Umsögn BSRB um stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum 0-6 ára barna

BSRB fagnar því að Reykjavíkurborg ætli að móta heildstæða stefnu í málefnum ungra barna í Reykjavík og þakkar fyrir tækifæri til þess að hafa áhrif á stefnumótunina.

Jafnrétti er leiðarljós í allri stefnu og vinnu BSRB og málefni tengd barnafjölskyldum eru þar ofarlega á baugi. Réttur til fæðingarorlofs og örugg dagvistun barna að loknu fæðingarorlofi hafa mikil áhrif á atvinnuþátttöku kvenna, jafnrétti á heimilum og ævitekjur kvenna. BSRB leggur því áherslu á jafnrétti í víðum skilningi, þ.e. milli kynja, vegna uppruna og efnahagsstöðu, verði haft í forgrunni þegar stefna er sett í málefnum ungra barna.

Þjóðhagsráð fjallaði um stöðu ungbarnafjölskyldna með tilliti til fæðingarorlofs, aðgengi að leikskólum og áhrifum barnsfæðinga á ráðstöfunartekjur foreldra á fundi sínum 23. október 2023. Í samantekt sem unnin var fyrir fundinn kemur fram að feður taka innan við 60% af þeim dagafjölda sem mæður taka í fæðingarorlofi og að langflestir íbúar landsins búa í sveitarfélögum sem ekki hafa sett viðmið um að börnum bjóðist leikskólapláss strax að fæðingarorlofi loknu. Samkvæmt könnun sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerði af þessu tilefni kemur fram að aðeins um fjórðungur barna eru innrituð á leikskóla við 15 mánaða aldur og innan við helmingur við 19 mánaða aldur. Fjármálaráðuneytið gerði úttekt á áhrifum barneigna á ráðstöfunartekjur foreldra og niðurstöðurnar eru sláandi. Sterkar vísbendingar eru um að ráðstöfunartekjur feðra lækki um 3-5% á fæðingarári barns en séu svo á öðru og þriðja ári eftir fæðingu barns svipaðar og ætla má að þær hefðu orðið ef ekki hefði komið til barneigna. Áhrifin á ráðstöfunartekjur mæðra eru allt önnur og mun meiri. Ráðstöfunartekjur þeirra lækka um 30-40% á fæðingarári barns, vaxa svo smám saman en eru þó ekki nema um 80% á þriðja ári frá fæðingu barns miðað við hvað ætla má að þær hefðu orðið án barneigna.

Því miður hefur ekki enn tekist að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og stendur Reykjavík á svipuðum stað og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því.[1] 2021 var fæðingarorlofið loksins lengt í 12 mánuði en hlutfallsleg skipting daga í fæðingarorlofi milli foreldra hefur lítið breyst og taka konur að jafnaði mun lengra orlof.[2] Þá er einnig algengt að konur dreifi sínu orlofi á fleiri mánuði eða lækki starfshlutfall sitt um tíma, einmitt til að brúa umönnunarbilið.[3] Þetta kemur niður á konum með margvíslegum hætti. Tekjur þeirra og ævitekjur lækka, starfsþróunarmöguleikar geta orðið skertir og jafnrétti á heimilum minnkar. Konur bera enn mun meiri ábyrgð á umönnun barna og fjölskyldu, auk þess að sinna þriðju vaktinni að miklu leyti. Þátttaka feðra í fæðingarorlofi hefur afgerandi áhrif á jafnari skiptingu ábyrgðar á heimilinu.

BSRB leggur höfuðáherslu á að umönnunarbilið verði brúað hið fyrsta og að öllum börnum verði tryggð örugg leikskólavist að loknu fæðingarorlofi, við 12 mánaða aldur. Best væri ef sá réttur væri lögfestur líkt og á öðrum Norðurlöndum, og sveitarfélög mættu kalla eftir því. Sveitarfélögin munu þó enn bera meginábyrgðina á því að börn komist inn á leikskóla og þessi mál þurfa að vera í algjörum forgangi hjá Reykjavíkurborg. Dagforeldar eru fáir og nýtast ekki mörgum fjölskyldum, auk þess að það er mun betra fyrir börn að vera hluti af faglegu leikskólastarfi.

BSRB er algjörlega á móti heimgreiðslum sem leið til að brúa umönnunarbilið. Nánast öruggt er að heimgreiðslur myndu draga úr atvinnuþátttöku kvenna og þar með hafa neikvæð áhrif á jafnrétti á vinnumarkaði. Launamunur kynjanna er staðreynd og almennt eru konur á lægri launum, auk þess sem um þriðjungur þeirra er í hlutastörfum vegna fjölskylduábyrgðar. Það er því mun líklegra að mæður verði lengri tíma frá vinnumarkaði ef hreimgreiðslur verða teknar upp. Mikilvægt er að hafa í huga að tilgangur fæðingarorlofslaganna er tvíþættur, annars vegar að gefa börnum færi á samvistum við báða foreldra og hins vegar að gefa báðum foreldrum tækifæri til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Heimgreiðslur ógna síðara markmiðinu. Rannsóknir sem OECD hefur framkvæmt sýna að það eru að mestu leyti innflytjendur sem nýta þær greiðslur sem kemur niður á atvinnuþátttöku kvenna af erlendum uppruna.[4] Þátttaka í leikskólastarfi er einnig mikilvæg fyrir börn af erlendum uppruna, með tilliti til tungumáls og fleiri þátta.

BSRB er einnig á móti því að dvalartími barna verði skertur og gjöld hækkuð fyrir eðlilegan vistunartíma (8-8,5 tímar) líkt og gert hefur verið í nokkrum sveitarfélögum og virðist vera að færast í aukana. Slík leið mismunar fjölskyldum og kemur sérstaklega harkalega niður á einstæðum foreldrum, sem eru oftar í þröngri fjárhagslegri stöðu.[5]

BSRB hefur lengi barist fyrir jafnri skipting fæðingarorlofs á milli foreldra og leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi til að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði, jafna ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfum og draga úr fjárhagslegum áhrifum barneigna fyrir konur. Leikskóli við 12 mánaða aldur er ein af meginkröfum BSRB á stjórnvöld í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2024.

Fyrir hönd BSRB,

Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur

 

[1] Skýrsla BSRB um umönnunarbilið (2022). https://www.bsrb.is/static/files/Utgefid_efni/skyrsla-bsrb-umonnun.pdf.

[2] Ársskýrsla Fæðingarorlofssjóðs 2022, bls. 6. https://vinnumalastofnun.is/media/4350/vms-arsskyrsla-faedingarorlofsjods-utgafa.pdf

[3] Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs, Varða (2023). https://www.rannvinn.is/_files/ugd/61b738_8c725099850442528934919dfd7378cc.pdf.

[4] OECD (2022), Skills and Labour Market Integration of Immigrants and their Children in Norway, bls. 153 og OECD (2012), Jobs for Immigrants (Vol. 3), bls. 171.

[5] Staða launafólks á Íslandi, Varða (2023), bls. 13. https://www.rannvinn.is/_files/ugd/61b738_42efc9dcc153415fa4726d21f521985e.pdf.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?