Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018 (aflaverðmæti í reiknistofni), 351. mál

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp sem fjallar um breytingar á skráðu aflaverð-mæti fyrir tiltekna nytjastofna við útreikning reiknistofns veiðigjalds samkvæmt lögum um veiðigjald. Markmið frumvarpsins er að tryggja að reiknað aflaverðmæti tiltekinna nytjastofna endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti og þar með réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að sjávarauðlindinni sem sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar. Einnig er frumvarpinu ætlað að mæta betur tilgangi innheimtu veiðigjalda sem er samkvæmt 1. gr. laganna að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.

Ísland er ríkt af auðlindum. BSRB hefur lengi krafist þess að auðlindir verði í almannaeigu og að þjóðin fái réttmæta hlutdeild í arðinum sem nýting þeirra skapar. Auðlindagjöld fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir eiga að taka mið af þeirri rentu sem til verður við nýtingu þeirra.

Á 47. þingi BSRB sem haldið var í október á síðasta ári var samþykkt ályktun um efnahagsmál þar sem segir m.a.:

,,Tryggja þarf eignarrétt almennings á auðlindum með því að hækka auðlindagjöld þeirra fyrirtækja sem hagnýta þær þannig að þau endurspegli ávinning af notkuninni og með sérstakri skattlagningu á endursölu á notkunarheimildum.“

Með vísan til framangreinds fagnar bandalagið efni frumvarpsins, enda markmið þess og tilgangur í takt við áherslur bandalagsins.

 

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur