Umsögn BSRB um þingsályktunartillögu um sveigjanlega tilhögun fæðingar- og foreldraorlofs, mál. nr. 214

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreinda þingsályktunartillögu og lýsir yfir eindreginni andstöðu við efni hennar. Stutt er síðan fram fór heildarendurskoðun á löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. lög nr. 144/2020. Áður en frumvarp að þeim lögum var lagt fram á Alþingi var starfandi nefnd í félagsmálaráðuneytinu sem var skipuð aðilum vinnumarkaðarins meðal annarra, þar sem farið var heildstætt yfir lögin. Niðurstaðan var að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði í tveimur skrefum, árin 2020 og 2021, ásamt því að fleiri breytingar voru gerðar, sem allar voru til bóta að mati bandalagsins.

Ákveðið var að skipta rétti til orlofs jafnt á milli foreldra, en þó með heimild til að framselja allt að sex vikur til annars foreldris. BSRB fagnaði þessari niðurstöðu, en afstaða bandalagsins hefur lengi verið sú að orlofi skuli jafnt skipt á milli foreldra. Sagan sýnir okkur að ef foreldrar hafa möguleika á að framselja orlof til hins foreldris eru það konur sem taka lengra orlof, en flestir karlar taka aðeins þann hluta orlofs sem er sérstaklega ætlaður þeim og er ekki framseljanlegur.[1] Tölur frá Norðurlöndum segja sömu sögu.[2] Því er afar mikilvægt að skipta fæðingarorlofi jafnt á milli foreldra til að tryggja rétt barns til samvista við báða foreldra, en það markmið fæðingarorlofslaganna kemur fram í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 144/2020. Þá er það einnig meginmarkmið laganna að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu og atvinnulíf, sbr. 2. mgr. 2. gr. sömu laga.

BSRB leggur því til að þingsályktunartillaga þessi hljóti ekki samþykki Alþingis, enda fælist í því mikil afturför, bæði fyrir börn og foreldra.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

 

[1] Svar félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fæðingar- og foreldraorlof. https://www.althingi.is/altext/150/s/0241.html

[2] Tölur og umfjöhun má m.a. sjá í skýrslu Kvenréttindafélags Íslands, Norges kvinnelobby og Sveriges kvinnolobby þar sem fæðingarorlofskerfi Norðurlandanna eru borin saman. https://view.publitas.com/kvenrettindafelag/foraldraledig-mer-an-koksbordsfraga/page/1

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?