Umsögn BSRB um leikskólaleiðina í Reykjavík – umbætur um náms- og starfsumhverfi leikskóla

BSRB hefur tekið til umsagnar tillögur Reykjavíkurborgar um umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla. BSBR hefur lengi látið sig leikskólamál varða, enda eru leikskólar grundvallarstofnanir í íslensku samfélagi. Leikskólar gegna mikilvægu hlutverki fyrir börn, foreldra, vinnumarkaðinn og samfélagið allt. Börnin fá öruggt umhverfi til að læra og þroskast undir stjórn fagfólks og foreldrar, og ekki síst mæður, fá tækifæri til að taka fullan þátt á vinnumarkaði. BSRB hefur lagt áherslu á að umönnunarbilið, milli fæðingarorlofs og leikskóla, verði brúað og að ekki verði gripið til illa ígrundaðra skyndilausna til þess að leysa vanda leikskóla.

BSRB leggst alfarið gegn þessum tillögum borgarinnar og verður í þessari umsögn gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja þar að baki.

 

Vandi leikskólanna

BSRB hefur verulega áhyggjur af þeim vanda sem leikskólar í borginni og víða um land standa frammi fyrir. Álag hefur aukist á starfsfólks og húsnæðisvandi og skortur á viðhaldi hefur haft áhrif á sumum stöðum. Þetta hefur skapað mönnunarvanda, aukið álag á starfsfólk og ófyrirsjáanleika í þjónustu. Eins og fyrr segir eru leikskólar grundvallarstofnanir í samfélaginu og það er hlutverk sveitarfélaga og stjórnvalda að tryggja að þeir geti starfað í samræmi við þær kröfur sem á þá eru lagðir. Að mati BSRB er vandinn sem leikskólar standa frammi fyrir að mestu leyti vegna þess að laun og starfsaðstæður starfsfólks eru ekki nægilega góðar. Húsnæðisvandinn spilar einnig hlutverk, en hann er tímabundinn og unnið er að því að leysa hann. Störf leikskólakennara og annars starfsfólks leikskóla eru kvennastörf sem hafa verið verulega vanmetin í gegnum tíðina og launasetning endurspeglar ekki þá ábyrgð sem í störfunum felast og það álag sem fylgir þeim. Unnið hefur verið að því síðustu ár að breyta þessu og eru nýlegir kjarasamningar kennara mikilvægt skref. Önnur störf í leikskólum hafa verið hluti af starfsmati Reykjavíkurborgar um árabil en það kerfi þarf að endurskoða í samræmi við bestu þekkingu og jafnframt tryggja að sambærilegt kerfi verði búið til um viðbótarlaun þar sem launamismunur birtist oft í ýmsum aukagreiðslum, sem karlar fá frekar en konur.

Starfsaðstæður eru ekki nægilega góðar þar sem mikið álag er á leikskólastarfsfólki, eins og svo mörgum stéttum í almannaþjónustunni. Mikill metnaður er í leikskólastarfi á Íslandi og áhersla á menntun yngstu barnanna er meiri en í öðrum Evrópulöndum. Mikilvægt er að þessi gildi verði áfram höfð í heiðri, en þá þarf að tryggja starfsfólki boðlegar aðstæður. Mönnunarskortur er alvarlegt vandamál og starfsmannavelta sömuleiðis.

Nú er starfandi starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins sem hefur það hlutverk að finna leiðir til þess að brúa umönnunarbilið. Hópurinn lét Gallup gera sérstaka greiningu á ýmsum þáttum í starfsumhverfi leikskólastarfsfólks hjá Reykjavíkurborg, samanborið við annað starfsfólk borgarinnar. Notast var við gögn úr könnuninni Stofnun ársins, sem er gerð árlega meðal starfsfólks ríkis og Reykjavíkurborgar í samstarfi stéttarfélaga og launagreiðenda. Þar er m.a. greint hvað veldur starfsmannaveltu á leikskólunum, en starfsfólk var spurt hvort það ætli að hætta störfum innan eins árs. Starfsmannavelta meðal leikskólakennara hjá borginni hefur síðastliðin 25 ár verið að meðaltali 11% á ári en hjá öðru starfsfólki leikskóla 31%, eða þrisvar sinnum hærra. Nokkur munur er á milli hópa, en yngra fólk og karlmenn eru mun líklegri til að ætla að hætta í starfi innan árs.

