Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks

Reykjavík, 7. febrúar 2022

BSRB hefur tekið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks sem sett var í samráðsgátt stjórnvalda þann 18. janúar sl.

BSRB fagnar þeim mikilvægu réttarbótum sem þegar hafa orðið í málaflokki hinsegin fólks, til að mynda með samþykkt laga um kynrænt sjálfræði og breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Ísland á að vera fyrirmynd þegar kemur að jafnrétti hinsegin fólks. Tillaga þessi um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks er því tímabær og mikilvæg og BSRB styður hana í meginatriðum.

BSRB telur aðgerð nr. 3 um kortlagningu á stöðu hinsegin fólks á ýmsum sviðum samfélagsins afar mikilvæga, ásamt aðgerð nr. 4 um fræðslu til stjórnenda ríkisins. Aðgerð nr. 14 miðar að því að gera rannsókn á viðhorfum og þekkingu atvinnurekenda á málefnum hinsegin fólks. BSRB telur að e.t.v. mætti setja skýrari fókus á vinnandi hinsegin fólk og gera sérstaka rannsókn sem snýr að þátttöku og stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði. Ekki er til mikil þekking um málefnið hér á landi, en ýmsar vísbendingar eru um að hinsegin fólk verði fyrir ýmis konar mismunun. Í slíkri rannsókn þyrfti einnig að taka tillit til fjölþættrar mismununar.

BSRB veltir því einnig upp hvort bæta megi við aðgerð sem snýr að tungumáli og notkun fornafna, t.d. með útgáfu leiðbeininga. Þær gætu tekið gildi hjá ríkisstofnunum til að byrja með. Eftir að ný lög um jafnrétti kynjanna tóku gildi þarf til að mynda ávallt að gera ráð fyrir því að kynin séu fleiri en tvö í opinberum eyðublöðum. Á síðustu misserum hafa orðið til ný fornöfn og orð, svo sem hán og kvár, og líklegt að fleiri verði til á næstunni. Þá þarf að gæta að því að tungumálið sem notað er sé ekki einskorðað við karla og konur. Íslenskt tungumál er að mörgu leyti afar karllægt og því væri gagnlegt bæði fyrir stjórnendur opinberra stofnana sem og allan almenning að hafa aðgengilegar leiðbeiningar og skýringar um það hvernig á að nota tungumálið þannig að gert sé ráð fyrir öllum kynjum og fjölbreytileika samfélagsins.

Þá leggur BSRB mikla áherslu á að samráð og samvinnu við hagsmunasamtök hinsegin fólks, svo sem Samtökin 78 og systurfélög þess. Hinsegin samfélagið á Íslandi hefur verið í fararbroddi í mannréttindabaráttu hinsegin fólks og þau búa yfir mestri þekkingu á því sviði. BSRB lýsir sig einnig tilbúið til að taka þátt í vinnu við verkefni framkvæmdaáætlunar að því er varðar vinnumarkaðinn.


Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?