Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030

Umsögn BSRB vegna tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, 509. mál.

Reykjavík, 28. febrúar 2019

BSRB vísar til erindis frá nefndasviði Alþingis dags. 7. febrúar sl. þar sem óskað var eftir umsögn bandalagsins vegna ofangreindrar þingsályktunartillögu. Eitt af hlutverkum BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu og stuðla að bættu velferðarsamfélagi. Af þeim sökum eru málefni heilbrigðiskerfisins mikið hagsmunamál innan bandalagsins og þau málefni er snúa að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna.

BSRB fagnar því að unnið sé að heildstæðri stefnu fyrir heilbrigðiskerfið til framtíðar. Fulltrúar bandalagsins sátu fund í velferðarráðuneytinu þar sem fjallað var ítarlega um heilbrigðisstefnuna, ásamt því að taka þátt í heilbrigðisþinginu sl. haust þar sem stefnan var til kynningar og umfjöllunar. Þar lýstu fulltrúar BSRB yfir ánægju sinni með innihald stefnunnar.

BSRB hefur alla tíð látið sig varða málefni heilbrigðiskerfisins og í stefnu bandalagsins má finna ýmislegt sem á sér samhljóm í þeirri þingsályktunartillögu sem er hér til umfjöllunar. Þar er lögð áhersla á að öflugt velferðarkerfi sé til staðar sem tryggi landsmönnum viðeigandi heilbrigðisþjónustu án tillits til greiðslugetu sem sé fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þar er fjallað um starfsumhverfi starfsmanna heilbrigðiskerfisins og tekið fram að tryggja þurfi öryggi bæði sjúklinga og starfsmanna með viðeigandi vinnuskilyrðum. Þá segir að efla þurfi heilsugæslu til þess að létta álagi af neyðarþjónustu og að BSRB leggist alfarið gegn einkavæðingu heilbrigðisþjónustu. Bandalagið vill þannig sporna við gjaldtöku innan kerfisins og auka greiðsluþátttöku hins opinbera þegar kemur að nauðsynlegum lyfjum. Þá segir enn fremur að tryggja verði að starfsfólk heilbrigðiskerfisins starfi alltaf við besta mögulega starfsumhverfi hverju sinni þar sem skýr mannauðsstefna sé til staðar.

Þessi atriði og fleiri má finna í stefnu BSRB sem samþykkt var á 45. þingi bandalagsins 17. til 19. október sl. Bandalagið er afar jákvætt gagnvart þeim atriðum er fram koma í þingsályktunartillögunni og heilbrigðisstefnunni sjálfri. BSRB leggur þó ríka áherslu á samhliða stefnumótun í heilbrigðiskerfinu fylgi með fjármagn frá hinu opinbera og að kerfið verði fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum þar sem horfið verði af braut einkavæðingar og aukinnar greiðsluþátttöku almennings.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?