Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028, mál nr. 894.

BSRB hefur fengið tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 senda til umsagnar og þakkar fyrir að fá tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við fjárlaganefnd.

Verðbólga hefur farið hækkandi hérlendis sl. tvö ár og er nú 9,8% á ársgrundvelli. Seðlabanki hefur brugðist við með því að hækka meginvexti bankans úr 0,75% í 7,5% frá því í maí 2021. Á sama tíma hefur hagvöxtur verið mikill, afkoma fyrirtækja góð en vísitala kaupmáttar launa hefur svo að segja staðið í stað. Tekjulægri heimili og heimili með þunga framfærslubyrði finna hlutfallslega mest fyrir þeirri kjararýrnun sem hlýst af hækkun verðlags- og húsnæðiskostnaðar.

Í þjóðarpúlsi Gallup frá því í febrúar sl. kemur fram að 30% þeirra sem eru með minna en 550.000 kr. í heimilistekjur[1] á mánuði eru að safna skuldum eða eiga erfitt með að ná endum saman og 39% ná endum saman með naumindum. Það sama á við um 37% þeirra sem búa í leiguhúsnæði og þá tekst 65% leigjenda ekki að safna sparifé.

Heimili sem eru í eigin húsnæði og með háar ráðstöfunartekjur geta betur þolað aukin útgjöld vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Heimili á leigumarkaði eða með háar afborganir af fasteignalánum geta það síður. Besta leiðin til að tryggja afkomu þessara hópa er með eflingu barnabótakerfisins og húsnæðisstuðningskerfanna.

BSRB leggur ríka áherslu á að skattar og auðlindagjöld verði hækkuð á atvinnulífið og stóreignafólk og fjármunirnir nýttir til að efla stoðir almannaþjónustunnar og styðja betur við tekjulágar fjölskyldur. BSRB hafnar þeirri stefnu sem birtist í fjármálaáætluninni um áframhaldandi aðhald í opinberum rekstri. Margar stofnanir ríkisins hafa verið undir miklu álagi undanfarin ár vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar, verið vanfjármagnaðar allt frá efnahagshruni 2008 og búa því við langvarandi undirmönnun og manneklu. Þess vegna er mikilvægt að tryggja fjármögnun þeirra og þar með viðunandi velferðarstig og öryggi.

Vaxtabyrði og verðstöðugleiki

Það er vissulega jákvæð þróun að frumjöfnuður mælist nú jákvæður og að afgangur af honum aukist út áætlunartímabilið. Hins vegar er þar með ekki öll sagan sögð þar sem heildarjöfnuður er áætlaður neikvæður til lokaárs áætlunarinnar sökum hárra vaxtagjalda. Skuldahlutfall hins opinbera, skv. skuldareglu laga um opinber fjármál, fer lækkandi á tímabili áætlunarinnar, úr 38% af VLF 2024 í 36% 2028 og skuldir ríkissjóðs þar af úr 31% til 30%. Skuldastaða hins opinbera er því hagfelld ef litið er til þess áfalls sem heimsfaraldurinn var fyrir íslenskt efnahagslíf. Skuldahlutfallið er því ekki sérstakt áhyggjuefni heldur fyrst og fremst vaxtakostnaðurinn en hann er hár í alþjóðlegum samanburði. Sem dæmi má nefna að áætlunin gerir ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs verði um 483 ma.kr. á tímabilinu. Til samanburðar er áætlað að fjárfesting í byggingu nýs Landspítala verði 136 ma.kr. á sama tímabili eða aðeins ríflega fjórðungur af vaxtagjöldum.

