Umsögn BSRB um frumvarp til starfskjaralaga, 589. mál.

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til starfskjaralaga sem felur í sér ný heildarlög um starfskjör launafólks í stað laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, auk þess sem lagðar eru til breytingar á öðrum lagabálkum. Í frumvarpinu segir að megintilgangur þess sé að koma til framkvæmda þeim aðgerðum sem stjórnvöld gáfu vilyrði fyrir vorið 2019 í tengslum við kjarasamninga og að skýra þær leikreglur sem gilda á vinnumarkaði en á sama tíma að sporna gegn undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. BSRB átti sæti í þeim starfshópi sem kom að samningu frumvarpsins og lauk störfum í janúar 2019.

Frá því nefndin lauk störfum hefur heimsfaraldur kórónuveiru haft mikil áhrif á innlendan vinnumarkað og það eftirlit sem nauðsynlegt er að sé með félagslegum undirboðum og vinnumansali. Nú ríkir jafnframt stríð í Evrópu og fjöldi fólks af erlendum uppruna hefur komið hingað til lands í leit að betra lífi. Slíkir hópar eru berskjaldaðri en aðrir fyrir því að lenda í klóm aðila sem vilja hagnast á þeim og misnota aðstöðu þeirra með félagslegum undirboðum og launaþjófnaði.

Lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 eru í daglegu tali nefnd starfskjaralögin. Lögin eru grundvallarlöggjöf sem fela í sér þá ófrávíkjanlegu meginreglu að aldrei skuli greiða laun sem eru lakari en þau sem kjarasamningur felur í sér. Nú stendur til að bæta við lögin tilvísun til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 sem er fagnaðarefni.

II.
BSRB gerir athugasemdir við orðalag 9. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um eftirlit Vinnumálastofnun (hér eftir VMST). Þar segir í upphafi að VMST sé heimilt að gefa atvinnurekanda fyrirmæli um að hann skuli greiða viðkomandi launamanni eða launamönnum laun sem ekki eru lakari en almennir kjarasamningar kveða á um. Til þess að leita aðstoðar VMST þarf launamaður að hafa krafist þess með sannanlegum hætti gagnvart atvinnurekanda, ýmist sjálfur eða með aðstoð stéttarfélags. Komist VMST að þeirri niðurstöðu að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt lakari laun en kjarasamningur kveður á um er aftur tiltekið að stofnuninni sé heimilt að gefa atvinnurekanda fyrirmæli um að frá og með næstu útborgun launa greiði hann ekki lakari laun en kjarasamningur kveður á um. Að mati BSRB þyrfti að taka það sérstaklega fram að viðkomandi launagreiðanda beri að greiða vangoldin laun, þ.e. þann mismun sem hann hefur hlunnfarið launamann um, aftur í tímann. Þá er að vissu leyti sérstakt að taka það fram að VMST sé ,,heimilt“ að gefa fyrirmæli um atriði sem er grundvallarregla á íslenskum vinnumarkaði og ætti að vera öllum atvinnurekendum ljós. Ef til vill mætti frekar hafa orðalagið á þann veg að VMST ,,skuli“ gefa fyrirmæli við þessar aðstæður.

Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um þau viðurlög sem VMST getur lagt á atvinnurekendur við hinar ýmsu aðstæður, þ.e. í þeim tilfellum þegar upp hefur komist um brot gegn launamanni eða launamönnum. Þar er t.d. heimild til þess að beita dagsektum, en fjárhæð dagsekta getur numið allt að 1. millj. kr. fyrir hvern dag og fer eftir umfangi brotsins. Þar segir sérstaklega að líta skuli til fjölda launamanna þess atvinnurekanda sem ákvörðun beinist að. BSRB fagnar útfærslu ákvæðisins.