Í könnuninni er spurt um ýmsa þætti sem snúa að starfsfumhverfi, svo sem stjórnun, starfsanda, launakjör og streitu. Þegar starfsfólk á leikskólum borgarinnar er borið saman við annað starfsfólk borgarinnar koma þau verr út á þegar litið er til starfsanda, launakjara og streitu en niðurstöður eru jákvæðari varðandi ímynd vinnustaðarins. Óánægja mælist sérstaklega mikil meðal fólks án háskólamenntunar hvað varðar launakjör og streitu. Í hópunum 30 ára og yngri og 40 ára og yngri heldur þetta mynstur sér og niðurstöðurnar eru neikvæðastar fyrir streitu, launakjör og starfsanda. Í greiningunni er einnig dregið fram að móttaka nýliða og nýliðafræðsla fyrir starfsfólk á leikskólum er að jafnaði meira ábótavant en hjá öðru starfsfólki borgarinnar. Það sama á við um möguleika til starfsþróunar meðal yngri stjórnenda sem getur gefið vísbendingar um að stjórnendum finnist þeir ekki hafa fengið nægilegan undirbúning fyrir stjórnendastarfið.

Áður en ráðist verður í svo umfangsmiklar breytingar á leikskólastarfi er mikilvægt að borgin geri ítarlegar greiningar á því hvaða vanda leikskólinn stendur frammi fyrir, hverjar séu helstu ástæður hans og hvaða leiðir eru færar til þess að mæta þeim vanda, í stað þess að áætla að skerðing dvalartíma sé eina leiðin. Af greiningunni úr Stofnun ársins á leikskólum borgarinnar má draga þá ályktun að aukin stuðningur við stjórnendur, bætt launakjör og fræðsla til starfsfólks séu eðlilegt fyrsta skref til að takast á við þann vanda sem leikskólinn stendur frammi fyrir. Þessum vanda er ekki hægt að velta yfir á foreldra með auknum kostnaði eða skerðingu á dvalartíma. Borgin er augljóslega ekki að ráðast að rótum vandans og því er alls óvíst að þær tillögur sem nú liggja fyrir skili þeim árangri sem lagt er upp með.

 

Skerðing dvalartíma barna

Tillögurnar eru tvíþættar og annar þáttur þeirra snýr að því að stytta dvalartíma barna í leikskólum. Yfir 90% barna á leikskólum Reykjavíkur eru í dag með 8 tíma eða lengri dvöl. Því gefur augaleið að þessar breytingar munu hafa mjög umfangsmikil áhrif á stærstan hluta fjölskyldna.

Aðalhugmyndin er að stytta dvalartíma barna í 38 stundir á viku. Meginrökin fyrir þessum breytingum eru að vinnutími starfsfólks er 36 stundir á viku og að ekki hafi komið til aukið fjármagn þegar vinnutími styttist úr 40 stundum. BSRB var í forystu þegar vinnutími opinberra starfsmanna var styttur í 36 stundir í kjarasamningum 2020. Stytting vinnutíma hjá dagvinnustofnunum átti að koma til framkvæmda án kostnaðar fyrir launagreiðendur. Sannarlega voru lagðar fram kröfur um að fjármagn myndi fylgja styttingunni í leikskólum þar sem ekki væri unnt að endurskipuleggja starfsemi til að mæta styttingunni, eins og t.d. var auðveldara að gera í skrifstofustörfum. Ekki var orðið við þeim kröfum og nú lætur borgin sem þetta hafi komið þeim á óvart. Nefna má að þegar vinnutími vaktavinnufólks var styttur komu launagreiðendur, þar á meðal Reykjavíkurborg, með fjármagn á móti til þess að tryggja mönnun á þeim tímum sem starfsemi fer fram.

Þó það sé ekki beint ávarpað í tillögunum hefur komið fram í umræðunni af hálfu fulltrúa borgarinnar að margir foreldrar séu einnig með 36 stunda vinnuviku og því eðlilegt að stytta leikskóladaginn. Það er rétt að hluti foreldra, þ.e. opinberir starfsmenn, eru með 36 stunda vinnuviku, en opinberir starfsmenn eru einungis um fjórðungur vinnumarkaðar. Stærstur hluti launafólks er enn með um 40 stunda vinnuviku og á því erfiðara með að bregðast við kröfum um skertan dvalartíma. Ef vinnutími alls starfsfólks á vinnumarkaði verður einhvern tímann styttur er sjálfsagt að horfa til þess að stytta dvalartíma barna á leikskólum en það er alls ekki tímabært núna. Þá má nefna að útfærsla styttingar vinnutíma hjá opinberum starfsmönnum er afar ólík milli vinnustaða og ekki víst að skipulag vinnutíma falli að hugmyndum Reykjavíkurborgar, t.d. um styttri föstudaga. Þá ber einnig að taka tillit til þess að vaktavinna er algeng á opinbera vinnumarkaðnum og vinnutíminn því óreglulegur.

Farið hefur verið í tilraunir með að stytta dvalartíma barna í öðrum sveitarfélögum og mest áberandi hafa verið þær breytingar sem gerðar voru í Kópavogi fyrir um tveimur árum, svokallað Kópavogsmódel. BSRB hefur gagnrýnt það harðlega. Þær breytingar ganga út á að stytta dvalartíma barna og hækka gjöld verulega fyrir þau börn sem dvelja lengur en 6 tíma á dag í leikskólum. Nýlega kom út rannsókn á vegum Vörðu á viðhorfum foreldra til Kópavogsmódelsins. Niðurstöður hennar eru í meginatriðum þær að foreldrar upplifa mikla streitu vegna breytinganna og því að hafa þurft að bregðast við styttri dvalartíma til að koma í veg fyrir miklar hækkanir gjalda. Sumir lýsa því að þurfa að klára vinnudaga heima eða jafnvel mæta til vinnu um helgar til þess að uppfylla vinnuskyldu sína. Þá koma kynjuð áhrif skýrt fram, en pressa á að skerða dvalartíma bitnar sérstaklega á mæðrum sem oft bera meginábyrgð á því að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Mæður upplifa oft samviskubit, togstreitu og fjárhagslegt álag og þurfa gjarnan að minnka við sig vinnu eða treysta á baklandið sitt, sé það yfirhöfuð til staðar. Þá kemur einnig fram að álagið færist oft yfir á ömmur barnanna, sem bendir til þess að kynjuð umönnunarbyrði fylgi konum út ævina. Þá koma fram stéttbundin áhrif, þar sem til dæmis innflytjendur eru oft í láglaunastörfum með takmarkaðan sveigjanleika og minna bakland til þess að reiða sig á til þess að sækja börn snemma á leikskóla. Æskilegt væri að Reykjavíkurborg myndi horfa til þessarar rannsóknar áður en breytingar verða gerðar á leikskólakerfinu.

Síðustu ár hefur orðið vart við verulega aukna umræðu um langan dvalartíma barna og látið sem svo að það sé skaðlegt fyrir börn að vera 8 tíma á dag á leikskóla. Þessar fullyrðingar eru ekki studdar með neinum gögnum, en engar rannsóknir liggja fyrir um að það sé slæmt fyrir börn að dvelja þann tíma á leikskóla. Jafnframt er vísað til þess að leikskóladagur barna á Íslandi sé langur í alþjóðlegum samanburði, en algjörlega horft fram hjá því að atvinnuþátttaka hér á landi er með því hæsta sem gerist, og sérstaklega há meðal kvenna. Svona umræða er líkleg til þess að skapa samviskubit meðal foreldra, sérstaklega mæðra, þar sem þau upplifa að þau standi sig ekki í foreldrahlutverkinu ef börnin þeirra eru á leikskóla 8 tíma á dag.

 

Miklar hækkanir á gjaldskrá

Samhliða kröfum um styttri dvalartíma verða gerðar umfangsmiklar breytingar, og í mörgum tilfellum gríðarleg hækkun, á gjaldskrá fyrir leikskólavistun. Markmið þeirra er að skapa fjárhagslega hvata fyrir fólk að draga úr vistunartíma. 93% leikskólabarna í Reykjavík dvelur á leikskóla 8 tíma eða lengur á dag þannig að hækkanirnar munu hafa áhrif á mikinn fjölda fjölskyldna. Breytingarnar fela í sér að gjaldskráin hækkar fyrir vistun umfram 38 klst. á viku og greiða þarf sérstaklega fyrir skráningardaga, en hingað til hefur verið veittur afsláttur af leikskólagjöldum ef þeir eru ekki nýttir, en ef dagarnir eru nýttir eru gjöldin þau sömu og venjulega. Þá á að taka upp tekjutengt afsláttarkerfi en fella út alla afslætti sem hafa verið til staðar, nema starfsmannaafslátt. Þeir afslættir sem falla út eru fyrir einstæða foreldra, námsmenn og fólk sem er á örorku- eða endurhæfingarlífeyri.

Tekjutengdu afslættirnir virka þannig að fyrir einstæða foreldra er 80% afsláttur af nýrri gjaldskrá fyrir fólk með árstekjur undir 6,5 milljónum á ári, eða um 540 þús. á mánuði. Einstæðir foreldrar með undir 9,5 milljónir á ári, eða um 790 þús. á mánuði, fá 40% afslátt. Árið 2024 var meðaltal heildarlauna á íslenskum vinnumarkaði 984 þús. kr. á mánuði og því er þetta tekjuviðmið mjög lágt.

Fyrir sambúðarfólk er tekjuviðmiðið hærra. sambúðarfólk með 9,5 milljónir í árstekjur eða lægri, sem samsvarar því að hvort um sig sé með um 396 þús. kr. í tekjur fá 60% afslátt af nýrri gjaldskrá en sambúðarfólk með 12 milljónir í árstekjur, eða um 500.000 kr. í mánaðartekjur hvort um sig fá 30% afslátt. Óljóst er hvers vegna tekjuviðmiðin eru ólík eftir því hvort um sambúðarfólk eða einstæða foreldra er að ræða, og skýtur skökku við að þau séu hærri fyrir sambúðarfólk. Mun líklegra er að einstæðir foreldrar þurfi að nýta sér lengri vistunartíma þar sem þau geta ekki skipts á að koma börnum til og frá leikskóla. Það á við jafnvel þótt börnin búi til skiptis á báðum heimilum. Þá geta áhrifin komið mjög mismunandi niður á ólíkum hópum, sérstaklega þeim sem eru með minna bakland, fólk sem getur hlaupið undir bagga eins og ömmur og afar, eða utanaðkomandi barnapössun sem greitt er fyrir. Í rannsókn Vörðu og Háskólans á Akureyri kom fram að konur með lægri tekjur eiga mun erfiðara með að greiða fyrir barnapössun, eða allt að 10,4% þeirra sem eru með lægstu tekjurnar á móti engri konu í hæsta tekjuflokki.

Eðlilegt er að veita einstæðum foreldrum, námsmönnum og öryrkjum afslátt af gjaldskrá eins og nú er gert. BSRB telur hins vegar fráleitt að innleiða tekjutengingar í opinberri þjónustu. Þeim mun hærri sem tekjur foreldra eru, þeim mun hærri skatt greiða þau hlutfallslega og barnabætur þeirra skerðast með hækkandi tekjum og fjöldi foreldra á ekki rétt á þeim. Innleiðing tekjutenginga á leikskólagjöldum hefur því veruleg áhrif á jaðarskatta barnafjölskyldna.

ASÍ hefur tekið saman greiningu á áhrifum gjaldskrárhækkana á ólíka hópa foreldra. Þar kemur fram að með breytingunum færist Reykjavíkurborg í hóp þeirra sveitarfélaga sem innheimta hæst leikskólagjöld á landinu. Áhrifin verða mest á einstæða foreldra, sem eins og áður segir eru líklegri til þess að þurfa að nýta lengri dvalartíma. Fyrir einstæða foreldra yfir hærri tekjumörkum hækka leikskólagjöld fyrir 8 tíma vistun um 121% og fyrir 8,5 tíma vistun um 185%. Í þessum dæmum er gert ráð fyrir því að skráningardagar verði nýttir. Þarna er um gríðarlegar hækkanir að ræða og hefur þetta því veruleg áhrif á ráðstöfunartekjur heimila.

Hækkanir fyrir sambúðarfólk eru minni en engu að síður verulegar. Fyrir 8 tíma vistun með skráningardögum hækka gjöld um 47% og fyrir 8,5 tíma um 81%. Eins og áður segir eru 93% leikskólabarna í Reykjavík með vistun í 8 tíma eða meira. Ekki er sérstaklega greint til hversu stórs hóps afslættirnir munu ná, eða gerður samanburður á núverandi afsláttarkerfi og því nýja.

Veittir verða sérstakir afslættir ef barn er sótt kl. 14 á föstudögum, en þá reiknast 25% afsláttur af leikskólagjöldum. Líklegt er að þarna sé verið að horfa til styttingar vinnuvikunnar, en í ákveðnum stéttum sem búa við 36 stunda vinnuviku er algengt að unnið sé skemur á föstudögum. Það eru þó eingöngu um fjórðungur starfandi á vinnumarkaði með 36 stunda vinnuviku. Þá er útfærsla styttingar vinnuvikunnar afar ólík eftir vinnustöðum. Á sumum stöðum er hver dagur styttur, þannig að unnir eru 7,2 klst. á dag. Á öðrum stöðum er styttingin mismunandi og geta það því verið aðrir vikudagar en föstudagur. Þá er fyrirkomulagið afar ólíkt hjá vaktavinnufólki sem getur þurft að vinna alla daga vikunnar og á öllum tímum sólarhrings. Þegar horft er til þessa er það enn minni hluti fólks á vinnumarkaði sem hefur tök á að sækja börn kl. 14 á föstudögum. Það eru einna helst þau sem vinna sveigjanleg skrifstofustörf og gjarnan er það fólk sem er á hæstu laununum. Fólk í framlínustörfum, sem oft eru lægra launuð, býr ekki við þennan sveigjanleika og verður því dæmt til að greiða hærri gjöld eða draga úr atvinnuþátttöku sinni.

Í tillögunum er einnig lagt til að auka áherslu á að börn séu í fríi á svokölluðum skráningardögum. Skráningardagar eru tiltölulega nýtt fyrirbæri, en í þeim felst að skrá þarf börnin sérstaklega í leikskólann í dymbilviku, vetrarfríum grunnskóla og á milli jóla og nýárs. Þessir dagar eru minnst 10 á ári, en geta verið fleiri eftir því hvernig jólin leggjast. Sumarfrí leikskóla er 20 virkir dagar á ári og starfsdagar 6 á ári. Foreldrar hafa á bilinu 24 til 30 daga í orlof og því er augljóst að erfitt getur verið að taka frí alla þessa daga sem verða að lágmarki 36 á ári en oft fleiri. Skráningardagar í Reykjavík hafa hingað til verið framkvæmdir þannig að skrá þarf börnin með mánaðarfyrirvara. Ef barn kemur ekki í leikskóla á skráningardegi reiknast afsláttur af leikskólagjöldum, fyrir hvern skráningardag sem ekki er nýttur. Nú á fyrirkomulagið að vera þannig að í september eiga foreldrar að skrá börnin sín á alla skráningardaga skólaársins, þ.e. alveg fram að páskum. Það er töluvert flóknara að skipuleggja svo langt fram í tímann. Gjald fyrir hvern skráningardag verður 4.000 kr. sem er mikil hækkun. Ef enginn skráningardagur er nýttur falla leikskólagjöld í maí niður, en enginn afsláttur er gefinn ef einn eða nokkrir skráningardagar eru ekki nýttir.

Líklegt er að pressa á foreldra að nýta ekki skráningardagana aukist. Þetta kemur m.a. fram í rannsókn Vörðu á Kópavogsmódelinu sem vísað var til að ofan. Foreldrar þurfa því að velja á milli þess að auka annað hvort verulega á álag fjölskyldunnar vegna styttri dvalartíma og skráningardaga og lækka tekjur sínar vegna minni atvinnuþátttöku eða að sæta annars fjárhagslegum refsingum, í mörgum tilfellum verulegum.

 

Skortur á jafnréttismati

Ekki hefur verið metið með hvaða hætti tillögurnar hafa áhrif á jafnrétti kynjanna, þó sveitarstjórnum sé skylt að gera það. Í 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 segir að samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum opinberra stofnana. Þá segir einnig í 15. gr. að samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða skuli gætt við alla stefnumótun í skóla- og uppeldisstarfi. Reykjavíkurborg hefur algjörlega litið fram hjá þessum ákvæðum og þar með gerst brotleg við jafnréttislög.

Líkt og farið hefur verið yfir hér að ofan eru áhrif af umræddum breytingum líkleg til að verða mjög kynjuð og veruleg hætta á að halli á konur. Rannsóknir sýna að þær bera meiri ábyrgð á umönnun barna, eru frekar í hlutastörfum og barneignir hafa mun meiri áhrif á tekjur þeirra, en tekjur mæðra lækka um 30-50% við fæðingu barns og eru enn um 35% lægri þegar barnið er 10 ára. Tekjur feðra lækka sáralítið og ná á innan við ári sömu stöðu og fyrir barnsfæðingu. Þá kemur fram í rannsókn Vörðu um Kópavogsmódelið að áhrifin þar hafi verið mjög kynjuð og stéttbundin, konur upplifi meira samviskubit og togstreitu og séu líklegri til að draga úr vinnu til að mæta kröfum um styttri dvalartíma. Það er ótækt að Reykjavíkurborg leggi fram svo umfangsmiklar breytingar án þess að horfa til áhrifa á jafnrétti kynjanna og áhrifa á ólíka hópa m.t.t. efnahagslegrar og félagslegrar stöðu.

