Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um heilbrigðisþjónustu (hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris o.fl.), 269. mál
Með umsagnarbeiðni dags. 21. nóvember sl. var óskað eftir umsögn BSRB um ofangreint stjórnarfrumvarp sem lagt er fram af félags- og húsnæðismálaráðherra. Meginefni þess er að hækka almennt frítekjumark ellilífeyris í áföngum næstu þrjú árin og að aldursviðbót örorkulífeyrisþega falli ekki niður þegar viðkomandi nær ellilífeyrisaldri. Með frumvarpinu er þannig leitast við að bæta stöðu einstaklinga sem metnir voru ungir til örorku og eiga engin eða lítil atvinnutengd réttindi til ellilífeyris úr lífeyrissjóðum.
BSRB styður við tilgang frumvarpsins og að stjórnvöld leiti leiða til þess að hækka greiðslur almannatrygginga til tekjulægri ellilífeyrisþega, en bandalagið telur ekki rétt að slíkt sé gert með svo almennri aðgerð. Að mati bandalagsins þarf að kortleggja stöðu þeirra sem eiga takmörkuð réttindi og ná utan um þann hóp með sértækum aðgerðum frekar en að fara af stað í almenna aðgerð. Sú aðgerð að hækka frítekjumarkið nær til allra ellilífeyrisþega og þá einnig til þeirra sem hafa aðrar tekjur og þeirra sem þurfa ekki á slíkum stuðningi að halda.
BSRB telur því að almenn hækkun frítekjumarks sé ekki rétt leið til þess að ná fram markmiðum frumvarpsins og telur að stjórnvöld þurfi að leggjast í betri greiningar og afla tölfræði-upplýsinga svo hægt verði að meta hver besta leiðin til þess væri.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur