaða leigjenda við lok leigusamnings), 795. mál.

Reykjavík, 30. apríl 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, en frumvarpið felur í sér bætta réttarstöðu þeirra aðila sem leigja íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum samhliða ráðningarsambandi.

Núverandi orðalag er með þeim hætti að sé leigjandi starfsmaður leigusala og hefur fengið íbúðarhúsnæði til leigu vegna starfs síns þá fellur leigusamningur aðila niður án sérstakrar uppsagnar láti leigjandi af störfum að eigin ósk, honum er löglega vikið úr starfi vegna brota í því eða vegna þess að fyrir fram umsömdum ráðningartíma er lokið.

Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér munu verða til þess að slíkir leigusamningar falli ekki sjálfkrafa úr gildi við tilteknar aðstæður, heldur þurfi hefðbundinn uppsagnarfrestur samkvæmt 56. gr. laganna að koma til. Er því um að ræða töluverða réttarbót fyrir þá sem leigja húsnæði af vinnuveitanda sínum samhliða ráðningarsambandi.

Með vísan til framangreinds styður BSRB framgang frumvarpsins og leggur áherslu á að það verði afgreitt fyrir þinglok.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?