Einn liður í því að ná verðstöðugleika er að auka markaðs- og verðlagseftirlit. Fákeppni er ríkjandi á mörgum mörkuðum hérlendis og eiga fyrirtæki þá auðveldara með að velta verðhækkunum yfir á viðskiptavini og neytendur. Samkeppniseftirlitið varar við þeim hættum sem stafa af núverandi ástandi: „Hættan er því sú að almenningur og efnahagslífið í heild sitji uppi með skaðann til lengri tíma með tilheyrandi forsendubresti, s.s. í kjarasamningum, heimilishaldi eða rekstri fyrirtækja. Þá er hætta á að verðhækkanir nái einnig til vöru og þjónustu sem ekki eru háðar hinum versnandi ytri aðstæðum.“[2] Í umfjöllun um markaðseftirlit og neytendavernd í fjármálaáætluninni kemur fram að áætlað sé að heildarstefnumótun á sviði neytendamála ljúki fyrir árslok 2024. BSRB fagnar þeirri stefnumótun og leggur áherslu á aðkomu heildarsamtaka launafólks að þeirri vinnu. Þrátt fyrir þessa vinnu er nauðsynlegt að auka nú þegar fjárheimildir til þeirra stofnana ríkisins sem fara með markaðseftirlit og neytendavernd enda er það mikilvægur liður í því að halda aftur af verðlagshækkunum.

Takmörkuð tekjuöflun þar sem almenningur greiðir aukna skatta

Frumjöfnuður mælist nú jákvæður og afgangur af honum mun, samkvæmt áætluninni, aukast út tímabilið. BSRB ítrekar áhyggjur sínar af sjálfbærni ríkissjóðs vegna ófjármagnaðra skattalækkana á síðasta kjörtímabili. Í greinagerð fjármálaráðuneytisins með þeirri áætlun kom fram að hallarekstur og skuldasöfnun mætti fyrst og fremst rekja til ófjármagnaðra skattlækkana. Við þessu hefur ekki verið brugðist með nægilegri tekjuöflun heldur hefur áherslan verið á aðahaldsaðgerðir á útgjaldahlið auk þess sem hagsveiflan hefur skilað auknum tekjum í ríkissjóð.

Aukning tekna ríkissjóðs er nauðsynleg aðgerð til að bregðast við þeim áskorunum sem almannaþjónustan stendur frammi fyrir og til að auka megi stuðning í gegnum tekjutilfærslukerfin til þeirra hópa sem verðbólgan bitnar verst á.

BSRB ítrekar fyrri tillögur sínar þess efnis að stjórnvöld efli og fjölgi tekjustofnum ríkisins. Mætti í þessu samhengi nefna hátekjuskatt, stóreignaskatt, bankaskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild ríkisins, og þar með almennings, í þeim tekjum sem fást af afnotum af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það ýtir undir velsæld og jöfnuð og mun skila sér í þróttmeira hagkerfi til lengri tíma.

Húsnæðisöryggi

Húsnæðisöryggi fyrir öll er ein helsta krafa heildarsamtaka launafólks og forsenda fyrir því að sátt náist á vinnumarkaði. Samtökin hafa því lagt sérstaka áherslu á fjölgun almennra íbúða, en það eru leiguíbúðir sem reistar eru af húsnæðissjálfseignarstofnunum með 30% stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum. Íbúðirnar eru fyrir fólk með tekjur og eignir undir ákveðnum mörkum og gert er ráð fyrir að leigan sé ekki umfram 25% af tekjum. Þörfin er þó langt umfram framboð og haustið 2022 voru um 3.600 manns á biðlista hjá Bjargi, húsnæðissjálfseignarstofnunar í eigu ASÍ og BSRB. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að árleg framlög til stofnaframlaga verði 3,7 ma.kr., eða um 370 íbúðir árlega. Í rammasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var í júlí 2022 kemur fram að reisa eigi 4.000 íbúðir árlega á næstu 5 árum og af þeim eiga 1.200 íbúðir að vera á viðráðanlegu verði. Það þýðir að íbúðirnar njóti opinbers stuðnings. Heildarsamtök launafólks hafa lagt áherslu á að reistar verði 1.000 almennar íbúðir árlega en fjárveitingar til stofnframlega í áætluninni duga ekki til að ná því markmiði. BSRB leggur ríka áherslu á að tryggðar verði fjárveitingar til stofnframlaga fyrir a.m.k. 600 íbúðir til viðbótar árlega. Miklir fólksflutningar til landsins og fjölgun ferðamanna skapa mikinn þrýsting á leigumarkaðinn. Húsnæðisöryggi er grundvöllur velferðar og því er mikilvægt að stjórnvöld setji kraft í þá uppbyggingu í samræmi við rammasamkomulagið.

