Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (staða og valdheimildir ríkissáttasemjara), 13. mál
Með umsagnarbeiðni dags. 23. október sl. var óskað eftir umsögn BSRB um framangreint þingmál sem er til meðferðar hjá Alþingi og velferðarnefnd þingsins. Samhljóða frumvarp hefur áður verið lagt fram og skilaði BSRB þá umsögn um málið, var mótfallið efni þess og tók heilshugar undir þau atriði sem komu fram í umsögn Alþýðusambands Íslands.
Með frumvarpinu eru lagðar til grundvallarbreytingar á störfum embættis ríkissáttasemjara og þannig reynt að draga úr afli verkalýðshreyfingarinnar, og á sama tíma reynt að útiloka áratugalanga hefð á vinnumarkaði sem gengið hefur áfallalaust fyrir sig að undanskildu einu atviki í janúar 2023. Þannig virðist efni frumvarpsins ákveðið viðbragð við þeim mistökum sem áttu sér stað hjá fyrrum ríkissáttasemjara, og nú lagðar til breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur í þeim tilgangi að veita embætti ríkissáttasemjara það vald sem fyrrum ríkis-sáttsemjari taldi sig hafa á þeim tíma.
Lög um stéttarfélög og vinnudeilur gilda almennt um hinn almenna vinnumarkaðar og hafa þjónað tilgangi sínum í tæp 90 ár. Lögin gilda þó um ýmis almenn atriði sem ná einnig til hins opinberra vinnumarkaðar, og þar á meðal eru lagaákvæði um stöðu og störf embættis ríkissáttasemjara.
Þær leikreglur sem gilda á vinnumarkaði og þá sér í lagi þegar kemur að samskiptum milli stéttarfélaga og félaga atvinnurekenda eru margar flóknar, en ein sú sjálfsagðasta og auðskiljanlegasta er reglan um samningsfrelsið. Sú regla er í raun grundvallarregla í samskiptum fólks almennt, en hefur aukið vægi þegar kemur að kjaradeilum. Þar eiga stéttarfélögin sitt samningsfrelsi og gera kjarasamninga fyrir hönd síns félagsfólks, og raunar allra sem starfa undir viðkomandi kjarasamningi. Þegar kjaradeila hefur gengið um lengri tíma án þess að samningsaðilar nái saman um einstök atriði fer deilan almennt á borð ríkissáttasemjara sem gegnir mikilvægu hlutverki.
Samkvæmt 27. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er ríkissáttasemjara heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Ríkisáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu. Þó það sé algengara að ríkissáttasemjari hafi á undanförnum árum lagt fram svonefnda ,,innanhústillögu“ fremur en formlega miðlunartillögu, þá hefur verið gert og var til dæmis raunin í mars 2023 þegar lögð var fram miðlunartillaga af settum ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Sú miðlunartillaga var lögð fram í samræmi við lögin og venjur á vinnumarkaði, og var hún samþykkt. Þegar ríkissáttsemjari leggur fram miðlunartillögu felur það hins vegar í sér inngrip í samningsrétt stéttarfélaga og er sá réttur hans því takmörkunum háður.
Markmið frumvarpsins sem hér um ræðir að auka á valdheimildir ríkissáttasemjara virðist eiga að vera því gjaldi keypt að skerða þau grundvallarréttindi sem launafólk hefur búið við samkvæmt lögum. Með frumvarpinu er ekki eingöngu lagt til að ríkissáttasemjari geti lagt fram miðlunartillögu og, þar með ígildi kjarasamnings, í atkvæðagreiðslu án samtals við fulltrúa stéttarfélaga, heldur einnig að hann geti einhliða ákveðið að fresta löglega boðaðri vinnustöðvun í allt að 14 sólarhringa. Þá felur framlagning miðlunartillögu samkvæmt frumvarpinu einnig í sér að útiloka verkfallsrétt stéttarfélags, og þannig annað hvort stöðva verkfall sem er yfirstandandi eða koma í veg fyrir að boðað verkfall geti hafist.
Með yfirferð á greinargerð frumvarpsins er augljóst hvert tilefni og markmið frumvarpsins er. Hér er verið að leggja til grundvallarskerðingu á réttindum launafólks og vegið með beinum hætti að verkfalls- og samningsrétti stéttarfélaga. Þessi grundvallarréttindi eru bæði varin með lögum og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands en einnig með 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Með vísan til framangreinds leggst BSRB eindregið gegn efni frumvarpsins.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur