Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál með síðari breytingum (stefnumótun á sviði húsnæðismála, hlutverk Íbúðalánasjóðs)

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum (stefnumótun á sviði húsnæðismála, hlutverk Íbúðalánasjóðs), þingskjal 675 – 469. mál.

Reykjavík, 4. maí 2018

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998, með síðari breytingum (stefnumótun á sviði húsnæðismála, hlutverk Íbúðalánasjóðs).

BSRB styður eindregið markmið og framgang þessa máls. Eitt af meginstefnumálum bandalagsins er að allir hafi öruggt húsaskjól, hvort sem um er að ræða leiguhúsnæði eða eign. Það er einn af hornsteinum almennrar velferðar og því verður að bregðast við brýnni stöðu á húsnæðismarkaði sem allra fyrst til að tryggja öllum húsnæði á viðunandi kjörum til framtíðar.

Liður í því að tryggja stöðugleika á húsnæðismarkaði og að leiguhúsnæði sé raunverulegur valkostur er að gerð sé langtímastefnumótun líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Til að svo megi verða verður að tryggja að sá aðili sem framkvæmir húsnæðisstefnu stjórnvalda hafi heimild til að safna gögnum sem þarf til að greina markaðinn.

Þá tekur bandalagið undir umsögn ASÍ varðandi úthlutun almennra íbúða. Að teknu tilliti til stöðu á húsnæðismarkaði verður að leggja sérstaka áherslu á tekjulága leigjendur á vinnumarkaði og að 65% stofnframlags sem úthluta skal fari til uppbyggingar á húsnæði fyrir þann hóp.

Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?