III.
Þegar samstarfshópur var stofnaður í því skyni að sporna gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði var launaþjófnaður og aðstæður erlendis launafólks mikið til umræðu. Að mati flestra þeirra sem áttu sæti í hópnum var fullt tilefni til þess að endurskoða þær reglur sem ná utan um félagsleg undirboð og vinnumansal. Einn stærsti þátturinn í þeirri vinnu var að útfæra svonefnt févíti sem atvinnurekanda beri að greiða launamanni þegar upp kemur um launaþjófnað. Eins og áður segir skilaði hópurinn skýrslu til ráðherra í janúar 2019 og nokkrum mánuðum síðar tilkynntu stjórnvöld um fjölmargar aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Ein af þessum aðgerðum var svohljóðandi:

,,Heimildir til refsinga verði auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns.“

Í 14. gr. frumvarpsins má finna grein undir yfirskriftinni ,,Févíti“. Við fyrstu sýn gæti lagagreinin virkað eins og hún sé mikill varnagli fyrir launafólk og tryggi þeim réttmætar launagreiðslur auk álags eins og lagt var upp með þegar upp kemst um launaþjófnað. Hins vegar er sú vegferð sem launamaður þarf að taka sér á hendur alltof flókin og matskennd að mati BSRB.

Í fyrsta lagi þarf að sýna fram á að um ásetning hafi verið að ræða af hendi atvinnurekanda. Það er í raun vandséð hvernig sú ákvörðun að greiða laun undir kjarasamningi getur talist eitthvað annað en ásetningsbrot en á sama tíma er launamaður í vonlausri stöðu að sýna fram á huglæga afstöðu atvinnurekanda ef þar að kemur. Ásetningur er flókið lögfræðilegt hugtak sem erfitt er að sýna fram á nema á grundvelli rannsóknar og með fyrirliggjandi gögnum. Launamaður sem stendur frammi fyrir atvinnurekanda sem ber fyrir sig gáleysi er því í tiltölulega þröngri stöðu til þess að halda því fram að hann eigi rétt til févítis ef greinin helst óbreytt.

Þá segir í greininni að févíti komi ekki til greina ef um ,,réttmætan ágreining“ sé að ræða og þá segir í greinargerð með frumvarpinu að févíti komi ekki til ef túlkun atvinnurekanda á kjarasamningi nýtur stuðnings annars aðila kjarasamningsins sem um ræðir. Jafnframt segir að við mat á fjárhæð févítis, komi það yfir höfuð til greina, skuli líta til alvarleika brotsins og þar sérstaklega nefnt sem dæmi fjöldi þeirra launamanna sem í hlut eiga. Það er skiljanlegt að slíkt geti haft áhrif á fjárhæðir dagsekta í ríkissjóð vegna brota, sbr. hér að ofan, en vandséð er hvers vegna það ætti að hafa áhrif á greiðslur févítis til einstaka starfsmanna hvort þeir voru einir fórnarlömb launaþjófnaðar eða hvort fleiri starfsmenn lentu einnig í slíku. Alvarleiki brots gagnvart tilteknum starfsmanni beinist aðallega að brotinu gegn honum en ekki öðrum, enda er það framfærsla hans sem um ræðir.

Með vísan til framangreinds getur BSRB ekki stutt þá útfærslu á févíti sem frumvarpið felur í sér. Bandalagið telur ákvæðið ekki ná því markmiði sem að var stefnt og ekki ná utan um þann vanda sem steðjar að þegar kemur að félagslegum undirboðum og launaþjófnaði. Það tryggir einfaldlega ekki réttarstöðu launafólks við þær aðstæður.

IV.
Þá vill BSRB gera athugasemdir við að eiga sameiginlegan fulltrúa með Bandalagi háskólamanni í samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Um er að ræða mikilvægan vettvang sem ber að koma saman a.m.k. einu sinni á ári og fara yfir sviðið. Telur BSRB að bæði bandalagið og Bandalag háskólamanna eigi að eiga sinn fulltrúa í nefndinni, enda um mikilvægt samráð að ræða á vinnumarkaði.

Bandalagið lýsir að lokum yfir ánægju sinni með lögfestingu samstarfsvettvang eftirlitsaðila þar sem lögreglustjórar, Skatturinn, Vinnueftirlit Ríkisins og VMST taka saman höndum á sérstökum vettvangi sem hefur eftirlit gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.


Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?