Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi, 19. mál.

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreinda þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að Alþingi álykti svo um að fela ríkisstjórninni að vinna að þjóðarmarkmiði um að allir Íslendingar fái heimilislækni og heimilisteymi á heilsugæslu. Samkvæmt tillögunni skuli stefna að því að markmiðið takist á næstu tíu árum en á næstu fjórum árum vegna einstaklinga yfir 60 ára, langveikra og öryrkja.

Með þingsáktunartillögunni fylgir ítarlegur listi yfir aðgerðir sem snúa að þessu markmiði og eiga þær allar sameiginlegt að efla heilbrigðiskerfið og þá sér í lagi heilsugæslu landsmanna. Eins og segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni er afar lágt hlutfall Íslendinga með fastan heimilislækni, eða einungis um helmingur. Þetta hlutfall er mun hærra í nágrannalöndum okkar og skapar mikið óöryggi. Fólk jafnvel veigrar sér við að leita til læknis, enda bæði mikið álag á heilsugæslum og einstaklingar ekki með fastan heimilislækni eða með aðgang að föstu heimilisteymi. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að huga að landsbyggðinni þar sem ekki eingöngu of fáir heimilislæknar eru starfandi miðað við íbúafjölda heldur einnig reynist oft erfitt að fá viðeigandi þjónustu í heimabyggð.

BSRB tekur heilshugar undir efni þingsályktunartillögunnar og styður framgang hennar.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?