Umsögn BSRB um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi (fyrirkomulag greiðslna) – 286. mál
BSRB hefur tekið til umsagnar ofangreint frumvarp sem snýr að breytingum á fyrirkomulagi greiðslna í fæðingarorlofi og sorgarleyfi. BSRB telur breytingarnar mikilvægar og til þess fallnar að auka jafnræði og fyrirsjáanleika meðal þeirra foreldra sem eiga rétt til greiðslna samkvæmt lögunum.
Áhrif greiðsluþaks á fæðingarorlofstöku
Fæðingarorlofskerfinu í núverandi mynd var komið á árið 2000 og þá var feðrum í fyrsta sinn tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs. Orlofið var svo lengt í 12 mánuði árið 2021. Framan af var þak á greiðslum í fæðingarorlofi nokkuð yfir meðaltekjum bæði mæðra og feðra. Við efnahagshrunið hófust miklar skerðingar á greiðslum og þær hafa ekki verið leiðréttar að fullu síðan þá. Í yfirlýsingu stjórnvalda með kjarasamningum 2024 var ákveðið að hækka þakið í skrefum úr 600 þús. kr. og hámark greiðslna verður 900 þús. kr. frá og með 1. janúar 2026. Ef miðað er við launavísitölu í desember 2008, þegar verulegar skerðingar á greiðslum hófust, þyrfti þakið að vera rúmar 1.100 þús. kr. til þess að halda í við launaþróun á því tímabili.
Þak á greiðslum hefur almennt meiri áhrif á fæðingarorlofstöku feðra heldur en mæðra. Í ársskýrslum Fæðingarorlofssjóðs er safnað saman miklu af gögnum sem sýna stöðu og þróun fæðingarorlofskerfisins. Í skýrslu fyrir árið 2024 er farið yfir að fram að efnahagshruni hafi verið lítill munur á orlofslengd feðra eftir tekjuhópum en eftir að greiðslur voru skertar árið 2009 fóru tekjuhæstu feður frá því að nýta flesta daga að meðaltali í það að nýta fæsta daga og þannig hefur það verið síðan og er enn. [1]
Í skýrslunni er einnig eftirfarandi mynd sem sýnir fjölda daga nýttan af mæðrum og feðrum, umsóknir feðra sem hlutfall af umsóknum mæðra og hlutfall feðra sem fullnýtir ekki óframseljanlegan rétt sinn. Efri línan á myndinni sýnir hlutfall feðra sem sækja um fæðingarorlof sem hlutfall af umsóknum mæðra. Þar sést að framan af öldinni tóku nær 90% feðra fæðingarorlof, hlutfallið var í kringum 80% árunum 2011 til 2017 og hækkar svo 2017. Hækkanir á þaki greiðslna eftir efnahagshrunið hófust árið 2016 og stórt stökk var tekið á árunum 2017-2019 (úr 370 þús. í 600 þús.). Þá stóð þakið í stað til ársins 2024 og má sjá að hlutfall feðra lækkar töluvert frá árinu 2020.

Heimild: Ársskýrsla fæðingarorlofssjóðs 2024
Áhrif þeirra hækkana sem hafa verið og verða gerðar á árunum 2024-2026 eru ekki að fullu komin fram, en tölur fyrir árin 2023 og 2024 eru bráðabirgðatölur, og mikilvægt að stjórnvöld fylgist með og bregðist við eftir þörfum. Í 1. mgr. 54. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að fjárhæðir fæðingarorlofsgreiðslna skuli endurskoðaðar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. BSRB telur mjög mikilvægt að stjórnvöld fylgi þessari lagagrein og að tryggt sé að þak á greiðslum standi ekki í stað í lengri tíma eða hækki eingöngu í tengslum við kjarasamninga eða af öðrum sérstökum ástæðum. Sú hækkun á þakinu sem verður nú um áramótin er því mikilvæg en, eins og áður var nefnt, dugir hún ekki til að leiðrétta að fullu þá skerðingu sem fæðingarorlofið hefur sætt frá efnahagshruni.
Tekjulægri foreldrar fái óskertar greiðslur
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um breytingar á fæðingarorlofskerfinu og sagt að tryggja eigi að tekjulægri foreldrar haldi óskertum tekjum í fæðingarorlofi. Þetta atriði hefur verið í stefnu BSRB til lengri tíma og er einnig ein af kröfum Kvennaárs. Í skýrslu Fæðingarorlofssjóðs 2024 er orlofstaka mæðra greind með tilliti til tekna þeirra og birtist þar allt önnur mynd en hjá feðrum. Síðastliðin 10 ár hafa mæður í lægsta tekjufjórðungi nýtt að meðaltali færri daga en mæður í öðrum tekjufjórðungum og munurinn hefur aukist síðustu ár. [2] BSRB telur því afar mikilvægt að frumvarp um að tekjulægri foreldrar haldi óskertum greiðslum í fæðingarorlofi komi fram sem fyrst og jafnframt að tryggt verði að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldri lægri en lágmarkslaun.
Að lokum
Fæðingarorlofskerfið er afar mikilvægt, fyrir foreldra, vinnumarkaðinn og samfélagið. Markmið fæðingarorlofslaganna er tvíþætt; að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Fæðingarorlofskerfið er einnig eitt öflugasta jafnréttistækið sem við eigum, en jöfn skipting fæðingarorlofs stuðlar að jafnrétti á heimilum og á vinnumarkaði. Rannsóknir sýna að konur bera meiri ábyrgð á umönnun barna, eru frekar í hlutastörfum og barneignir hafa mun meiri áhrif á tekjur þeirra, en tekjur mæðra lækka um 30-50% við fæðingu barns og eru enn um 35% lægri þegar barnið er 10 ára. Tekjur feðra lækka sáralítið og ná á innan við ári sömu stöðu og fyrir barnsfæðingu. Mikilvægt er að fæðingarorlofskerfið sé útfært með þeim hætti að stuðla að jafnri þátttöku foreldra í umönnun barna sinna.
BSRB styður að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu verði að lögum. Bandalagið leggur jafnframt áherslu á að tryggt verði að þak á greiðslum fylgi launaþróun til framtíðar, að skerðingum á lágtekjufólk verði hætt og að greiðslur í fæðingarorlofi verði aldrei lægri en lágmarkslaun.
Fyrir hönd BSRB
Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur
[1] Ársskýrsla Vinnumálastofnunar vegna Fæðingarorlofssjóðs 2024, bls. 15.
[2] Ársskýrsla Vinnumálastofnunar vegna Fæðingarorlofssjóðs 2024, bls. 15-16.