Meginkrafa BSRB er sú að húsnæðiskostnaður leigjenda og eigenda verði ekki umfram 25% af ráðstöfunartekjum heimila. Ljóst er að fjöldi fólks á leigumarkaði sem og fólk sem nýlega kom inn á fasteignarmarkaðinn með mikla skuldsetningu er að greiða mun hærra hlutfall í mánaðarlegar greiðslur af húsnæði. Stjórnvöld verða að koma til móts við þennan hóp með hærri húsnæðis- og vaxtabótum. Þann aukna stuðning er ekki að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Dregið var úr skerðingum vaxtabóta vegna hreinnar eignar í samræmi við tillögur starfshóps um beinan húsnæðisstuðning. BSRB leggur áherslu á að áfram verði unnið að endurreisn vaxtabótakerfisins og horfið frá því að veikja þann þátt lífeyriskerfisins sem lýtur að séreignarlífeyrissparnaði og sem jafnframt dregur úr framtíðarskatttekjum hins opinbera.

Heilbrigðisþjónusta og heilsuójöfnuður

Ein helsta áskorun heilbrigðiskerfisins er að tryggja nægilega mönnun og festu í starfsmannahaldi. Konur eru tæplega 80% starfsfólks í heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt áætluninni jókst veikindahlutfall á sjúkrahúsum þó nokkuð á milli áranna 2021 og 2022 sem talið er að rekja megi til álags í starfi. Það er í takti við niðurstöður nýlegra kannana Sjúkraliðafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem sýnir mikið álag á þessar stéttir og að umtalsverður hluti þeirra sé að hugsa um hætta í starfi sínu. Þetta eru lykilstarfsstéttir þegar kemur að mönnun í heilbrigðiskerfinu.

Í fjármálaáætluninni kemur fram að bætt mönnun í heilbrigðiskerfinu ásamt umbótum í starfsumhverfi og vinnuskipulagi geti stuðlað að minna álagi, aukið starfsánægju og fyrirbyggt veikindafjarveru. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til að bæta þessa þætti starfseminnar heldur er viðbótin á tímabili áætlunarinnar nær eingöngu til að mæta fólksfjölgun og öldrun þjóðarinnar. Því má gera ráð fyrir að álagið haldi áfram að aukast og mannekla fari versnandi.

Gert er ráð fyrir 800 m.kr. fjárheimildum á næstu tveimur árum til að draga úr greiðsluþátttöku sjúkratryggðra en ekki kemur fram hvort til standi að gera samning við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Enginn samningur er í gildi og því fer kostnaðarþátttaka sjúklinga hækkandi. Þetta bitnar verst á þeim sem glíma við langvinna sjúkdóma og hafa takmörkuð fjárráð. Rannsóknir sýna að sjúklingar með krabbamein bera mestan kostnað á ársgrundvelli af heilbrigðisþjónustu en ef litið er til greiðsluþátttöku sem hlutfalls af ráðstöfunartekjum eru það sjúklingar með geðræna sjúkdóma sem greiða hæsta hlutfallið. Ljóst er að hærri fjárhæðir þarf til en 800 m.kr. til að semja við sérgreinalækna og á meðan samningslaust er ber veikasta fólkið, sem eðli málsins samkvæmt hefur mesta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu, þyngstu byrðarnar.

Þessar aðstæður hafa ólík áhrif eftir kyni. Konur eru að jafnaði tekjulægri en karlar og oftar einar með börn á framfæri. Þá lifa þær einnig lengur við slæma heilsu en karlar og eru 60% þeirra sem eru með 75% örorkumat. Í rannsókn Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, um stöðu launafólks sem kom út árið 2022[3] mældust konur með verri stöðu en karlar í 7 af 9 spurningum er snéru að andlegri heilsu. Þá var andleg heilsa einstæðra foreldra áberandi verst og töldu 46,6% einstæðra feðra og 44,5% einstæðra mæðra sig búa við slæma andlega heilsu. Hærra hlutfall kvenna en karla höfðu neitað sér um alla þætti þeirrar heilbrigðisþjónustu sem spurt var um. Þegar litið var til einstakra þátta höfðu 49,7% mæðra og 49% feðra neitað sér um tannlæknaþjónustu og 40,4% mæðra og 31% feðra höfðu neitað sér um sálfræðiþjónustu.

Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu og greiðsluþátttöku í fjármálaáætlun munu að óbreyttu auka heilsuójöfnuð og hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fólk með lágar tekjur og bitna hvað verst á heilsu og líðan einstæðra foreldra og barna þeirra.

Fæðingarorlof og umönnunarbil

Mánaðarleg hámarksfjárhæð greiðslna úr fæðingarorlofssjóði hefur ekki hækkað síðan í ársbyrjun 2019. Frá þeim tíma hefur vísitala launa hækkað um 35%. Á tímabili fjármálaáætlunarinnar er ekki gert ráð fyrir hækkun hámarksviðmiðunarfjárhæðarinnar sem þýðir raunskerðingu á framfærslu ungbarnafjölskyldna ef foreldri í fæðingarorlofi er með laun umfram 750.000 kr. á mánuði. Meðaltal heildarlauna var 823.000 kr. á mánuði á íslenskum vinnumarkaði árið 2021. Við þetta bætist sú staðreynd að meirihluta barna býðst ekki dagvistun fyrr en við 18-24 mánaða aldur.[4] Þar sem fæðingarorlofið er 12 mánuðir þurfa foreldrar að meðaltali að brúa 7,5 mánuði áður en leikskólapláss býðst. Rannsóknir sýna að konur axla meginábyrgðina á að brúa þetta bil og eru því lengur frá vinnumarkaði að meðaltali en karlar vegna barneigna. Það hefur neikvæð áhrif á möguleika þeirra á vinnumarkaði s.s. varðandi framgang í starfi, laun og lífeyrisréttindi. Skýr tengsl eru á milli breytinga á hámarksfjárhæð fæðingarorlofs og að feður nýti lögbundinn rétt sinn til orlofsins líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Heimild: Fæðingarorlofssjóður. Ekki er um lokatölur að ræða fyrir árin 2020 og 2021.

Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja að greiðslur til þeirra sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs verði óskertar að lágmarkslaunum. Samkvæmt ársskýrslu Fæðingarorlofssjóðs fyrir árið 2021[5] voru meðaltekjur mæðra fyrir nýtingu orlofs 392.000 kr. á mánuði og hefur 20% skerðing á þeirri fjárhæð umtalsverð áhrif á annars lágar ráðstöfunartekjur.

BSRB brýnir fyrir stjórnvöldum að standa vörð um hag barnafólks og stöðu kvenna á vinnumarkaði með því að hækka mánaðarlegar hámarksfjárhæðir úr fæðingarorlofssjóði til samræmis við þróun launa og tryggja lágmarksgreiðslur til samræmis við lágmarkslaun.

Þá er nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að brúa umönnunarbilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að tryggja fjármögnun leikskólastigsins og lögfesta rétt barna til leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi líkt og gert er á hinum Norðurlöndum.

Stafvæðing og opin vinnurými hjá ríkinu

Ríkisstjórnin hyggst nýta tækifæri í stafvæðingu, innkaupum og húsnæðismálum stofnana til að draga úr útgjöldum. Í umfjöllun um aukna stafvæðingu kemur fram að ef ákveðið væri að leggja niður helming starfa þeirra sem fara á eftirlaun hjá ríkinu næstu fimm árin, að frátöldu framlínufólki, gæti uppsöfnuð hagræðing numið 7 ma.kr. í lok tímabilsins. Staðhæfingin er sett fram í samhengi við sparnað líkt og það sé meginmarkmið ríkisins í stað þess að áherslan sé lögð á hvaða þjónustu eigi að veita og hvernig megi tryggja gæði hennar ásamt heilbrigðu og góðu starfsumhverfi. BSRB hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að Stafrænt Ísland greini áhrif stafvæðingar á störf hjá ríkinu til að tryggja megi að starfsfólk hljóti viðeigandi endurmenntun til að mæta breyttum verkefnum eða til að styðja við það vegna mögulegra breytinga á störfum. Ennfremur hefur BSRB ítrekað óskað eftir því að ákvarðanir um fyrirhugaða stafvæðingu verði teknar í samráði við samtök launafólks vegna þeirra áhrifa sem hún mun hafa á störf og starfsfólk ríkisins.

Hvað varðar þróun opinna vinnurýma er mikilvægt að litið sé til þarfa bæði starfsfólks og starfsemi viðkomandi starfsstaða. Ekki er sjálfgefið að opin vinnurými henti allri starfsemi. Mikilvægt er þegar hugað er að breytingum að vinna að þeim í samráði við starfsfólk. Þá er brýnt að vinna faglega að sameiningu stofnanna og stuðla þannig að sem bestum áhrifum þeirra á mannauð og þekkingu sem er til staðar á viðkomandi starfsstöðum.

Samantekt

Núverandi efnahagsástand þrengir verulega að fjárhag tekjulægri einstaklinga og barnafjölskyldna og ráðleggur OECD stjórnvöldum að takast á við þann ójöfnuð m.a. með því að tryggja að skatta- og tilfærslukerfin gagnist öllum. Ójöfnuður hefur samkvæmt OECD marghliða afleiðingar fyrir samfélög þar sem hann dregur úr félagslegum stöðugleika, langtímahagvexti og tækifærum einstaklinga. Í skýrslu um efnahagsmál og vinnumarkað sem unnin var fyrir þjóðhagsráð og birt var í ágúst sl. kemur fram að það sé hlutverk ríkisfjármálanna að bregðast við áföllum og mæta þeim sem verst verða úti með auknum stuðningi.

 

BSRB leggur áherslu á að:

  • Almannaþjónustan verði efld til að auka velsæld og bæta kjör og starfsumhverfi þeirra sem veita þjónustuna.
  • Tekjuöflun verði aukin hjá þeim sem sannarlega hafa svigrúm til þess að greiða hærri skatta. Með því megi tryggja rekstur opinberrar þjónustu og tryggja sjálfbærni ríkissjóðs. Í þessu samhengi mætti til dæmis nefna hátekjuskatt, eignaskatta, bankaskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild almennings af tekjum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það ýtir undir velsæld og jöfnuð og mun skila sér í þróttmeira hagkerfi til lengri tíma.
  • Ríkissjóður styðji við fólk í tekjulægri hópum og heimili með þunga framfærslubyrði með eflingu barna-, húsnæðis- og vaxtabótakerfisins.
  • Stofnframlög verði aukin til að tryggja 1.000 almennar íbúðir árlega og húsnæðis- og vaxtabótakerfin efld svo að byrði húsnæðiskostnaðar tekjulægri hópa verði ekki umfram 25 prósent af ráðstöfunartekjum.
  • Hækka þarf lágmarks- og hámarksgreiðslur í fæðingarorlofskerfinu og brúa umönnunarbilið frá fæðingarorlofi til leikskóla.
  • BSRB leggur ríka áherslu á að allar breytingar á starfsumhverfi starfsfólks ríkisins verði að höfðu samráði við samtök launafólks.

 

Fyrir hönd BSRB

Heiður Margrét Björnsdóttir

hagfræðingur

 

 

 

[1]Tekjur allra á heimilinu fyrir skatta.

[2] https://www.samkeppni.is/utgafa/i-brennidepli/verdhaekkanir-og-samkeppni/

[3] https://www.rannvinn.is/_files/ugd/61b738_a832231abeed492cb01753df50838ab0.pdf

[4] https://www.bsrb.is/static/files/Utgefid_efni/skyrsla-bsrb-umonnun.pdf

[5] Bráðabirgðatölur.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?