 

Að lokum

BSRB leggst alfarið gegn þessum tillögum borgarinnar. Breytingarnar eru líklegar til að hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur í borginni þar sem börn dvelja almennt 8 tíma eða lengur á leikskóla. Áhersla á styttri dvalartíma kemur mun verr niður á konum heldur en körlum eins og m.a. hefur verið staðfest í rannsókn Vörðu á Kópavogsmódelinu. Fjórðungur kvenna er í hlutastörfum vegna umönnunarábyrgðar, tekjur þeirra eru lægri og barneignir hafa sérstaklega slæm áhrif á tekjur kvenna til langs tíma. Tillögurnar eru líklegar til að auka álag á foreldra, sérstaklega mæður, og gera þeim mun erfiðara fyrir með að samþætta atvinnu- og fjölskyldulíf.

Gjaldskrárhækkanirnar eru ósanngjarnar og koma sérstaklega illa niður á einstæðum foreldrum, sem eru mun líklegri til þess að þurfa að nýta sér lengri dvalartíma og vistun á skráningardögum. Tekjuviðmiðin eru lág, og ekki kemur fram til hversu margra foreldra afsláttarkerfið nær.

Borgin hefur algjörlega horft fram hjá lagaskyldu til þess að jafnréttismeta alla stefnumótun á vegum sveitarfélagsins, og sérstaklega þegar varðar skólaþjónustu. Það er alvarlegt.

Reykjavík hefur lengst af verið í forystu í leikskólamálum en algjör bylting varð á málaflokknum þegar Reykjavíkurlistinn hóf mikla uppbyggingu leikskólastarfs á 10. áratugnum. Önnur sveitarfélög fylgdu í kjölfarið. Leikskólar eru hluti af grunnþjónustu í samfélaginu og gríðarlega mikilvægir, fyrir börn, foreldra, vinnumarkaðinn og samfélagið í heild. Án leikskóla væri atvinnuþátttaka kvenna miklu lægri, en hún er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Vinnumarkaðurinn og lífskjör á Íslandi væru því ekki söm ef ekki væri fyrir krafta kvenna.

BSRB gerir ekki lítið úr þeim vanda sem leikskólakerfið stendur frammi fyrir. Mikið álag og vandamál með mönnun hafa einkennt það síðustu ár, auk húsnæðisvanda. Leikskólastörf eru kvennastörf og þau þarf að endurmeta með tilliti til raunverulegs verðmætis þeirra. Áður sinntu konur þessum störfum launalaust og því var rangt gefið í upphafi, þegar störfin færðust út á vinnumarkaðinn. Mikill metnaður er í leikskólastarfi hér á landi þar sem yngstu börnin njóta menntunar og umönnunar fagfólks í öruggu umhverfi. Þessi gildi þarf áfram að hafa í heiðri.

BSRB gerir þá kröfu á sveitarfélög að leikskólastigið verði fjármagnað almennilega, og ráðist verði í umbætur á launakjörum starfsfólks, í húsnæðismálum og skapað gott starfsumhverfi þar sem mönnun er nægileg og álag hæfilegt. Líta má til greiningar úr Stofnun ársins þar sem fram kemur að aukinn stuðningur við stjórnendur, bætt launakjör og meiri áhersla á fræðslu og starfsþróun starfsfólks sé líkleg til að hafa jákvæð áhrif á starfsánægju leikskólastarfsfólks og þar með skapa aukinn stöðugleika í mönnun.

Það er uppgjöf hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum sem hafa farið svipaða leið að ætla að draga úr vandanum með illa ígrunduðum plástrum sem eru ekki líklegir til árangurs til lengri tíma, heldur gera ekki annað en að velta leikskólavandanum yfir á foreldra með auknu álagi og fjárhagsáhyggjum, sem hefur ekki síst áhrif á mæður.

Þá gagnrýnir BSRB samráðsleysi, en eðlilegt hefði verið að kynna þessar hugmyndir fyrir stéttarfélögum starfsfólks áður en þær voru lagðar fram.

 

 

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur